Klökknaði í miðju lagi

Kelly á sviðinu.
Kelly á sviðinu. Skjáskot af YouTube

Sjónvarpsþáttaröðin American Idol líður undir lok í apríl eftir 14 ára vegferð sína. Henni gat þó ekki lokið án þess að fyrsti og frægasti sigurvegarinn, Kelly Clarkson, sneri aftur og í gær greip hún hjörtu áhorfenda enn eina ferðina með tilfinningaríkum flutningi á lagi sínu „Piece by Piece“.

Texti lagsins fjallar um föður Clarkson, sem var aldrei til staðar fyrir hana og hvernig hún fann betri mann en hann var nokkurn tímann til að ala upp hennar eigin dóttur og bráðum son sinn, því Clarkson er nefnilega „ofurólétt“ eins og hún orðaði það sjálf.

Það er því ekki að undra að tárin hafi fengið að flæða. Clarkson klökknaði sjálf oftar en einu sinni þegar hún flutti lagið og sjá mátti glitta í tár á hvarmi dómara sem og keppenda og áhorfenda.

mbl.is