Hver tekur á móti þér?

Aníta Rún er komin 32 vikur á leið og er …
Aníta Rún er komin 32 vikur á leið og er uggandi vegna uppsagna ljósmæðra. Ljósmynd/Einkasafn

Staðan í málefnum ljósmæðra veldur óléttum konum ugg. Þær eru órólegar og vita ekki hvort ljósmæður verði á vakt og hvort margar konur verði að fæða á sama tíma. Spurningin um hver taki á móti hinu ófædda barni og hvort nægt fagfólk verði til staðar er eins og óveðursský yfir höfðum þungaðra kvenna.

Aníta Rún á að fæða stúlkuna sína eftir um það bil fimm vikur og hún er uggandi. Hún skrifar reglulega á lífstílsbloggvefinn Lady.is og veltir hér vöngum yfir stöðunni og lýsir áhyggjum sínum: 

_________________________________________________

„Ég er komin 32 vikur á leið, nú fer heldur betur að koma að þessu elskan mín, ekki nema 5-6 vikur eftir! 

Ó hvað ég er spennt að fá þig í hendurnar, kyssa bollukinnarnar þínar og tásur!
Halda í litlu puttana þína og horfa djúpt í fallegu augun þín og segja „Hæ, ég er mamma þín.“

En elsku stelpan mín, ég veit ekki hver mun taka á móti þér.

Þannig er nú mál með vexti elsku dúllan mín að ljósmæður eru að fara í verkfall því þær eru á svo lágum launum. – Já ég veit, það er skelfilegt!
Öll þjónusta er orðin takmörkuð og ástandið lítur alls ekki vel út, þú verður að fyrirgefa að ég treysti mér ekki til að taka sjálf á móti þér, sérstaklega þar sem fæðingin með bróður þinn gekk ekki nógu vel.

Ó hvað ég er spennt að fá þig í hendurnar, …
Ó hvað ég er spennt að fá þig í hendurnar, kyssa bollukinnarnar þínar og tásur! Halda í litlu puttana þína og horfa djúpt í fallegu augun þín og segja „Hæ, ég er mamma þín.“ Ljósmynd/einkasafn


Pabbi þinn er nú orðinn ansi sjóaður í þessu öllu saman, en hvað ef eitthvað kemur upp á? Hvað ef þú lendir líka í axlarklemmu í fæðingu eins og bróðir þinn?
Hvað ef útvíkkun stoppar eins og síðast? Hvað ef það þarf að sprengja belginn eins og bæði hin skiptin?
Ég veit ekki hvað við gerum þá, ætli við getum ekki google-að það.

Mitt starf sem móðir er og verður alltaf númer eitt, tvö og þrjú að passa upp á börnin mín, en þetta er því miður ekki í mínum höndum.

Ég vildi óska að það væri eitthvað sem ég gæti sagt eða gert til að taka áhyggjurnar í burtu, en þangað til ríkið semur við ljósmæður og býður þeim ásættanleg laun er ekkert sem ég get gert. 

Veistu ljósið mitt, að ljósmóðurstarfið er fallegasta starf í heimi. Ljósmóðir er líka fallegasta íslenska orðið. Ljósmóðurstarfið er sennilega mikilvægasta starf sem til er. Þær sjá um að fæðingar gangi vel, sjá um að meðgangan gangi vel og þær sjá líka til þess að fyrstu dagarnir heima gangi vel. Þær eru með gullhjarta!  Án þeirra væri bróðir þinn ekki á lífi, svo mikið er víst.

Við höldum bara áfram að bíða og vona það besta, elsku hjartað mitt.

Áfram ljósmæður! Ekki gefast upp! 
Þið fáið fullan stuðning frá okkur mæðgum!

Baráttukveðjur,
Aníta Rún

Færsla Anítu Rúnar á lífstílsblogginu Lady.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert