Uppeldisráð Höllu Hrundar: „Það er engin ein rétt leið í uppeldi“

Halla Hrund Logadóttir og dæturnar Hildur Kristín og Saga Friðgerður. …
Halla Hrund Logadóttir og dæturnar Hildur Kristín og Saga Friðgerður. Hér eru mæðgurnar í sveitinni. Ljósmynd/Aðsend

Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi og eiginmaður hennar, Kristján Freyr Kristjánsson, meðstofnandi og framkvæmdastjóri 50 skills, eiga tvær dætur, þær Hildi Kristínu 11 ára og Sögu Friðgerði 4 ára.

„Það er engin ein rétt leið í uppeldi og fyrir mér er það að ala upp börn stöðugt lærdómsferli sem gengur út á að vera alltaf að leita að hinum gullna meðalveg. Bæði á milli þess að hvetja börnin sín áfram og að leyfa þeim að feta sinn veg og á milli þess að styðja þau og leyfa þeim að reka sig á. Ég held að maður komist aldrei á þann stað að vera með einhverja fastmótaða uppeldisáætlun. Maður gerir bara sitt besta í öllum aðstæðum og lærir af reynslunni,“ segir Halla Hrund sem gefur lesendum hér nokkur uppeldisráð.

Halla Hrund Logadóttir á tvær dætur ásamt eiginmanni sínum, Kristjáni …
Halla Hrund Logadóttir á tvær dætur ásamt eiginmanni sínum, Kristjáni Frey Kristjánssyni. Ljósmynd/Aðsend

1. Gefðu börnunum þínum rými til að gera mistök og læra af þeim

„Við höfum tilhneigingu til að vilja bjarga börnunum okkar og leysa hlutina fyrir þau en þá fá þau ekki tækifæri til að læra að treysta eigin dómgreind og byggja þannig upp sjálfstraust. Sjálfstraust er ekki að finnast þú frábær heldur bókstaflega það að treysta sjálfum þér og þú lærir ekki að treysta sjálfum þér nema þú fáir að prófa þig áfram í að leysa vandamál og læra af reynslunni.“

2. Vertu tilbúin að viðurkenna eigin mistök

„Við gerum öll mistök sem foreldrar og markmiðið ætti ekki að vera að reyna að hætta að gera mistök því það er ekki hægt. Við eigum öll daga þar sem við erum ekki vel upp lögð og bregðumst kannski ekki við eins og við hefðum viljað. Það sem er mikilvægt, hins vegar, er hvað við gerum í framhaldinu. Með því að taka ábyrgð á eigin hegðun þá sýnum við barninu okkar að þau og þeirra tilfinningar skipti máli en líka að það er í lagi að gera mistök.“

3. Takmarkaðu skjátíma

„Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hvaða áhrif snjalltæki hafa á börn (og fullorðna!). Ég veit ekki hvort þetta flokkist sem uppeldisráð en ég er sannfærð um að eitt af því besta sem við getum gert fyrir börnin okkar í nútíma samfélagi er að takmarka aðgengi þeirra að snjalltækjum eins lengi og við getum.“

4. Gefðu börnunum þínum rými til að leiðast

„Við fjölskyldan erum dugleg að gera skemmtilega hluti saman. Sérstaklega um helgar. Þá förum við í sund eða hjólatúra en það þarf að mínu mati ekki alltaf að vera dagskrá. Í rauninni held ég að það sé gagnlegt að svo sé ekki. Með því að vera stanslaust að tryggja að börnunum okkur leiðist ekki þá tökum við frá þeim frábært tækifæri til að þróa með sér skapandi hugsun og læra að vera sjálfum sér nóg.“

Halla Hrund, Kristján og dæturnar ásamt Jóhönnu Steingrímsdóttur og Loga …
Halla Hrund, Kristján og dæturnar ásamt Jóhönnu Steingrímsdóttur og Loga Ragnarssyni.

5. Hugsa vel um sjálfan sig

„Aftur veit ég ekki hvort þetta geti flokkast sem uppeldisráð en ég held að það skipti svo miklu máli sem foreldri að hlúa vel að sjálfum sér (það gengur reyndar misvel hjá mér eftir því hvað dagarnir færa manni í fang). Bæði af þeirri augljósu ástæðu að ef þér líður vel þá ertu betra foreldri, en ekki síður vegna þess að með því að hugsa vel um okkur sjálf erum við að setja gott fordæmi fyrir börnin okkar. Þau eru eins og svampar og taka miklu frekar eftir því sem við gerum en því sem við segjum.“

6. Gleðin

„Ég hef óbilandi trú á hlátri og gleði. Hljómar einfalt en það eru held ég alltof margir sem gleyma að hafa gaman og hlæja. Á okkar heimili þá eru reglulega danspartý sem eru ekki flóknari en svo að við kveikjum á tónlist og dönsum. Svo er líka mikilvægt að gera grín að sjálfum sér, maður verður að hafa húmor fyrir því hvað maður er ófullkominn og alltaf að læra.“

Halla Hrund Logadóttir segir mikilvægt að halda í gleðina í …
Halla Hrund Logadóttir segir mikilvægt að halda í gleðina í uppeldinu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert