Sá Lassie-myndina og varð ástfangin af tegundinni

Annabella R. Sigurðardóttir á tvo hunda, Stellu og Molly.
Annabella R. Sigurðardóttir á tvo hunda, Stellu og Molly. Samsett mynd

Hin 23 ára gamla Annabella R. Sigurðardóttir er fædd og uppalin í Hafnarfirði og býr þar ásamt hundunum sínum tveimur, Stellu sem er tíu ára gömul og af tegundinni Miniature Pinscher, og Molly sem er tveggja ára af tegundinni Rough Collie sem margir kannast eflaust við úr þáttunum og kvikmyndunum um hundinn Lassie.

„Stella er prinsessan á heimilinu sem stjórnar öllu, en hún er mjög stór karakter í litlum líkama. Stella elskar ekkert meira en að borða, sofa og kúra – þá helst undir teppi eða sæng,“ segir Annabella. 

„Molly er yndisleg í alla staði. Hún er alltaf glöð, ljúf og blíð við alla og er alveg svakalega barngóð. Hún er líka mjög hlýðin og alltaf tilbúin að gera allt fyrir mann,“ bætir hún við. 

Stella og Molly eru skemmtilegir karakterar.
Stella og Molly eru skemmtilegir karakterar.

Annabella hefur alla tíð verið mikil dýramanneskja og þá sérstaklega hrifin af hundum. Þegar hún var tíu ára sá hún kvikmyndina Lassie og varð ástfangin af tegundinni Rough Collie. „Ég suðaði endalaust í mömmu og pabba að fá Rough Collie-hund en þau voru bara til í að leyfa mér að fá lítinn hund sem færi ekki mikið úr hárum og sögðu að ég gæti fengið mér stóran hund þegar ég myndi flytja að heiman. Þá rakst ég á hana Stellu sem ég keypti fyrir fermingarpeningana mína og erum við búnar að vera óaðskiljanlegar síðan,“ rifjar Annabella upp. 

Molly kom svo inn í líf okkar Stellu þegar ég flutti að heiman. Eftir ellefu ára bið rættist loksins sá draumur að fá mér Rough Collie og ég sé ekki eftir neinu – allir elska Molly sem kynnast henni,“ bætir hún við. 

Annabella keypti Stellu fyrir fermingarpeningana.
Annabella keypti Stellu fyrir fermingarpeningana.

Hvað var það sem heillaði þig við tegundirnar?

„Báðar tegundirnar eru orkumiklar og sætar, en það sem heillaði mig mest við Rough Collie er feldurinn og geðslagið. Þegar það er hugsað vel um feldinn verða þeir svakalega fallegir – tegundin er svakalega klár og virkilega hlýðin ef vinnan er sett í hundana.“

Rough Collie-hundar eru með einstaklega fallegan feld.
Rough Collie-hundar eru með einstaklega fallegan feld.

Áttir þú gæludýr þegar þú varst yngri?

„Þegar ég var níu ára fengum við fjölskyldan okkur hund af tegundinni Pug sem hét Óskar og síðan ári seinna annan sem hét Lúlli. Þeir voru yndislegir karakterar sem ég sakna á hverjum degi.

Ég hef alltaf verið mikill dýravinur og byrjaði að stunda hestamennsku ung að aldri og eyddi öllum mínum stundum uppi í hesthúsi.“

Hverjir eru kostirnir við að eiga hunda?

„Ég lifi fyrir hunda og þeir verða besti vinur manns. Það er alltaf einhver sem tekur á móti manni þegar maður kemur heim og þeir elska ekkert meira en eigandann sinn.“

Það eru margir kostir við að eiga hunda.
Það eru margir kostir við að eiga hunda.

En ókostirnir?

„Mér finnst erfitt að finna ókosti við það að eiga hund, en einn helsti ókosturinn er að mér finnst erfitt að skilja þær eftir heima þegar ég fer í ferðalag.“

Annabella segir að helsti ókosturinn sé að þurfa að skilja …
Annabella segir að helsti ókosturinn sé að þurfa að skilja hundana eftir þegar hún fer í ferðalag.

Hver er ykkar daglega rútína?

„Það fer alveg eftir dögum. Suma daga er meira um að vera en aðra, en ég vil að þær finni ró, líði vel og fái sína hvíld alla daga því hvíld hjá hundum er jafn mikilvæg, ef ekki mikilvægari en hreyfingin. Þær byrja alla daga á því að fara út í garð eftir morgunmat og svo förum við í göngu seinnipartinn. Eftir kvöldmat förum við svo aftur út í styttri göngu. Molly fer svo alltaf einu sinni í viku í snyrtingu til að halda feldinum góðum þar sem ég baða og blæs hana.

Ég hef mikinn áhuga á þjálfun hunda og hef lagt mikla vinnu í að þjálfa þær á mörgum sviðum, bæði fyrir sýningar og umhverfisþjálfun. Ég hef verið að sýna Molly á hundasýningum sem okkur finnst mjög gaman og inn á milli æfi ég hana í uppstillingum. Síðan er umhverfisþjálfun eitt það mikilvægasta fyrir hunda sem og að byggja upp sjálfstraustið þeirra.“

Annabella hefur lagt mikla vinnu í að þjálfa hundana sína.
Annabella hefur lagt mikla vinnu í að þjálfa hundana sína.

Hafið þið deilt einhverjum eftirminnilegum lífsreynslum eða skemmtilegum minningum?

„Ég er með endalausar sögur af okkur saman og þá aðallega af Stellu því hún stingur oft upp á að gera allskonar hluti. Það eftirminnilegasta með Stellu er þegar ég var með hana í reiðtúr á bökkunum á Dalvík og hún var að njóta sín þvílíkt – síðan allt í einu sér hún gæsir í ánni og tekur u-beygju og hoppar út í ána á eftir gæsunum.

Einu sinni vorum við líka í útilegu þegar Stella var bara tveggja ára, en hún átti það til að skoða sig um þótt hún væri aldrei neitt langt. Eina stundina vorum við ekki búin að vera vör við hana í smá tíma, sem var óvenjulegt því þótt hún sé lítið þá fer mikið fyrir henni. Við vorum búin að gera dauðaleit af henni í rúma tvo tíma og hvergi var hún. Síðan settist mamma niður inni í fellihýsinu og þá heyrist þvílíkt væl ... þá var Stella búin að vefja sig þar inn í einhver teppi og hafði verið steinsofandi allan tímann á meðan við vorum með hjartað í buxunum.“

Annabella og Stella eiga margar skemmtilegar og fyndnar minningar saman.
Annabella og Stella eiga margar skemmtilegar og fyndnar minningar saman.

„Molly er ennþá svo ung og ekki búin að vera lengi með mér. Hún gerir líka aldrei neitt af sér en okkar besta móment var á síðustu sýningu þegar hún vann og fékk meistaraefni og frábæra umsögn. Hún kom mér þvílíkt á óvart og stóð sig frábærlega. Manni finnst alltaf hundurinn sinn fallegastur, en að fá frábæra umsögn um hundinn sinn frá öðrum er æðislega gaman.“

Molly hefur gengið frábærlega á hundasýningum.
Molly hefur gengið frábærlega á hundasýningum.

Eru hundarnir með einhverjar sérþarfir eða sérviskur?

„Molly er frekar einföld og er bara glöð með allt sem hún fær en Stella verður að hafa sæng eða teppi til að troða sér undir þegar hún er að kúra.“

Hvernig gengur að skipuleggja frí með dýr á heimilinu?

„Það er ekkert mál. Allir í kringum mig eru til í að vera með þær, það er frekar ég sem fæ aðskilnaðarkvíða frá þeim.“

Annabella viðurkennir að það sé frekar hún sem fái aðskilnaðarkvíða …
Annabella viðurkennir að það sé frekar hún sem fái aðskilnaðarkvíða frá hundunum en öfugt.

Einhver góð ráð til annarra gæludýraeigenda?

„Maður þarf að muna þegar maður fær sér hund eða hvolp sem er partur af okkar lífi í kannski tíu til sextán ár, að þú ert eigandinn allt þeirra líf. Við verðum að hugsa vel um hundana okkar og gefa þeim sem best lífsgæði.“

Annabella gefur góð ráð til annarra gæludýraeigenda.
Annabella gefur góð ráð til annarra gæludýraeigenda.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert