Þegar strákar eru betri í stærðfræði

Rannsókn meðal nemenda í Bandaríkjunum bendir til að staðbundnar venjur …
Rannsókn meðal nemenda í Bandaríkjunum bendir til að staðbundnar venjur geti haft áhrif á getu barna í skóla – og að strákar séu undir meiri áhrifum að þessu leyti. mbl.is/thinkstockphotos

Oft er litið svo á að strákar séu betri en stelpur í stærðfræði. Staðreyndin er hins vegar sú að almennt standa kynin jöfnum fótum í námslegri getu, a.m.k. fram að áttunda bekk. En auðvitað eru dæmi um einstakar undantekningar fyrir bæði kyn. 

Nú hefur hins vegar  komið í ljós að í skólum fyrir börn af hvítum uppruna og frá efnuðum fjölskyldum eru strákar mun líklegri til að skara fram úr í stærðfræði, samkvæmt nýlegri rannsókn í Bandaríkjunum á vegum Stanford.

Rannsóknin byggir á 260 milljónum staðlaðra einkunna frá nemendum í þriðja til áttunda bekkjar frá nær hverju skólahéraði Bandaríkjanna. Hún bendir til þess að staðbundnar venjur hafi áhrif á getu barna í skóla – en jafnframt að strákar séu undir mun meiri áhrifum að þessu leyti. 

„Það gæti verið að um einhvers konar væntingar sé að ræða, einhvers konar skilaboð til barnanna eða hvernig komið er fram við þau í skólanum,“ sagði Sean Reardon, prófessor frá Stanford-háskólanum. Sean stýrði rannsókninni ásamt Erin Fahle, doktorsnema í menntastefnu þar, og samstarfsmönnum. „Eitthvað verður til þess að strákum gengur betur en stelpum á einhverjum sviðum og stelpum betur en strákum á öðrum sviðum.“

Rannsóknin inniheldur niðurstöður prófa frá árunum 2008 til 2014 frá tíu þúsund af u.þ.b. tólf þúsund skólahéruðum Bandaríkjanna. Heilt yfir voru drengir með verri árangur en stelpur í ensku og tungumálum. Í hinum almennu skólahéruðum voru stelpur framar en strákar.

En í stærðfræði er lítið sem ekkert kynjabil. Á um fjórðungi svæða standa stelpur betur, og þá sérstaklega í þeim sem einkennast af fólki af afrísk-amerískum uppruna og með lágar tekjur. Í öðrum svæðum eru strákar betri – og langtum betri á þeim svæðum þar sem býr efnað fólk af hvítum eða asísk-amerískum uppruna. 

Svo virðist sem þessi sérstaki mismunur kynjanna í stærðfræði endurspegli þversögn heimilislífs hjá vel efnuðum foreldrum. Það er, þeir telja sig aðhyllast jafnréttissjónarmið um kynhlutverk – en á sama tíma eru þeir líklegri til að fara eftir hefðbundnum venjum; maðurinn á vinnumarkaði meðan konan sér um heimilið. 

Bilið þótti stærst í þeim héruðum þar sem menn þénuðu mikið, höfðu háleitar meiningar um menntun og unnu einna helst á sviðum viðskipta og vísinda. Konur á þessum svæðum þénuðu öllu minna. Aðstæður sem slíkar virðast miðla þeim skilaboðum að synir skuli í framtíðinni gegna hálaunuðu starfi á sviði stærðfræði.

Rannsóknarmenn vilja meina að foreldrarnir fjárfesti í svokölluðum staðalímyndum, þar sem þeir skrá dætur sínar í ballett en syni í verkfræði.

Efri millistéttar- og efristéttarfjölskyldur eru taldar fjárfesta heldur í drengjum heimilisins þar sem menn í þessum félagshópi þéni almennt meira en konur. Á sama tíma vilja láglaunafjöskyldur styðja við bak dætra sinna þar sem konur innan verkalýðsstéttar eigi fremur tækifæri á atvinnu en menn.

Samkvæmt rannsókninni verða drengir fyrir sterkari áhrifum af uppeldisaðstæðum. Umhverfi af hámenntuðum toga og þar sem mikil fjárráð skapa tækifærin, hafa hvetjandi áhrif á einkunnir, hegðun og framtíðartekjur þeirra. Svo lengi sem námsframvinda drengja er eftirsótt og tekur mið af framtíðarvelgengni standa þeir sig betur og eru líklegri til að feta í fótspor feðra sinna.

Frétt þessi er unnin upp úr grein í The Washington Post.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert