Kraftaverk á jólum: móðir og barn lifnuðu við

Ung bandarísk kona sem um stund virtist hafa látist af barnsförum á aðfangadagskvöld kom aftur til lífsins stuttu síðar. Barnið, sem fæddist andvana að því er talið var, lifnaði einnig við í fangi föður síns. Atvikið hefur verið kallað kraftaverk á jólum.

„Fjölskylda mín lá þarna fyrir framan mín og það er ekki hægt að segja það öðru vísi, þau voru dáin," hefur ABC News eftir föðurnum, Mike Hermanstorfer. „Ég var algjörlega dofinn. Þegar hjartað í henni hætti að slá fannst mér eins og mitt hefði gert það líka."

Eiginkona Hermanstorfer, Tracey, fékk hjartastopp í miðjum hríðum á sjúkrahúsinu og var úrskurður látin. Hún hafði engan púls, engan hjartslátt, andaði ekki og var, að sögn fæðingalæknisins Stephanie Martin, dáin. „Ég sat þarna og hélt í hönd konunnar minnar og hún var köld," segir eiginmaðurinn Mike.

Eftir að hafa reynt að lífga Tracey við í nokkrar mínútur án árangurs var ákveðið að framkvæma keisaraskurð í skyndi án deyfingar til að reyna að bjarga barninu. Barnið reyndist hinsvegar ekki heldur vera með púls og um stund fannst Mike sem heimur hans hefði hrunið.

Þá byrjaði hjarta Tracey skyndilega að slá aftur og eftir lífgunartilraunir byrjaði barnið líka að anda. Móðurinni og hinum nýfædda syni, sem nefndur hefur verið Coltyn Mikel Hermanstorfer, heilsast nú vel og þau yfirgáfu sjúkrahúsið á mánudag til að fara heim til fjölskyldunnar. Læknar segjast enn ekki vita hvað olli því að Tracey fór í hjartastopp né hvað varð til þess að hún lifnaði aftur við. Sjálfur hefur Mike sína eigin kenningu. „Það er bara ein leið til að útskýra að ég hafi fengið að hafa þau bæði hjá mér áfram," segir hann við fréttamenn. „Þetta er algjört kraftaverk."

Tracey Hermanstorfer ásamt nýfæddum syni sínum.
Tracey Hermanstorfer ásamt nýfæddum syni sínum. The Gazette/Mariah Tauger
mbl.is

Bloggað um fréttina