Sarúman gefur út metal jólaplötu

Af Wikipedia

Breski stórleikarinn Christopher Lee er hvað þekktastur fyrir hlutverk sín í kvikmyndum eins og Hringadróttinssögu, Stjörnustríði, James Bond og Drakúla. Lee, sem er 92 ára gamall leikur oftar en ekki illmenni og gerir það listavel.

Lee hefur þó líka vakið athygli fyrir söng sinn og segist vera sérstaklega heillaður af „metal“ tónlist. Hann er það heillaður að nú fyrir jólin kemur út diskur með leikaranum þar sem hann syngur jólalög í metal-búningi.

Lee hefur nú gefið út fyrsta lagið sem heitir „Darkest Carols, Faithful Sing“ og er ný útgáfa á laginu „Hark! The Heralds Angels Sing“ sem Íslendingar þekkja kannski frekar sem „Friður, friður, frelsarans“. Það er vefsíða E! sem segir frá þessu.

„Þetta er létt, glaðlegt og skemmtilegt,“ segir Lee í samtali við fjölmiðla. Samkvæmt frétt E! getur Lee nú kallað sig elsta metal-tónlistarmann allra tíma. 

„Á mínum aldri er mikilvægast að halda sér gangandi með hlutum sem mér finnst skemmtilegir,“ sagði hann. „Ég veit ekki hversu lengi ég verð á lífi þannig að hver dagur er fögnuður og ég vil deila því með aðdáendum mínum.“

Lee gaf jafnframt út jólalagið „Jingle Hell“ síðustu jól. Það komst í átjánda sæti Billboard listans. 

Hér að neðan má hlusta á sýnishorn af jólalögum Lee.

Lee tekur sig vel út með gítarinn.
Lee tekur sig vel út með gítarinn. Skjáskot af Youtube
mbl.is