Slímgerð er góð fyrir sálina

Katrín Lilja Sigurðardóttir, efna- og slímfræðingur.
Katrín Lilja Sigurðardóttir, efna- og slímfræðingur. Ljósmynd/Wikipedia.org

Efnafræðingurinn Katrín Lilja Sigurðardóttir gaf nýlega út bók sem eflaust er kærkomin viðbót við bókakost fjölmargra fjölskyldna á Íslandi. Um er að ræða bókina Slímbók Sprengju-Kötu þar sem hún útskýrir í máli og myndum hvernig á að gera slím úr einföldum efnum – sem og trölladeig og kristalla. Þetta er fyrsta bók hins unga efnafræðings en vonandi hún deili með lesendum sínum fleiri hugðarefnum úr ævintýraheimi efnafræðinnar í framtíðinni. 

Slímgerð er skapandi og svo er slakandi að handleika slím.
Slímgerð er skapandi og svo er slakandi að handleika slím. Ljósmynd/Aðsend


Slímgerð er skemmtileg og skapandi og flestir krakkar hafa gaman af að búa til litskrúðugt slím af ýmsu tagi, breyta og bæta og leika sér svo með það, teygja það og toga, hnoða og láta leka. Katrín Lilja er augljóslega áhugasöm um slímgerð og kann að gera hana skemmtilega og aðgengilega fyrir krakka, og ekki bara slím heldur líka kristalla og trölladeig.

Fjölskyldan ákvað að heyra í Katrínu Lilju og lagði fyrir hana nokkrar spurningar

- Hvenær ákvaðstu að gerast efnafræðingur og varstu vísindanörd sem barn?

Sem barn var ég virkilega forvitin um það hvernig hlutirnir í kringum mig virkuðu og úr hverju þeir væru. Ég man vel eftir því að hafa skorið sundur golfkúlur og klippt sundur dúkkurnar mínar til þess eins að finna út hvað væri fyrir innan. Þetta myndi auðvitað kallast óvitaskapur en í raun er efnafræði ekkert svo ólík. Efnafræðingar skoða reyndar mun dýpra inn í efnin, rannsaka t.d. sameindabyggingu efna og nota til þess mun þróaðri tækni en bara hníf og skæri. Aðeins þriggja ára gömul fylgdist ég með eldri systur minni læra að lesa. Þá sat ég á móti henni við eldhúsborðið og fylgdist með hvernig hún las upphátt meðan hún fylgdi bókstöfunum eftir með vísifingri. Það má því segja að ég hafi lært að lesa á hvolfi! Stuttu síðar var ég komin á bólakaf í Heimilislækninn og Íslensku alfræðiorðabókina en hafði ekki mikinn áhuga á skáldsögum. Í grunnskóla var stærðfræði uppáhaldsfagið mitt. Ég man hvað mér þótti skemmtilegt að fá nýjar stærðfræðibækur en þær entust yfirleitt bara til næsta dags því þá var ég búin að leysa öll dæmin. Á þessum tíma voru engar tölvur og að sjálfsögðu ekkert internet. Milli þess sem ég dundaði mér heima þá lékum við krakkarnir okkur úti í boltaleik eða á snjóþotu,“ segir Katrín Lilja. 

Hún segir að í skóla hafi henni fundist allar vísindagreinar skemmtilegar. Hún fór á stærðfræðibraut í menntaskóla og byrjaði svo í stærðfræði í Háskóla Íslands. „Það var ekki fyrr en ég var orðin 24 ára og gekk með mitt þriðja barn sem ég ákvað að verða efnafræðingur. Ég er enn þá í efnafræði í Háskóla Íslands, nema nú er ég að kenna þar í stað þess að læra. En það sem er svo skemmtilegt við efnafræði er að það er endalaust hægt að læra eitthvað nýtt, þótt maður sé orðinn kennari!“

Slímgerðarhráefni.
Slímgerðarhráefni. Ljósmynd/Aðsend


- Ertu sjálf mikil slímgerðarkona 

„Ég kynntist fyrst slímgerð fyrir nokkrum árum þegar ég leyfði nemendum í Háskóla unga fólksins að gera grænt slím. Það var sennilega fyrsta hópslímgerðin á Íslandi! Í fyrra fóru svo dætur mínar á bólakaf í slímgerð hérna heima en við fundum uppskriftir á netinu. Sumar þessara uppskrifta virkuðu illa. Einhver efni voru ófáanleg hérna heima meðan önnur efni voru alls ekki hentug til slímgerðar. Þá var ákveðið að vinna markvisst að því að prófa slímuppskriftir og finna út hvað virkaði. Þannig að í nokkrar vikur var starfrækt slímgerðartilraunastofa hérna heima og ég verð að segja að heimilið hafi verið mjög vinsælt meðal annarra barna meðan á þessu stóð!“

- Getur svona slímgerðarþekking nýst með einhverjum öðrum hætti í lífinu en bara við slímgerð?

 „Það er smá kúnst að búa til slím því maður er stöðugt að leitast eftir réttri þykkt og áferð. Þess vegna er best ef uppskriftir eru ekki of nákvæmar og maður vinnur slímið rólega þar til rétt áferð næst. Ég er viss um að þannig vinnubrögð eru þroskandi fyrir börn. Mér finnst líka mjög mikilvægt að börn sem vinna í slímgerð læri að það er mjög mikilvægt að ganga frá og þrífa eftir sig. Það er algjörlega bannað að skilja við slímgerðarsvæði í rúst!

Út er komin Slímbók Sprengju-Kötu.
Út er komin Slímbók Sprengju-Kötu. Ljósmynd/Aðsend


 - Er slímgerð sé góð fyrir sálina? 

Slímgerð er frábær fyrir sköpunargleðina og auðvitað er miklu skemmtilegra að leika sér með slím sem maður hefur búið til sjálfur. Það er gott fyrir sálina að skapa eitthvað sjálfur og hlúa að því. Finna efnin sem þarf, hræra saman þar til rétt áferð næst og passa svo upp á að slímið geymist vel. Ef slímið er ekki of klístrað má handleika það eins og stressbolta. Teygja það og toga, nudda og hnoða og þannig getur maður alveg gleymt sér. Þannig að já, slímgerð er klárlega góð fyrir sálina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert