Tíu boðorð trúleysingja

Börn að leik. Samkvæmt boðorðum trúleysingja ber okkur að taka ...
Börn að leik. Samkvæmt boðorðum trúleysingja ber okkur að taka tillit til komandi kynslóða. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Okkur ber skylda til að hugsa um kynslóðir framtíðarinnar, það er engin ein rétt leið til að lifa lífinu og reyndu að skilja við heiminn betri en þú komst að honum. Þetta er á meðal tíu boðorða sem trúleysingjar hafa búið til og lýsa hugmyndum þeirra um lífið og tilveruna.

Það var vefsíðan Atheist Mind Humanist Heart sem stóð fyrir verkefni á netinu þar sem trúleysingjar gátu sent inn tillögur sínar að tíu boðorðum. Dómnefnd valdi síðan tíu bestu tillögurnar sem gátu talist til boðorða þeirra sem ekki trúa á yfirnáttúrulegt vald. Á meðal dómaranna var Adam Savage, annar stjórnenda þáttanna Mythbusters. Höfundar boðorðanna sem urðu fyrir valinu skiptu svo með sér 10.000 dollara verðlaunum.

Aðstandendur verkefnisins segja að þeir hafi talið þörf á því að skilgreina hugmyndaheim trúleysingja í ljósi þess hversu hratt trúleysi breiðist nú út í Bandaríkjunum og hinum vestræna heimi. Til þess þyrfti heimspeki sem byggði á rökhyggju og sönnunargögnum sem segði til um hvernig hægt væri að lifa skynsömu, siðlegu og hamingjusömu lífi án guðlegrar veru.

Boðorðin tíu sem dómnefndin valdi sem lífsreglur trúlausra eru eftirfarandi:

1. Vertu með opinn huga og vertu tilbúinn til að breyta skoðunum þínum í ljósi nýrra gagna.

2. Gerðu þitt besta til að reyna að skilja hvað sé líklegast til að vera satt, ekki trúa því sem þú vilt að sé satt.

3. Vísindaleg vinnubrögð eru áreiðanlegasta leiðin til að skilja náttúrulega heiminn.

4. Sérhver manneskja hefur rétt á að ráða yfir eigin líkama.

5. Guð er ekki nauðsynlegur til að vera góð manneskja eða til að lifa lífinu til fulls og með tilgangi.

6. Hafðu í huga afleiðingar gjörða þinna og gerðu þér grein fyrir því að þú verður að axla ábyrgð á þeim.

7. Komdu fram við aðra eins og þú vilt að þeir komi fram við þig og þú getur með skynsömum hætti búist við þeir vilji að sé komið fram við sig. Hugsaðu út frá sjónarhóli þeirra.

8. Okkar ber skylda til þess að taka tillit til annarra, þar á meðal kynslóða framtíðarinnar.

9. Það er ekki til nein ein rétt leið til að lifa lífinu.

10. Skildu við heiminn betri en þú komst að honum.

mbl.is