Svíar opna myndlistarsýningu á Eiðistorgi

Sænsku myndlistamennirnir Christina Göthesson, Susanne Högdahl Holm, Joel Hurlburt og ...
Sænsku myndlistamennirnir Christina Göthesson, Susanne Högdahl Holm, Joel Hurlburt og Ola Nilsson eru komnir hingað til lands til að sýna myndlist sína.

Á morgun, laugardaginn 11. apríl, verður sýningin „Of What is Left“ opnuð í gömlu Blómastofunni á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi. Listamenn sýningarinnar, Christina Göthesson, Susanne Högdahl Holm, Joel Hurlburt og Ola Nilsson, koma allir frá Svíþjóð úr galleríinu Studio 44.

Listamenn Studio 44 koma hingað til lands í tengslum við íslenska galleríið Kunstschlager en upplýsingar um samstarfs Studio 44 og Kunstschlager má finna á heimasíðunni TricycleBlog. Finnska galleríið Huuto er einnig partur af verkefninu.

„Verkefnið hófst fyrir tveimur árum á listkaupstefnunni Supermarked í Stokkhólmi. Þá var ákveðið að fara í þetta verkefni til að efla tengslanet galleríanna og brúa bilið á milli Norðurlandanna. Þetta verkefni hefur gefið góða innsýn inn í frábrugðið menningarumhverfi sem hvert og eitt gallerí býr yfir. Verkefnið hefur verið lærdómsríkt fyrir listamenn Kunstschlager sem er yngsta listamannsrekna galleríið í þessu samstarfsverkefni,“ segir myndlistarmaðurinn Helga Páley Friðþjófsdóttir.

Á sýningunni „Of What is Left“ eða „Það sem eftir er“ kanna listamennirnir meðal annars norrænt tungumál og sögu.

Sýningin er partur af Off-venue dagskrá Sequences Art Festival. Sama dag verður svo opnuð örsýningin „Tropicalika“ á Eiðistorgi klukkan 15:00 „Þar munu nokkrir listamenn sýna verk sín innan um marmara og pálmatré Eiðistorgs. Svo stendur gestum til boða að fá andlistmálningu og gæða sér á skýjasælu (e. candy floss),“ segir Helga að lokum.

mbl.is