Snobb ekki í boði, leyfðu barninu að velja

Barnarithöfundurinn Ævar segir að snobb gagnvart barnabókmenntum sé ekki í …
Barnarithöfundurinn Ævar segir að snobb gagnvart barnabókmenntum sé ekki í boði þegar hvetja eigi börn til að lesa. Þau eigi alltaf að fá að velja sínar bækur. mbl.is/Golli

Fjölskyldan á mbl.is fékk hinn snjalla rithöfund og vísindamann Ævar Þór Benediktsson til að svara nokkrum spurningum um léttlestur, hvort mismunandi endir skapi ekki glundroða í lífum ungra barna og hvort lestrarátök skili einhverju. Íslendingar eru nefnilega alltaf að fara í einhver átök.

Tilefnið er útkoma léttlestrarbókanna Þín eigin saga – Búkolla og Þín eigin saga – Börn Loka sem eru fyrstu léttlestrarbækur höfundar. Þær eru spunnar upp úr bókunum Þín eigin þjóðsaga og Þín eigin goðsaga sem hafa notið gríðarlegra vinsælda á undanförnum árum. Í bókunum er það lesandinn sem ræður ferðinni og meira en tíu mismunandi sögulok eru í hvorri bók um sig. 

Í lokin bætti blaðakona Fjölskyldunnar einni persónulegri spurningu við því hún á níu ára dreng sem þarf mjög gjarnan að gera eitthvað annað mjög mikilvægt þegar kemur að lestrarstund; fara í bað, leita að einhverju, ræða mikilvægt mál við systkini sín eða jafnvel taka til. Í tilfelli þess stutta kemur Andrés Önd sterkur inn, en kannski að Ævar komi þar á eftir enda báðir bráðskemmtilegir.

 - Jæja Ævar, hvað er léttlestrarbók?

„Léttlestrarbók, alla vega eins og ég skrifa þær, er bók þar sem setningarnar eru styttri, tungumálið einfaldara, stafirnir stærri og myndirnar fleiri. Þetta eru oft fyrstu bækur nýrra lesenda eða bækur fyrir lesendur sem vilja auðveldari texta eða eiga erfitt með lestur. Í stuttu máli sagt: Þetta eru afar mikilvægar bækur.

Ljósmynd/Aðsend

- Af hverju eru þær mikilvægar?

Léttlestrarbækur eru oft fyrstu bækur barna og geta kennt þeim að bækur geta verið spennandi, skemmtilegar, fyndnar og áhugaverðar. Og um leið og börn læra það gera þau sér grein fyrir því að það eru aðrar spennandi bækur þarna úti. Léttlestrarbækur búa til lesendur.

- Mismunandi sögulok, skapar slíkt ekki bara rugling fyrir börn sem þurfa oft að hafa reglu á hlutunum?

Mismunandi sögulokin er einmitt það sem skilur Þín eigin-bækurnar frá öllum öðrum bókum. Þetta eru bækur sem þú getur lesið aftur og aftur án þess að lesa sömu söguna. Ef þú ert vopnaður nokkrum bókamerkjum er enginn vandi að koma í veg fyrir rugling. Þessar bækur eru líka afar góð æfing í skipulagi og fullkomnar bækur fyrir fólk með valkvíða, enda góð æfing í því að taka ákvörðun og standa með henni.

 - Verður aftur lestrarátak Ævars vísindamanns í vetur?

Lestrarátak verður haldið í fimmta og síðasta skiptið í vetur. Það byrjar 1. janúar og mun standa til 1. mars. Allir krakkar í 1.-10. bekk munu geta tekið þátt og fimm krakkar verða svo valdir af handahófi og gerðir að persónum í síðustu bókinni um Bernskubrek Ævars vísindamanns.

Ævar Þór Benediktsson rithöfundur.
Ævar Þór Benediktsson rithöfundur. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

- Eru Íslendingar ekki bara átakaóðir, heldurðu að lestrarátök skili einhverju?

Að sjálfsögðu! Annars væri ég ekki að þessu. Oft þarf bara smá hvatningu til að ýta krökkum af stað og lestrarátök eru ein af mörgum leiðum til þess. Skólarnir og skólabókasöfnin eru sömuleiðis mörg hver mjög dugleg við lestrarspretti og alls kyns átök og viðurkenningar tengd lestri innan skólanna, sem skila sér svo sannarlega í auknum áhuga á lestri.

- Hvernig er best að fá krakka til að lesa sem reyna alltaf að koma sér hjá því?

 Við fullorðna fólkið þekkjum það sjálf að það er fátt verra en leiðinleg bók sem maður er neyddur til að lesa. Ég tel að lykillinn að því að vekja lestraráhuga hjá einhverjum sem hefur engan áhuga er að leyfa honum eða henni að velja hvað þau vilja lesa. Allir hafa áhuga á einhverju. Ef krakkarnir þínir vilja bara lesa fótboltabækur er það frábært. Ef tölvuleikjatímarit er það eina sem kíkt er í skaltu hvetja þau áfram. Ef Myndasögusyrpur eða Kafteinn Ofurbrók er það eina sem þau hafa lyst á skaltu hlaupa niður á næsta bókasafn og fylla bókapokann þinn af þeim!

Snobb er ekki í boði, leyfðu börnunum að velja.

Svo má heldur ekki gleyma því að foreldrar eru fyrirmyndir og ef bækur eru sjaldséðar á heimilinu er pínu ósanngjarnt að býsnast út í barnið fyrir að lesa ekki. Lesið saman, ræðið bókina, búið til skemmtilega samverustund úr lestrinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert