Alda starfar með 300 Entertainment

Sölvi Blöndal leiddi hina farsælu sveit Quarashi árum saman og ...
Sölvi Blöndal leiddi hina farsælu sveit Quarashi árum saman og eignaðist þá marga vini í útgáfubransanum vestra. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Bandaríska hipphopp-útgáfufyrirtækið 300 Entertainment og íslenska tónlistarútgáfufyrirtækið Alda Music hafa gert með sér samkomulag um samstarf sem felst í því að Alda Music verður sérstakur samstarfsaðili 300 Entertainment á Íslandi. 300 Entertainment hefur rennt hýru auga hingað til lands undanfarin misseri vegna sérlega blómlegrar útgáfu í hipphopp-tónlist og virkilega frambærilegra listamanna sem sprottið hafa fram á sjónarsviðið hérlendis, eins og segir í tilkynningu um samstarfið. Útgáfan hyggst einnig víkka út starfsvettvang sinn hingað til lands og til hinna norrænu landanna en í því starfi verður Alda Music í lykilhlutverki.

„Samkomulagið felur í sér að listamenn undir merkjum Alda Music fá aðgang að víðfeðmu tengslaneti 300 Entertainment auk aðgangs að nýjum mörkuðum bæði fyrir útgáfur og til hljómleikahalds. Þetta samstarf mun því fela í sér mikla verðmætaaukningu á íslenskri tónlist sem útflutningsvöru,“ segir í tilkynningunni.

300 Entertainment hóf starfsemi fyrir þremur árum og hefur á sínum snærum marga af fremstu og vinsælustu hipphopp-tónlistarmönnum samtímans, m.a. Migos og Young Thug sem haldið hafa tónleika hér á landi á árinu. Að baki fyrirtækinu eru þungavigtarmenn sem störfuðu áður fyrir útgáfufyrirtæki á borð við Def Jam og Warner Music.

Alda Music tók yfir tónlistarútgáfuhluta Senu árið 2016 með Ólaf Arnalds og Sölva Blöndal í fararbroddi og á útgáfurétt að miklu safni íslenskrar tónlistar sem nær allt aftur til sjötta áratugarins. Alda Music hefur gefið út nokkrar plötur frá því útgáfan hóf starfsemi og þá m.a. nýjustu plötur Úlfs Úlfs og Páls Óskars, EP-plötu Hildar og fyrstu sólóplötu Ella Grill.

Eitt farsælasta tónlistarútgáfufyrirtæki Bandaríkjanna

„Þetta er eitt af því sem lagt var upp með í byrjun þegar við stofnuðum fyrirtækið,“ segir Sölvi Blöndal, spurður að því hvernig þetta samstarf Öldu Music og 300 Entertainment hafi komið til. „Markmiðin voru að nútímavæða íslenska tónlistarútgáfu, búa til infrastrúktúr og umhverfi sem gæti lyft íslenskri tónlist upp. Við höfum alltaf haft augun á þessum erlenda vinkli, að koma íslenskri tónlist á framfæri erlendis og finna alvöru samstarfsaðila vestra, sérstaklega í Bandaríkjunum því hipphopp-senan er auðvitað stór þar. Og þar eru aðilar sem ég hef þekkt lengi, áratugum saman, sem stofnuðu þetta fyrirtæki, 300 Entertainment, fyrir nokkrum árum. Þeir stofnuðu á sínum tíma Def Jam sem er auðvitað mjög þekkt fyrirtæki og þetta fyrirtæki er að verða ein farsælasta músíkútgáfa í Bandaríkjunum í dag, með risastóra listamenn á sínum snærum. Þeir höfðu áhuga og vissu af íslenskri hipphopp-senu,“ segir Sölvi.

Hann segir Ísland lítinn markað og því þurfi að leita út fyrir landsteinana. „Íslenskir tónlistarmenn eiga sér frábæra sögu erlendis, margir hverjir, og við lítum á það sem okkar hlutverk að opna þessar dyr,“ segir Sölvi. Samstarfið við 300 Entertainment taki til allrar þeirrar tónlistar sem Alda Music gefur út. „Auðvitað er stór hluti af útgáfunni hipphopp en ekki eingöngu, það er líka rokk og ról þarna,“ segir Sölvi.

Pípan opnuð

Sölvi er spurður að því hvort útgáfan á íslenskri tónlist erlendis verði að mestu í stafrænu formi og svarar hann því játandi. „Þó svo við gefum tónlist líka út í föstu formi verður alltaf minna og minna um það, vöxturinn er gríðarlegur í sölu á stafrænni tónlist og við vitum, eins og allir sem eru í þessu, að þar er framtíðin,“ segir hann.

–Geturðu nefnt mér dæmi um íslenskar hljómsveitir og tónlistarmenn á ykkar vegum sem munu fá dreifingu erlendis, í gegnum 300 Entertainment?

„Við erum á horfa á alla okkar listamenn, Úlf Úlf og Hildi o.fl. Menn frá 300 Entertainment koma á Iceland Airwaves og þar munum við væntanlega setjast niður með fleirum. Þetta er ekki bara Alda Music heldur lítum við svo á að við séum að opna ákveðnar dyr þarna út,“ svarar Sölvi. „Við erum sérfræðingar í því sem er í gangi á Íslandi og þeir í 300 Entertainment hafa áhuga á því. Þetta eru samstarfsaðilar mínir og félagar til margra áratuga margir hverjir, þeir sem stofnuðu þetta fyrirtæki, þannig að við erum alla vega búnir að opna núna pípuna út og það er mjög jákvætt.“

Sölvi segir félaga sína hjá 300 Entertainment gera sér grein fyrir mætti streymisins, tónlistarveitna á borð við Spotify, og að þeir hafi alltaf verið mjög meðvitaðir um þann mátt, þ.e. allt frá því farið var að bjóða upp á slíkar veitur. „Við erum á sama báti þar,“ segir Sölvi.