„Mjög erfitt að sjá líkamann minn breytast“

Sara Pétursdóttir og Guðlaugur Andri Eyþórsson eiga von á barni …
Sara Pétursdóttir og Guðlaugur Andri Eyþórsson eiga von á barni en þau fagna tíu ára sambandi á árinu. Ljósmynd/Guðlaugur Andri Eyþórsson

Sara Pétursdóttir á von á sínu fyrsta barni með sambýlismanni sínum, Edduverðlaunahafanum Guðlaugi Andra Eyþórssyni. Sara og Guðlaugur eiga von á syni í febrúar en sonurinn á að fá nafnið Luca Guðlaugsson. 

Sara segist ekki hafa gengið með þann draum lengi í maganum að verða móðir. 

„Ég var lengi mjög ákveðin í því að eignast aldrei barn líklegast bæði vegna þess að barnsfæðingar voru mjög óhugnanlegar í mínum augum og vegna brotinnar sjálfsmyndar þar sem ég sá ekki fyrir mér að geta orðið góð mamma. Ég var með þá hugmynd fasta í hausnum á mér að ég væri léleg í öllu nema tónlist. Sem er einmitt ástæðan fyrir því að ég þurfti á því að halda að taka pásu frá tónlistinni til að kynnast sjálfri mér betur og finna að ég get gert ýmislegt fleira en að búa til tónlist. Það sem fékk mig líka til að skipta um skoðun og langa að verða móðir er hann Gulli maðurinn minn, mig langar ekkert meira en að kynnast lítilli útgáfu af okkur báðum og eiga litla fjölskyldu með honum.“

Hvernig leið þér þegar þú komst að því að þú værir ólétt?

„Mér leið bara dásamlega. Þetta var smá sjokk fyrst og mér fannst þetta svolítið óraunverulegt fyrstu dagana en svo fylltist ég bara spenningi.“

Sara er spennt að hitta litla blöndu af sér og …
Sara er spennt að hitta litla blöndu af sér og sambýlismanni sínum. Ljósmynd/Guðlaugur Andri Eyþórsson

Sýnir sér mildi

Hvernig hefur þér liðið á meðgöngunni?

„Ég er bara búin að vera mjög þreytt alla meðgönguna sem varð til þess að ég þurfti að hætta að vinna frekar snemma (á 15. viku) og einbeita mér einungis að því að búa til þessa litlu manneskju. Ég var með svolitla ógleði fyrstu þrjá mánuðina og svo fékk ég kórónuveiruna í fyrsta sinn þegar ég var komin sjö vikur á leið. Ég held ég hafi samt sloppið ágætlega þar sem veikindin entust bara í örfáa daga með þessum hefðbundnu flensueinkennum.“

Hefur eitthvað verið sérstaklega ánægjulegt á meðgöngunni?

„Að finna spörkin er einstök upplifun og mjög krúttlegt en fyrir utan það finnst mér ekkert mjög gaman að vera ólétt ef ég að vera alveg hreinskilin. Það er alltaf talað um hvað þetta er dásamlegt og að maður ljómar af fegurð en mér hefur bara alls ekkert liðið þannig. Ég upplifi mig frekar sem svona labbandi kartöflu sem hlær og grætur á sama tíma.“

En hvað hefur verið krefjandi?

„Mér hefur fundist mjög erfitt að sjá líkamann minn breytast og þekkja ekki sinn eigin líkama lengur, mér finnst enn mjög skrítið að horfa á mig í spegli. Svo er einstaklega leiðinlegt að finna hægt og rólega að maður getur ekki gert hluti sem maður gat gert. Allar hreyfingar taka meira á og ég upplifi mig svo þunga. Mig dreymir um að fá að valhoppa, sofa á maganum og fá mér ristað brauð með reyktum lax.“

Guðlaugur Andri er kvikmyndaklippari og tók þessar fallegu meðgöngumyndir af …
Guðlaugur Andri er kvikmyndaklippari og tók þessar fallegu meðgöngumyndir af Söru. Ljósmynd/Guðlaugur Andri Eyþórsson

Þú hefur opnað þig um andleg veikindi, hefur þú þurft að hugsa sérstaklega vel um þig á meðgöngunni?

„Ég var búin að vera á kvíða- og þunglyndislyfjum í ár áður en ég varð ólétt svo ég var þeirra vegna í mjög góðu jafnvægi andlega en svo þegar ég var um hálfnuð á meðgöngunni fór ég að upplifa mjög mikið þunglyndi í nokkrar vikur sem reyndar batnaði svo. Kvíðinn hefur lítið sem ekkert verið að stríða mér sem ég er mjög þakklát fyrir. En vegna þess að ég er með sögu af kvíða og þunglyndi þá er ég alveg viðbúin fyrir því að detta í lægð eftir fæðingu en vona samt það besta. Lykillinn er að sýna sér mildi og skilning, draga djúpt andann og halda áfram.“

Var ekki í stuði til þess að klæða sig eins og skvísa

Þú hefur starfað innan tískuheimsins, ertu að pæla í meðgöngutískunni?

„Mig langar að segja já því þegar ég varð ólétt þá sá ég alveg fyrir mér að vilja leika mér með tískuna og klæða mig skemmtilega þegar ég væri komin með kúlu á magann. En svo var ég bara aldrei í stuði fyrir það og starði bara á fötin í skápnum mínum sem ég passaði ekki lengur í og grét því ég saknaði þess að vera skvísa. Svoleiðis er bara raunveruleikinn minn á þessari meðgöngu,“ segir Sara og hlær.  

Ertu byrjuð að skipuleggja fæðinguna?

„Veistu ég veit bara ekkert út í hvað ég er að fara svo ég veit ekki alveg hvernig ég á að skipuleggja fæðinguna en ég er á leiðinni á námskeið fljótlega sem ég vona að muni hjálpa mér eitthvað.“

Fyrir hverju ertu spenntust í móðurhlutverkinu?

„Ég er svo spennt að fá að kynnast nýjum einstaklingi og fá að læra af honum.“

Sara hefur á undanförnum lært vel inn á sjálfa sig.
Sara hefur á undanförnum lært vel inn á sjálfa sig. Ljósmynd/Guðlaugur Andri Eyþórsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert