Var sökuð um að vera slæm móðir

Sophie Turner gekk í gegnum afar erfiðan skilnað.
Sophie Turner gekk í gegnum afar erfiðan skilnað. AFP

Sophie Turner hefur opnað sig um skilnaðinn við Joe Jonas og þær ásakanir um að hún væri alltaf úti á lífinu. Hún vill meina að hún sé góð móðir en hún og Jonas voru gift í fjögur ár og deila forræði yfir tveimur börnum.

„Ég man að ég var í tökum og þurfti að vera á svæðinu í tvær vikur í viðbót þannig að ég gat ekki farið. Börnin mín voru í Bandaríkjunum og ég gat ekki farið til þeirra því að ég þurfti að ljúka tökum. Þá fóru allar þessar greinar að birtast í fjölmiðlum,“ segir Turner í viðtali við breska Vogue. Hún lýsir þessu tímabili sem verstu dögum lífs síns.

„Þetta var sárt því ég geri allt fyrir börnin mín og ég er alltaf með samviskubit. Ég þurfti stöðugt að segja við sjálfa mig að þetta væri ósatt. Ég er góð móðir og hef aldrei verið partí-ljón.“

Turner átti ekki í nein hús að venda eftir að hún og Jonas hættu saman. Hún leitaði á náðir Taylor Swift og spurði hvort hún vissi um einhvern sem vildi leigja sér íbúð. Swift bauð henni eigin íbúð án endurgjalds.

„Ég hef aldrei verið jafn þakklát annarri manneskju. Hún tók mig og börn mín og veitti okkur heimili og öryggi. Hún er með hjarta af gulli.“

Sjálf var Swift í sambandi við Jonas í þrjá mánuði en hann sagði henni upp í gegnum síma en símtalið varði í 27 sekúndur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert