Hinn gullni meðalvegur

Two Tricky á góðri stundu.
Two Tricky á góðri stundu. Ljósmynd/Hreinn Magnússon

Það hefur líklegast ekki orðið jafn mikið fjaðrafok fyrirfram og nú yfir framlagi okkar til Söngvakeppni evrópska sjónvarpsstöðva síðan við sendum ávísunina innistæðulausu úr Gleðibankanum til Noregs. Við eigum velgengni Selmu að þakka þennan endurfengna áhuga á keppninni. Það hverfur líklegast seint úr manna minnum árið sem við rétt töpuðu fyrir "uppblásnu sænsku Abba Barbie-dúkkunni", eins og sjálfskipaðir sófasérfræðingar í Evróvisjónfræðum kölluðu Charlotte Nilson svekktir og fullvissir um að ljósu lokkarnir og þröngi kjóllinn hafi ekki verið annað en herbragð Svía til þess að ræna af okkur titlinum.

Krækiber í helvíti

Kappsfullir sjónvarpsunnendur brenna líklegast í skinninu yfir því að komast að því hvaða brögðum Einar Bárðarson og Two Tricky-hópurinn ætla að beita í Kaupmannahöfn hinn 12. maí næstkomandi. Í þágu sameinaðra samtaka saumaklúbba á Íslandi króaði ég lagahöfundinn af og forvitnaðist um undirbúning og leikaðferðir íslenska hópsins.

"Það er búið að undirbúa allt sem þarf að vera tilbúið á þessum tímapunkti," svarar Einar Bárðarson. "Myndbandið og lagið er komið í fullan búning, heimasíðan www.twotricky.com er komin upp og við erum að vinna í kynningarmálunum erlendis. Um páskana var hópurinn nokkra daga á Hótel Örk þar sem við byrjuðum formlega á söng- og dansæfingum. Annars verð ég nú bara að segja að ég er þvílíkt ánægður með krakkana. Núna viku fyrir þessa ferð er atriðið fullklárað. Þau eru búin að leggja þvílíkt á sig og fara langt fram úr mínum björtustu vonum. Það er góður mórall í hópnum, rétta hugarfarið og það skiptir öllu máli í svona verkefnum. Sama má segja um alla sem hafa verið okkur innan handar. Það er sama hvar maður hefur komið, allir eru tilbúnir að hjálpa og slá hvergi af. Við erum öll staðráðin í því að verða landi, þjóð og fjölskyldum okkar til sóma."

Á hvað leggið þið áherslu?

"Að flutningurinn verði góður og að atriðið verði sjónrænt. Þetta er helmingi stærra en þetta var í fyrra, þá voru um 15 þúsund manns. Sviðið verður því eins og krækiber í helvíti og það þarf að vera eitthvað til þess að grípa. Það er mjög auðvelt að fara yfir strikið, bæði í búningum, dansatriðum og öllu. Við ætlum að reyna að gera þetta þannig að þetta fari ekki fyrir brjóstið á neinum en samt þannig að tekið verði eftir þessu. Við ætlum að fara hinn gullna meðalveg."

Verður þetta mikil vinna þegar þið komið út?

"Við komum þarna á sunnudegi og það er strax æfing snemma morguninn eftir. Við verðum önnur í röðinni og öll atriðin eru æfð í sömu röð. Síðan eru búningaæfingar á fimmtudag, föstudag og laugardag sem miðast við að allt eigi að vera eins og á keppniskvöldinu sjálfu. Þá er allt tekið upp, þannig að ef einhver skyldi fá slag eða hreinlega ekki geta verið á sviðinu um kvöldið þá eru til upptökur af atriðinu. Ef einhver misstígur sig, dettur eða ef hljóðið fer úr sambandi er skipt yfir í eldri upptöku. Í svona stórri útsendingu verður ekkert hægt að byrja upp á nýtt, það verður bara allt að vera klárt."

Segðu okkur aðeins frá myndbandinu.

"Það er hugarfóstur Samúels Bjarka Péturssonar sem ég hef unnið með í gegnum Skítamóral áður. Það er verið að sýna þetta í löndunum úti og við höfum fengið mjög góð viðbrögð. Ég er reyndar búinn að sjá öll myndböndin og miðað við heildarpakkann komum við mjög vel út. Kostnaður fór upp í vel eina og hálfa milljón þegar allt er talið saman. Allar sviðsmyndirnar voru sérsmíðaðar, eftirvinnslan og fyrirsæturnar og allt slíkt telur líka. Sjónvarpið og ég skiptum kostnaðinum. Það er aðeins verið að leika sér með fortíð, nútíð og framtíð en að öðru leyti er ekki mikil ádeila í myndbandinu. Það er meira verið að hugsa um að hafa þetta stílhreint og skemmtilegt."

Enska útgáfan ekki þýðing á íslenska textanum

Átti lagið ekki upphaflega að heita "Baby" á ensku?

"Ég sagði það bara í einhverju gamni, þá var í raun ekki til nein fullkláruð útgáfa af enska textanum. Ég sletti þessu fram í öllum látunum og fjölmiðlar gripu það á lofti. Mér var í raun alveg sama, svo kom eitthvað annað í ljós og þá vakti þetta aftur athygli. Það var bara verið að spila á fjölmiðlaheiminn. Magnús Þór Sigmundsson vann enska textann með mér. Ég ákvað að vinna með honum þar sem hann vann í Englandi við lagasmíðar í 5 ár þegar Change var upp á sitt besta. Hann er sér mjög meðvitandi um hvað hann er að gera. Þegar maður er að semja fyrir Eurovision þarf maður að höfða til svo margra. Við Íslendingar höfum sjaldnast fengið stig frá Ítalíu, Spáni, Grikklandi eða þar sem kaþólsk trú er ríkjandi. Við reynum svolítið að höfða til þeirra, það er náttúrlega bara tilraun. Þetta er bara texti um konu, en það er verið að spila inn á tilfinningar allra þjóðflokka."

Þetta er þá ekki þýðing á íslenska textanum?

"Nei, það hefði samt alveg verið hægt, hann var mjög góður þrátt fyrir alla neikvæðu gagnrýnina sem hann fékk. Það kom frá einhverjum sem hefur ekki gefið sér tíma til þess að lesa hann. Fólk sem hefur í einfaldri athyglissýki ákveðið að þetta væri lélegur texti. Þeir hefðu bara betur aðeins kíkt yfir hann, það var tvöföld ef ekki þreföld meining í textanum."

Stílið þið inn á einhvern sérstakan aldurshóp?

"Það er erfitt að senda inn lag eftir einhverri lýðfræði, maður verður bara að fara eftir sinni eigin sannfæringu. Það á frekar að setja þetta upp þannig að maður móðgi engan, af því að það eru hlutir sem okkur finnst vera eðlilegir sem kannski einhver önnur þjóð lítur á sem hreina móðgun."

Þannig að helsta herbragð ykkar er í anda Stuðmanna. Atriðið þarf að vera hæfilega villt en samt með snyrtimennskuna í fyrirrúmi" til að ná árangri.

"Já, það er það eina sem gildir," segir Einar Bárðarson að lokum og skellir upp úr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant