Kvikmyndin Hafið hreppti átta Edduverðlaun á uppskeruhátíð Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar í kvöld og vann í öllum þeim flokkum sem tengdust leiknum kvikmyndum nema einum. Hafið var m.a. valin besta myndin og framlag Íslendinga til Óskarsverðlauna, Baltasar Kormákur var valinn besti leikstjórinn, Elva Ósk Ólafsdóttir var valin besta leikkonan í aðalhlutverki, Gunnar Eyjólfsson besti karlleikarinn í aðalhlutverki, Herdís Þorvaldsdóttir var valin besta leikkonan í aukahlutverki og Sigurður Skúlason besti karlleikarinn í aukahlutverki.
Dorrit Moussaieff og Arnar Jónsson afhentu verðlaun fyrir kvikmynd ársins. Baltasar Kormákur sagði, þegar hann tók við verðlaununum að hann tileinkaði verðlaunin Þjóðleikhúsinu því án leikhússins væri kvikmyndagerðin fátækari. Hann sagðist hafa haft af því ómælda ánægju að sjá hvern stórleikarann á fætur öðrum, sem starfað hefðu í leikhúsinu, taka við Edduverðlaunum.
Gunnar Eyjólfsson var staddur í Bled í Slóveníu með íslenska skáklandsliðinu og tók við verðlaununum gegnum farsíma Baltasars Kormáks.
Áramótaskaup Sjónvarpsins var valið besta leikna sjónvarpsverkið, Í skóm drekans var valin besta heimildarmyndin, Af fingrum fram var valinn besti sjónvarpsþátturinn, Sverrir Sverrisson var valinn besti sjónvarpsmaðurinn í kosningum á mbl.is, Árni Snævarr besti sjónvarpsfréttamaðurinn. Þá afhenti Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra Magnúsi Magnússyni sjónvarpsmanni heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar.
Á áttunda hundrað manns hafði atkvæðisrétt í ÍKSA og vógu 70% í kosningunni en kjör almennings á mbl.is vó 30%.
Verðlaunahafarnir voru eftirtaldir: