Vinsælt ráð til að róa órólegt ungbarn

mbl.is/Thinkstockphotos

Sennilega eru ekki til neinar töfralausnir þegar kemur að því að róa óvær ungabörn. Hins vegar er til myndband af bandaríska barnalækninum Robert Hamilton sem starfar í Santa Monica í Kaliforníu, sem hefur verið skoðað meira en 10 milljón sinnum á YouTube og því líklegt að einhverjum og einhverri hafi þótt ráðið geta virkað.

Þessi tækni við að róa barn er kallað „the hold“ á ensku sem gæti útlagst „utanumhaldið“ en fjölskylduvefur mbl.is þiggur betri tillögur að þýðingu á Facebook-síðu sinni. Dr. Hamilton, sem er einnig sex barna faðir, segir að þessi einfalda tækni hjálpi órólegum börnum að slaka á og halda þeim rólegum.

Í myndbandinu huggar dr. Hamilton ungabarn sem hafði fengið sprautu og var eðlilega hverft við og grét sáran. Foreldrum sem horfa á litla ungann sinn svo vansælan líður þá yfirleitt illa enda er grátur ungabarns talinn eitt erfiðasta hljóð sem fullorðnir heyra. Dr. Hamilton tekur barnið upp og vefur handleggjum þess saman eins og sjá má á myndbandinu, styður við höfuð þess og sveiflar því rólega upp og niður og stundum í hæga hringi. Barnið hættir samstundis að gráta.

Fjölskyldan lofar ekki sama árangri og dr. Hamilton í myndbandinu en þetta er þó aðferð sem óhætt er að prófa þegar annað hefur brugðist.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert