Erfiðara að segja ekki frá

Sara Pétursdóttir leitaði sér hjálpar vegna kvíða og þunglyndist í …
Sara Pétursdóttir leitaði sér hjálpar vegna kvíða og þunglyndist í sumar. Það tók verulega á hana að byrja á þunglyndislyfjum en nú hefur hún aldrei verið hamingjusamari. Ljósmynd/Guðlaugur Andri Eyþórsson

Sara Pétursdóttir, betur þekkt undir listamannsnafninu Glowie, leitaði sér hjálpar vegna þunglyndis og kvíða í byrjun sumars. Henni finnst erfitt að tala um andlegu veikindin en segir mikilvægt að gera það til þess að geta mögulega hjálpað öðrum í sömu stöðu. Sara ákvað að taka sér hlé frá tónlistinni fyrr á þessu ári en hún hefur lifað og hrærst í tónlistarheiminum síðan hún vann Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir hönd Tækniskólans árið 2014. 

„Ég gekk með þetta í maganum í rúmt ár þangað til ég loksins hafði kjarkinn í að viðurkenna fyrir sjálfri mér að þetta væri það besta fyrir mig og mína heilsu. Ég átti mjög marga erfiða daga og mörg kvöld þar sem ég grét mig í svefn því mér fannst ákvörðunin svo erfið. Mér leið eins og ég væri að yfirgefa sjálfa mig, sem segir margt um hversu mikið ég hafði týnt mér í tónlistarferlinum, því mér fannst ég ekki vera neins virði án tónlistar,“ segir Sara í viðtali við Smartland. 

Hún segir tilfinningarnar í kjölfarið hafa verið mjög blendnar. Fyrst hafi hún upplifað létti og frelsi, en líka sorg, því sama hversu mikið hún þurfti á því að halda að stíga til hliðar þá elskar hún samt að búa til tónlist. 

Sara varð fræg á einni nóttu í Söngkeppni framhaldsskólanna, þá 17 ára gömul, en ári seinna gaf út hún sitt fyrsta lag, No More. Í kjölfarið fylgdu fleiri lög og útgáfusamningur við Columbia Records. Hún flutti út til Bretlands og þar varð draumur hennar frá unglingsárunum að veruleika. 

Sara Pétursdóttir, Glowie, sigraði keppnina árið 2014 fyrir hönd Tækniskólans.
Sara Pétursdóttir, Glowie, sigraði keppnina árið 2014 fyrir hönd Tækniskólans.

Vissi ekki hver hún var án tónlistarinnar

Snemma árs 2020 flutti Sara heim til Íslands. Heimsfaraldurinn geisaði og þá var lítið að gera í tónlistinni. Mestur tíminn fór í að sitja inni í hljóðveri og semja tónlist. Árið 2019 hafði verið henni nokkuð erfitt, en það var fyrst þá sem kvíðinn, sem hún hafði glímt við frá því að hún var barn, fór að hafa áhrif á líf hennar. 

„Það gaf mér mikinn tíma til að vera ein með sjálfri mér, til að leika mér að semja lög sem voru allt öðruvísi en þau sem ég hafði gefið út og bara til að leika mér og gera tilraunir með tónlistina. En svo komu tímabil á milli þar sem ég fann ekki fyrir innblæstri og fór þá bara að gera eitthvað annað, eða reyndi það. Þá fór ég svona hægt og rólega að átta mig á því að ég vissi bara ekkert hvað annað ég ætti að gera og fann mjög sterkt fyrir því að ég vissi í raun ekkert hver ég var ef tónlist væri ekki hluti af lífi mínu,“ segir Sara sem var þá var 23 ára. 

Hún segir að þá hafi hún verið búin að vera með tónlistarferilinn á heilanum í sjö ár. „Ég fékk mjög sterka tilfinningu um að ég þyrfti aðeins að skoða mig og finna fyrir því hver ég er sem fullorðin manneskja án tónlistar. Þessi ákvörðun kom sér líka vel þar sem ég hafði lengi verið að berjast við andleg veikindi, kvíða og þunglyndi. Og þurfti að virkilega gefa mér tíma til að vinna almennilega úr því,“ segir Sara.

Sara hitaði upp fyrir Ed Sheeran þegar hann spilaði á …
Sara hitaði upp fyrir Ed Sheeran þegar hann spilaði á Laugardalsvelli árið 2019. Ljósmynd/Guðlaugur Andri Eyþórsson

Fór upp á svið skjálfandi af kvíða

„Það var ekki fyrr en árið 2019 sem það kom svolítið erfiður kafli og kvíðinn kom mjög sterkur inn. Þá hafði ég heyrt helling um andleg veikindi þannig að ég þekkti að það var það sem var í gangi hjá mér. Þá var kvíðinn það mikill að ég átti erfitt með að borða og grenntist  þá alveg svakalega,“ segir Sara en þetta var á þeim tíma sem hún kom heim til Íslands til að hita upp fyrir breska tónlistarmanninn Ed Sheeran. 

„Ég gat nánast ekkert borðað fyrir giggið þannig ég fór upp á svið skjálfandi af kvíða, flökurt og orkulaus og keyrði mig í gegnum þetta á adrenalíninu. Það var krefjandi en það tók ekki frá mér dásamlegu upplifunina að fá að syngja aftur á Íslandi,“ segir Sara.

Aldrei liðið jafn vel og í dag

Sara fór fyrst til sálfræðings sumarið 2022 og fékk greiningu á kvíðanum og skildi betur hvaðan hann kom og hvers vegna hún fann fyrir honum. 

„Það sem ég lærði var að ég upplifi mjög auðveldlega kvíða og þunglyndi vegna þess að ég er með ADHD og hugsanlega með smá einhverfu líka. Það er svona súrt og sætt að heyra það, geggjað að vita af hverju manni líður eins og manni líður en vont að finna að vanlíðanin stafar einfaldlega af því hvernig heilinn virkar. Þannig ég upplifði mig svolítið fasta með þessi andlegu veikindi. En það fékk mig til að byrja að prófa kvíða- og þunglyndislyf. Það ferli var einstaklega erfitt þar sem ég upplifði nánast allar aukaverkanir sem voru á listanum,“ segir Sara og lýsir orkuleysi, lystarleysi og kvíðaköstum nokkrum sinnum á dag í átta vikur. 

„Inn á milli kvíðakasta þurfti ég að gráta það mikið að það bjó til mikla vöðvabólgu í hnakkanum sem olli mér stanslausum höfuðverkjum. Vanlíðan var svo mikil og svo lengi að ég var komin með sjálfsvígshugsanir oft á dag sem gerði mig mjög hrædda við það að vera ein heima. Því var alltaf einhver hjá mér. Læknarnir sögðu mér alltaf að bíða lengur og lengur, fyrst var bara sagt mér að þetta myndi taka 2-3 vikur til að virka en svo var ekki í mínu tilfelli. Svo þegar lyfin fóru loksins að virka þá var ég mjög fljót að gleyma þessu erfiða tímabili því mér var farið að líða svo vel. Þá fannst mér þetta allt 100% þess virði að fara í gegnum. Mér hefur aldrei á ævinni liðið jafn vel og í dag,“ segir Sara. 

Syngur við hvert tækifæri

Í dag er hún í fullu starfi í Gallerí 17 í Smáralind en tíska hefur verið eitt af hennar aðaláhugamálum síðan hún var lítil stúlka. „Það hefur alltaf verið svona á bak við eyrað að fara eitthvað í tískubransann. Ég hef verið svolítið í kringum tískubransann bæði hér á landi og úti í London að sitja sem fyrirsæta fyrir alls konar flott fatamerki. Eins og til dæmis Tommy Hilfiger, Bershka, ASOS, Freebird, Jör, Another Creation, Yeoman og fleira. Og mér fannst tískuumhverfið alltaf svo sjarmerandi þannig ég er aðeins að prófa mig áfram í því í fatabúðinni. Í allri hreinskilni laumast ég oft að syngja svolítið í vinnunni, sérstaklega ef það er eitthvað skemmtilegt lag í gangi, þá á ég erfitt með að hemja mig. Svo syng ég bara á hástöfum í bílnum á leiðinni heim,“ segir Sara. 

Hún segist án efa sjá fyrir sér að hún snúi sér aftur að tónlistinni í framtíðinni. 

Á ekki að vera lúxus að fá aðstoð

Sara er þakklát þeim sem hjálpuðu henni að komast á þennan stað en segir að aðgengi að hjálp á Íslandi mætti vera mun betra. Hjálpin geti kostað mikið og því sé erfitt fyrir efnaminna fólk að leita sér hjálpar. 

„Það á ekki að vera lúxus að fá aðstoð við andleg veikindi, þetta á að vera aðgengilegt fyrir alla. Svo held ég að það séu ofboðslega margir sem þora ekki að leita sér hjálpar eða finnst það vera tabú. Það þarf að tala meira um þetta og hætta að dæma fólk fyrir að upplifa andleg veikindi. Andleg veikindi stafa ekki af hugarfari okkar, heldur er það skortur eða offramleiðsla á ákveðnum efnum í líkamanum. Þetta er allt líkamlegt alveg eins og aðrir sjúkdómar,“ segir Sara. 

Sara bendir á að það geti verið mjög kostnaðarsamt að …
Sara bendir á að það geti verið mjög kostnaðarsamt að leita sér hjálpar vegna andlegra veikinda á Íslandi. Ljósmynd/Guðlaugur Andri Eyþórsson

Spurð hvernig það hafi verið að opna sig opinberlega um andlegu veikindin og aukaverkanir lyfjanna, en hún greindi fyrst frá þessu í færslu á Instagram, segir Sara að það sé erfitt að segja frá þessu öllu saman, en mikilvægt. „Mér fyndist eiginlega erfiðara að gera það ekki því þá finnst mér ég ekki vera gera allt sem ég get til að hjálpað öðru fólki í sömu sporum. Það er svo vont að upplifa sig einan í svona stöðu,“ segir Sara sem fékk góð viðbrögð við færslunni. 

Hvaða ráð viltu gefa þeim sem eru í svipaðri stöðu og þú varst í?

„Það er enginn fullkominn, það díla allir einhvern tímann við andleg veikindi hvort sem fólk viðurkennir það eða ekki. Það er ekkert til að skammast sín fyrir. Að biðja um hjálp sýnir kjark og styrkleika ekki veikleika. Andleg veikindi er ekki eitthvað sem þú getur bara hrist af þér eða eitthvað sem göngutúr mun lækna. Það krefst mikillar vinnu að koma sér úr andlegum veikindum en svo þegar maður er kominn hinum megin við brúna þá er lífið svo gott og þá er maður svo ánægður að hafa lagt vinnuna í betri líðan,“ segir Sara að lokum.

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda