John Cleese hefur ekkert á móti Íslandi

John Cleese langar að heimsækja Ísland á árinu.
John Cleese langar að heimsækja Ísland á árinu. Reuters

John Cleese lék í þremur íslenskum auglýsingum fyrir Kaupþing, upptökur fóru fram dagana fyrir jól í Hollywood í húsi sem Frank Sinatra átti. Þorsteinn Guðmundsson grínisti, leikari og rithöfundur fór út til Hollywood við annan mann á vegum auglýsingastofunnar Ennemm til að taka auglýsingarnar upp og sagði hann að John Cleese hefði haft mikinn áhuga á verkefninu og Íslandi.

Fyrsta auglýsingin var sýnd fyrir áramótaskaupið sem Þorsteinn átti reyndar einnig stóran hlut í. Þorsteinn sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að það hefði verið gaman að vinna með Cleese og að þeir hefðu verið að gera breytingar á handritinu fram á síðustu stundu og að Cleese ætti mikið í þeirri vinnu.

„Hann kom með fullt af góðum hugmyndum en þær hentuðu ekki allar íslenskum aðstæðum,” sagði Þorsteinn. „Þetta kom mér í bobba, því ég er svo mikill aðdáandi og það var mjög erfitt að þurfa að segja honum að sumar af hans hugmyndum pössuðu ekki alveg hér heima á Íslandi,” sagði Þorsteinn og bætti við að Cleese hefði verið ákaflega faglegur og haft mikinn áhuga á að gera þessar auglýsingar sem bestar úr garði.

Verið er að vinna í því að fá John Cleese til Íslands, hann langar mikið til þess en er ákaflega upptekinn maður þótt hann sé kominn af léttasta skeiði.

Þorsteinn sagðist hafa rætt við hann um það grín um Ísland sem Cleese hefur gert í kvikmyndum og sérstaklega í einum Monty Python þætti þar sem gert var grín að víkingum og íslendingasögunum . „Þá fór hann bara allur í vörn og sagði að Terry Jones hefði skrifað það og að sér þætti Ísland áhugavert og spennandi land sem hann hefði aldrei komið til,” sagði Þorsteinn.

John Cleese var ánægður með handritin að auglýsingunum og sagði þau vera áhugaverð og góð en um leið skrýtin, sem er mjög svo í hans anda.

Þorsteinn sagði að það erfiðasta við að fá alþjóðlega stórstjörnu til að leika í íslenskri auglýsingu hefði verið öll skriffinnskan og að um margra mánaða samninga við lögfræðinga lægju að baki þessum auglýsingum. Hvað kostnaðinn varðar þá eru allir aðstandendur auglýsingaherferðarinnar mjög sáttir og í raun hissa á hversu sanngjarn Cleese er í verðlagningu en þar spilar inn í að samið er eftir mögulegum áhorfendafjölda og 300 þúsund áhorfendur eru ekki svo stór skari á alþjóðagrundvelli.

Tvær sjónvarpsauglýsingar með Cleese til viðbótar eiga eftir að birtast og einnig eitthvað af dagblaðaauglýsingum. Þær voru einnig teknar upp í húsinu sem Frank Sinatra bjó í, í tíu ár.

Áhugasamir Cleese aðdáendur geta litið á heimasíðu hans hér: Heimasíða John Cleese

mbl.is

Bloggað um fréttina

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Rannsóknir þínar leiða margt ánægjulegt í ljós. Haltu þig við það sem þú gerir best, það hefur meiri áhrif en að láta truflast af einhverju sem þú gerir jafn vel og aðrir.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Rannsóknir þínar leiða margt ánægjulegt í ljós. Haltu þig við það sem þú gerir best, það hefur meiri áhrif en að láta truflast af einhverju sem þú gerir jafn vel og aðrir.