Taisto Miettinen og unnusta hans Kristiina Haapalainen frá Finnlandi sigruðu í árlegu eiginkonuhlaupi sem fram fór í finnska bænum Sonkajärvi í dag.
Þau komu í mark á tímanum 1.01,22 mínútum. Par frá Eistlandi varð í öðru sæti, en þau komu þremur sekúndum síðar í mark.
Flestir sem taka þátt í hlaupinu nota þá aðferð að konan hangir á hvolfi aftan á manninum með fætur yfir herðar hans.
34 pör tóku þátt í hlaupinu. Hlaupið var í vatni hluta leiðarinnar og reyndi bæði á hlauparann og eiginkonuna, en höfuð hennar var á kafi í vatni meðan hlaupið var í tjörnunum.