„Ég er innilega þakklátur“

Hjálmar H. Ragnarsson hlýtur heiðursdoktorsnafnbótina við Listaháskóla Íslands fyrir starf …
Hjálmar H. Ragnarsson hlýtur heiðursdoktorsnafnbótina við Listaháskóla Íslands fyrir starf sitt við uppbyggingu listmenntunar á háskólastigi. Ljósmynd/Listaháskóli Íslands

„Ég er innilega þakklátur skólanum og hrærður yfir þessari virðingu sem mér er með þessu sýnd,“ segir Hjálmar H. Ragnarsson tónskáld, en við útskriftarathöfn Listaháskóla Íslands í Hörpu á föstudag var hann sæmdur heiðursdoktorsnafnbót.

Í tilkynningu frá LHÍ kemur fram að nafnbótina heiðursdoktor megi veita þeim sem skólinn vilji heiðra fyrir einstakt framlag til lista og menningar. „Með valinu skapast tækifæri fyrir skólann til að sýna viðkomandi virðingu fyrir farsælt starf og mikilsvert framlag til fræðasviðs lista. Fyrstur til að hljóta heiðursdoktorsnafnbót við skólann er Hjálmar H. Ragnarsson, fyrrverandi rektor skólans og einn af stofnendum hans. Hann hlýtur þessa sæmd fyrir starf sitt við uppbyggingu listmenntunar á háskólastigi,“ segir í tilkynningu.

Hugmyndafræði skólans var laukrétt

„Ég held það sé mjög mikilvægt fyrir skólann að kannast við sína eigin sögu og upphaf. Um leið tek ég við þessari nafnbót í nafni allra hinna sem stóðu með mér í því að stofna skólann, koma honum á laggirnar og reka hann í 15 ár,“ segir Hjálmar sem starfaði sem rektor skólans frá ársbyrjun 1999 til ársloka 2013.

Þegar Hjálmar lítur til baka segir hann ljóst að samspil nokkurra þátta hafi ráðið úrslitum um það að stofnun skólans tókst vel á sínum tíma og reksturinn varð farsæll. „Í fyrsta lagi tel ég að hugmyndafræði skólans í upphafi hafi verið laukrétt, þ.e. að þetta væri skóli allra listgreina. Með því móti tókst okkur að búa til lítinn háskóla með afar fjölbreyttu námsframboði og kennslu,“ segir Hjálmar og bendir á að sú þverfaglega nálgun sem alla tíð hafi einkennt LHÍ sé í takt við þróunina í listum þar sem múrar milli listgreina hafi verið að hverfa. „Í öðru lagi held ég að það hafi verið mjög mikilvægt að skólinn var stofnaður á sjálfstæðum forsendum sem sjálfseignarstofnun í stað þess að byggja á sameiningu eldri skóla. Vissulega nutum við góðs af þeim skólum sem fyrir voru, en LHÍ var stofnaður á eigin forsendum sem var mjög mikilvægt. Í þriðja lagi nutum við þess á sínum tíma að skólinn hafði sterkan og eindreginn pólitískan stuðning hjá Birni Bjarnasyni, þáverandi menntamálaráðherra, en það var honum kappsmál að þessi skóli kæmist upp. Í fjórða lagi verð ég að nefna samstarfsfólkið. Þegar við fórum af stað með skólann á sínum tíma vissum við ekki hvaða mannskap við hefðum og á hverju við gætum byggt. En það kom strax í ljós að við eigum hér einvalalið af fólki sem var tilbúið að vinna að þessari hugsjón. Lang mikilvægasta hlutverk starfs míns var að velja samstarfsfólkið og þar held ég að mér hafi tekist best til, því samstarfsfólkið var opið, víðsýnt, tilbúið til að fara nýjar brautir og leggja sig fram af mikilli ástríðu fyrir verkefninu. Það er einstakt tækifæri að fá að byggja upp eitthvað nýtt eins og við gerðum. Maður fær bara svona verkefni einu sinni á ævinni,“ segir Hjálmar og tekur fram að hann fylgist mjög vel með hvernig skólanum hafi vegnað frá því hann lét af störfum.

„Ég er ekkert að skipta mér af rekstrinum, en fylgist mjög mikið með nemendaverkefnum, þ.e. sýningum, tónleikum og leiksýningum. Þar sér maður þróunina vel. Eins og stjórnendur skólans hef ég áhyggjur af hinum fjárhagslega grunni skólans. Rekstur allra háskóla í landinu og ekki síst LHÍ er mjög erfiður. Ég held að stjórnvöld verði að opna augun fyrir því að það er ógerningur að reka háskólamenntun í landinu næstum ókeypis.“

Húsnæðismálin eru brýnustu málefnin

Í samtali við Morgunblaðið gerir Hjálmar húsnæðiseklu LHÍ að umtalsefni. „Mestu vonbrigðin hjá mér sem rektor voru þegar okkur tókst ekki að koma þeim áætlunum af stað sem við vorum með um byggingu skólans við Laugaveg,“ segir Hjálmar og rifjar upp að hrunið hafi sett stóran strik í reikninginn. „Ég held reyndar að miðborgin hafi þjáðst meira en skólinn fyrir það að þessi áform urðu að engu. Það hefði verið annað yfirbragð fyrir borginni ef okkur hefði tekist að byggja skólann á þessum stað. Húsnæðismálin eru brýnustu málefni skólans í dag og aðkallandi að fara að leysa þau. Skólinn verður að fá að vera allur undir sama þaki til að stuðla að nauðsynlegum samgangi og samvinnu milli deilda,“ segir Hjálmar og tekur fram að hann sé þó bjartsýnn fyrir hönd LHÍ til framtíðar. „Námið við LHÍ er einstaklingsmiðað og þroskandi hvort sem það leiðir nemandann inn á listabrautir eða ekki, því námið nýtist svo víða. Við lærðum það m.a. af hruninu að listir eigi alltaf mikið erindi. Aðalmálið þegar horft er til framtíðar er að varast stöðnun, hvort heldur er hugarfars- eða stjórnunarlega. Skólinn verður sífellt að endurnýja sig,“ segir Hjálmar og áréttar að mikill kraftur búi í skólanum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Allra augu hvíla á þér. Láttu ekki ýta þér út í neitt, sem þú ert ekki handviss um að verði þér til góðs. Ekki er allt gull sem glóir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Kathryn Hughes
3
Sigrún Elíasdóttir
4
Birgitta Haukdal
5
Freida McFadden

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Allra augu hvíla á þér. Láttu ekki ýta þér út í neitt, sem þú ert ekki handviss um að verði þér til góðs. Ekki er allt gull sem glóir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Kathryn Hughes
3
Sigrún Elíasdóttir
4
Birgitta Haukdal
5
Freida McFadden