Sjálfsvitundin heillandi viðfangsefni

David Cronenberg kemur til Íslands í næstu viku.
David Cronenberg kemur til Íslands í næstu viku. mynd/Nicolas Guerin

Kanadíski kvikmyndagerðarmaðurinn David Cronenberg er heiðursgestur Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, RIFF, sem hefst í dag og stendur til 4. október. Cronenberg og þýsku kvikmyndagerðarkonunni Margarethe von Trotta verða veitt heiðursverðlaun hátíðarinnar fyrir æviframlag sitt til kvikmyndagerðar.

Cronenberg vakti fyrst athygli fyrir svokallaðar „body horror“-myndir á áttunda áratugnum, hrollvekjur sem hafa að geyma líkamlegan hrylling, líkamstjón og ofbeldi, höfuð sem springa og útlimamissi svo dæmi séu tekin. Andleg veikindi og ótti hafa verið algeng stef í myndum Cronenbergs sem fjalla flestar á myrkan hátt um eðli mannsins. Cronenberg hefur tekist á við vísindaskáldskap í mörgum mynda sinna og í seinni tíð þokast frá líkamshryllingnum yfir í öllu sálrænni, dramatískari frásagnir. Í kvikmyndinni Eastern Promises frá árinu 2007 fjallaði hann um rússneska mafíufjölskyldu í Lundúnum og í A Dangerous Method frá árinu 2011 tók hann fyrir samband geðlæknanna Carl Jung og Sigmund Freud, svo dæmi séu tekin um þá beygju. En þrátt fyrir fjölbreytt höfundarverk verður Cronenberg eflaust fyrst og fremst minnst sem eins fremsta hrollvekjuleikstjóra kvikmyndasögunnar, þó að hann líti ekki sjálfur á myndir sínar sem hryllingsmyndir.

Kvikmyndir voru eins og bílar

Cronenberg fæddist í Toronto árið 1943 og varð 72 ára í mars sl. Móðir hans var tónlistarkona, faðir hans rithöfundur sem rak einnig bókabúð og sem drengur skrifaði Cronenberg sögur af miklum móð. Þegar kom að háskólanámi valdi hann líffræði en skipti svo yfir í bókmenntafræði. Hann ætlaði sér að verða vísindamaður og rithöfundur en sneri sér að kvikmyndagerð eftir að hafa séð kvikmynd eftir bekkjarfélaga sinn David Secter, Winter Kept Us Warm, árið 1966, sem skólafélagar hans léku í.

„Sú staðreynd að myndin væri til,“ svarar Cronenberg, léttur í bragði, þegar hann er spurður að því hvað það hafi verið við myndina sem kveikti áhuga hans á kvikmyndagerð. Hann segir kvikmyndagerð ekki hafa verið til staðar í Toronto eða Kanada yfirleitt á þessum tíma. „Kvikmyndir voru eins og bílar, þær komu að utan, frá Bandaríkjunum eða Evrópu. Þegar ég sá kvikmynd sem leit út eins og alvöru kvikmynd, mynd sem skólafélagar mínir léku í, varð ég frá mér numinn. Það er erfitt að lýsa þeirri tilfinningu núna þegar börn eru farin að taka upp myndir á snjallsímana sína en það var mikil uppgötvun fyrir mig á sínum tíma að ég gæti gert alvöru kvikmynd í Toronto með fólki þaðan. Það var heilmikil hugljómun og mig langaði að sjá hvort ég gæti þetta.“

Shivers stæld í Alien

– Þú hefur verið nefndur sem einn af upphafsmönnum „body horror“-myndanna ...

„Tja, ég nota ekki sjálfur þetta hugtak, „body horror“. Ég lít reyndar ekki á myndirnar mínar sem hryllingsmyndir en það er önnur saga. Einhver kvikmyndagagnrýnandi bjó til þetta hugtak, hengdi þennan merkimiða á mig og ég sit uppi með hann. Ég sá myndirnar mínar aldrei í þessu ljósi. Ég held að þær endurspegli áhuga minn á líffræði, náttúruvísindum og leiklist,“ segir Cronenberg.

„Ég er trúleysingi, trúi ekki á framhaldslíf og tel að líkaminn sé grundvöllur mannlegrar tilvistar. Það var mér því eðlilegt og lá beinast við að setja mannleg átök á svið í mannslíkamanum. Sumt af því sem ég gerði hafði aldrei verið gert áður í kvikmynd og fyrsta kvikmyndin mín í fullri lengd, Shivers, var augljóslega stæld í Alien. Ég veit að meðhöfundur handritsins að Alien þekkti til myndanna minna. Í Shivers er sníkjudýr sem brennir sér leið út úr líkamanum og stekkur framan í fólk,“ segir Cronenberg. Líkindin séu því augljós.

Ekkert líf án kímnigáfu

– Þú hefur sagt í viðtölum að þú teljir myndirnar þínar fyndnar að mörgu leyti. Hvernig þá?

„Ég get ekki ímyndað mér lífið án kímnigáfu, hún er eitt af vopnunum sem við getum beitt gegn dapurlegum hliðum lífsins og myrkrinu. Hún er líka gott vopn gegn undirokun og alræði og annars konar kúgun þannig að ég get ekki ímyndað mér lífið án hennar. Það er mér því eðlilegt að beita henni í myndunum mínum og að láta persónurnar beita henni, hún er hluti af lífinu og gangverki þess. Ég gæti aldrei gert mynd sem væri algjörlega laus við kímni,“ svarar Cronenberg.

Vænisýki, ótti og langanir af ýmsu tagi, sér í lagi kynferðislegar, koma oftar en ekki við sögu í myndum Cronenbergs og þegar hann er spurður út í þennan áhuga sinn á starfsemi heilans svarar hann blátt áfram að hún sé ákaflega forvitnileg. „Við erum með sjálfskennd, erum meðvituð um okkur sjálf og það eitt að skilja hvað það þýðir er flókin spurning, bæði heimspekilega og líffræðilega,“ segir Cronenberg. Margar rannsóknir hafa verið gerðar á því hvernig mannsheilinn hafi öðlast þessa sjálfsvitund. „Við vitum auðvitað að önnur dýr eru meðvituð um það sem er að gerast í kringum þau en þau virðast ekki vera með þessa sjálfsvitund. Það er stórmerkilegt og flókið fyrirbæri og því hafa fjölmargir velt þessu fyrir sér og skrifað bækur um það, bæði líffræðingar og heimspekingar. Mér finnst þetta heillandi viðfangsefni.“

Átök knýja áfram dramað

– Kvikmyndirnar þínar virðast eiga það sameiginlegt að innihalda ofbeldi. Þú virðist vera hugfanginn af ofbeldi...

„Nei, ég er alls ekki hugfanginn af ofbeldi. Kvikmyndagerð er ákaflega líkamlegt ferli, þú ert að mynda hluti og fólk og hún er listsköpun sem fer fram hið ytra,“ segir Cronenberg og vísar í orð írska leikskáldsins George Bernard Shaw sem sagði átök knýja áfram dramað. „Ég geri dramatískar myndir og þess vegna eru alltaf einhver átök í þeim. Auðvitað þurfa þau ekki alltaf að vera líkamleg en eru það mjög oft. Heimurinn er fullur af ofbeldi þó við upplifum það ekki endilega í okkar eigin lífi en við erum samt meðvituð um það. Að þessu samanlögðu kviknar möguleikinn á því að ofbeldi komi við sögu, þó að það sé ekki nauðsynlegt,“ bendir Cronenberg á og ítrekar að hann sé ekki heltekinn af ofbeldi. Í nýjustu mynd hans, Maps to the Stars, sé vissulega eitthvað um líkamlegt ofbeldi en ofbeldið í myndinni sé að mestu leyti andlegt. Þrátt fyrir það sé myndin líka fyndin.

Og talandi um Maps to the Stars þá er hún eina kvikmyndin sem Cronenberg hefur tekið upp í Bandaríkjunum. Hvers vegna skyldi það vera?

„Það snýst alfarið um peninga. Gengi kanadíska dollarans hefur alltaf verið lægra en þess bandaríska og því hefur verið ódýrara að taka myndirnar upp í Kanada,“ svarar Cronenberg og bætir því við að honum þyki líka gott að starfa í heimalandi sínu. Sögusvið Maps to the Stars er Hollywood og segist Cronenberg hafa þurft að taka upp atriði þar. „Það er svo þekktur staður að það var ekki hægt að taka atriðin upp annars staðar.“

Hálfgerður svartigaldur

Mörg kvikmyndastjarnan hefur leikið í myndum Cronenbergs og er leikstjórinn þekktur fyrir að ná því besta út úr leikurum sínum. Má þar nefna Jeremy Irons, Jeff Goldblum, James Spader, Julianne Moore, Viggo Mortensen og Patriciu Arquette.

„Leikaraval er hálfgerður svartigaldur því huga þarf að mörgu. Þú byrjar auðvitað á grunnatriðunum: er þetta karl eða kona, ung manneskja eða gömul, passar leikarinn við persónuna og hefur hann það sem til þarf til að túlka flókna persónu?“ segir Cronenberg. Við bætist svo stjörnuskinið og upphæðin sem hann hafi til að greiða leikurum laun. „Ef þú hefur 200 milljónir dollara þarftu kannski Tom Cruise en ef þú hefur 20 milljónir ferðu neðar í launastigann. Svo er þetta spurning um hversu stóra stjörnu þú þarft til að myndin verði fjármögnuð að fullu og við bætist svo hvers konar vegabréf leikarinn er með. Viggo Mortensen er t.d. bæði með bandarískt og danskt vegabréf þannig að þegar ég valdi hann í þrjár mynda minna valdi ég hann sem danskan leikara en ekki bandarískan,“ útskýrir Cronenberg.

Aðalatriðið sé svo auðvitað að finna réttan leikara í hvert hlutverk. „Það er lykilatriði fyrir leikstjóra að taka 100% þátt í leikaravalinu og gera sér grein fyrir öllum þessum atriðum og það þarf reynslu til að gera þetta almennilega.“

–Þú hefur sjálfur leikið í nokkrum kvikmyndum. Heldurðu að sú reynsla hafi gert þig að betri leikstjóra?

„Ja, ég átti það til að segja í gríni að svo væri alls ekki. Þegar fólk spurði hvort ég hefði meiri samúð með leikurum fyrir vikið svaraði ég því neitandi en það gerir það í rauninni því maður áttar sig á því hversu ólíkt það er að standa fyrir framan og aftan myndavélina,“ segir Cronenberg. Með því að leika hafi hann komist að því hversu varnarlaus leikarinn sé, eina verkfæri hans sé líkaminn og hann hafi eðlilega áhyggjur af því hvernig hann líti út. Það sé því ákveðinn hégómi fólginn í starfinu. „Öllum er sama þótt leikstjórinn sé órakaður eða með frunsu. Hann þarf bara að geta sagt „action“ og „cut“,“ segir Cronenberg kíminn.

Líkt því að leikstýra

Fyrsta skáldsaga Cronenbergs, Consumed, var gefin út í fyrra og segist hann hafa orðið að komast að því hvort hann gæti skrifað skáldsögu. „Þegar ég fór að sjá mig fyrir mér sem listamann hélt ég að ég yrði rithöfundur. Mér datt ekki í hug að ég yrði kvikmyndagerðarmaður en ég varð það fyrir slysni. Þannig að þegar yfirmaður Penguin-forlagsins í Kanada spurði mig hvort ég hefði einhvern tíma velt því fyrir mér að skrifa skáldsögu sagðist ég hafa verið að velta því fyrir mér í 50 ár,“ segir Cronenberg og hlær. Hann hafi komist að því að hann gæti skrifað skáldsögu og hvernig það væri að skrifa skáldsögu. „Mér fannst áhugavert að það er miklu líkara því að leikstýra en að skrifa handrit. Handritsskrif eru ólík öðrum skrifum og afar einkennileg því enginn fær í raun að lesa handritið. Einu skrifin sem rata á hvíta tjaldið eru samtölin. Þegar maður skrifar skáldsögu sér maður hins vegar um allt sjálfur: lýsingu, búninga, leikaraval og val á tökustöðum. Þannig að það kom mér á óvart hversu miklu nær það var leikstjórn en handritsskrifum að skrifa skáldsögu,“ segir Cronenberg.

Spurður að því hvers konar skáldsaga Consumed sé segir Cronenberg erfitt að lýsa því. Hún sé ekki beinlínis spennusaga þó að hún sé spennandi á köflum. „Ef þú kíkir á Amazon finnurðu lýsingar á henni,“ segir hann.

– Ertu að vinna að kvikmynd eða skáldsögu?

„Ég er að skrifa aðra skáldsögu og það mun eflaust taka nokkur ár.“

– Vonandi ekki 50 ár...

Cronenberg hlær. „Vonandi ekki, ég held ég eigi ekki 50 ár eftir.“

– Þú varðst sjötugur fyrir tveimur árum. Hvernig upplifun var það?

„Það er erfitt að verða sjötugur,“ segir Cronenberg hlæjandi og bætir við að allur aldur sé í raun erfiður. „Ég er orðinn 72 ára og á erfitt með að hugsa um sjálfan mig sem 72 ára karlmann. Auðvitað líður mér ekki eins núna og þegar ég var tvítugur en að mörgu leyti líður mér heldur ekki verr. Þetta er áhugaverð reynsla, þú býrð yfir ákveðnum ofurkröftum sem þú hefur þróað með þér en einnig veikleikum sem voru ekki áður til staðar. Þetta er mjög áhugaverð jafnvægislist.“

Viðtalið er orðið tveimur mínútum lengra en til stóð og blaðamaður biðst afsökunar á því, segist vona að honum verði ekki refsað fyrir. „Ég skal ekki segja, kannski verður þér refsað,“ svarar Cronenberg alvarlegur í bragði og fær hárin til að rísa á höfði blaðamanns.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er sjálfsagt að velta fyrir sér öllum möguleikum áður en þú ákveður nokkuð um framhaldið. Morgundagurinn verður mun betri.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er sjálfsagt að velta fyrir sér öllum möguleikum áður en þú ákveður nokkuð um framhaldið. Morgundagurinn verður mun betri.