Á vígvelli heimilisins

„Túlkun Atla Rafns Sigurðarsonar á Mikael er í einu orði …
„Túlkun Atla Rafns Sigurðarsonar á Mikael er í einu orði sagt stórkostleg. Atli Rafn nær öllum töktum hins siðlausa fíkils sem spilar ýmist á sjarmann eða vorkunnsemina til að fá sínu framgengt,“ segir í leikdóminum sem birtur er í Morgunblaðinu í dag. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

„Ofbeldi og vanræksla elur af sér meira af því sama meðan enginn hefur kjark og getu til að stöðva vítahringinn. Þetta veit leikskáldið Tyrfingur Tyrfingsson, sem hefur einstakt lag á að beina sjónum áhorfenda að flókinni dýnamík ofbeldissambanda,“ skrifar Silja Björk Huldudóttir í leikdómi sínum um Kartöfluæturnar sem birtur er í Morgunblaðinu í dag. 

„Í fyrsta leikriti sínu í fullri lengd, Bláskjá, fjallaði Tyrfingur um þrjú systkin sem þurftu að læra að fóta sig í tilverunni eftir fráfall föður þeirra sem nauðgaði tveimur eldri systkinanna í kjallaranum meðan hann hlífði yngsta syninum á efri hæðinni. Verkið mátti hæglega sjá sem beitta samfélagsádeilu þar sem spilling, valdníðsla og meðvirkni voru lykilþemu. 

Meðvirkni, stjórnsemi og leyndarhyggja eru áberandi leiðarstef í þriðja leikriti Tyrfings í fullri lengd, Kartöfluætunum, sem Borgarleikhúsið frumsýndi á Litla sviðinu í liðinni viku. Leikurinn gerist á heimili Lísu (Sigrún Edda Björnsdóttir), hjúkrunarfræðings sem starfaði á vegum Rauða krossins í Kosóvóstríðinu og hlotið hefur fálkaorðuna fyrir störf sín. Hún flúði Ísland eftir fjölskylduharmleik en er snúin heim aftur og nýtir tímann til að endurinnrétta æskuheimilið. Brimrún eða Brúna (Edda Björg Eyjólfsdóttir), dóttir Lísu, starfar sem strætóbílstjóri en finnst hún hafa misst af miklu í lífinu sökum þess að hún eignaðist soninn Höskuld (Gunnar Hrafn Kristjánsson) þegar hún var aðeins rétt tæplega tvítug.

„Sigrún Edda Björnsdóttir er frábær í hlutverki hinnar margræðu Lísu …
„Sigrún Edda Björnsdóttir er frábær í hlutverki hinnar margræðu Lísu sem notar óhikað kynþokka sinn til að sveigja aðra að vilja sínum. Valdbeiting hennar er klædd sem umhyggja, en tilfinningalegur kuldi hennar leynir sér ekki í meðförum Sigrúnar Eddu,“ segir í leikdómnum. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Hversdeginum er umturnað þegar Mikael (Atli Rafn Sigurðarson), fyrrverandi stjúpsonur Lísu, leitar til hennar með þá ósk að hún fái Kristínu (Vala Kristín Eiríksdóttir), fyrrverandi kærustu hans, til að hætta við að kæra sig fyrir nauðgun. Við tekur hröð atburðarás þar sem engum er hlíft, enda allir orðnir mengaðir af sjúku ástandi. Með snilldarlegum hætti vefur Tyrfingur efniviðinn þétt og matreiðir hann með sínum sótsvarta húmor þar sem ekkert rúm er fyrir pólitíska rétthugsun. Áhorfendur ýmist hlæja með persónum eða finna sárlega til með þeim vegna þess að Tyrfingur slær sannan tón í texta sínum,“ segir m.a. í leikdómnum. 

Þar er á það bent hvernig umgjörð sýningarinnar og hljóðmynd kallast með frábærum hætti á við innihaldið þar sem ofgnóttin ríkir og vísað er í ýmsar áttir, allt frá grískri goðafræði til þekktra málverka á borð við „Kartöfluæturnar“ eftir Vincent van Gogh og dægurlaga. 

Atli Rafn Sigurðarson, Sigrún Edda Björnsdóttir, Edda Björg Eyjólfsdóttir og …
Atli Rafn Sigurðarson, Sigrún Edda Björnsdóttir, Edda Björg Eyjólfsdóttir og Gunnar Hrafn Kristjánsson endurskapa málverk Vincent van Gogh sem nefnist Kartöfluæturnar. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

„Ólafur Egill Egilsson sýndi í uppfærslunni á Hystory að hann er fantagóður leikstjóri sem nær því besta út úr leikurum sínum. Sigrún Edda Björnsdóttir er frábær í hlutverki hinnar margræðu Lísu sem notar óhikað kynþokka sinn til að sveigja aðra að vilja sínum. Valdbeiting hennar er klædd sem umhyggja, en tilfinningalegur kuldi hennar leynir sér ekki í meðförum Sigrúnar Eddu. Hún er í stöðugu valdatafli og vílar ekki fyrir sér að játa syndir sínar fyrir alheiminum á sama tíma og hún er ófær um að ræða hlutina af alvöru í návígi. Athyglisvert er að fylgjast með tilraunum hennar til að hreinsa sig með vatni og þvo af sér fyrri syndir, því hún virðist vel gera sér grein fyrir að sé vatnið mengað er til lítils að nota það til hreinsunar.

Túlkun Atla Rafns Sigurðarsonar á Mikael er í einu orði sagt stórkostleg. Atli Rafn nær öllum töktum hins siðlausa fíkils sem spilar ýmist á sjarmann eða vorkunnsemina til að fá sínu framgengt. Hömlu- og markaleysi hans í samskiptum við annað fólk birtist einnig skýrt í umgengni hans við efnislega hluti; hann gengur í allt í eldhúsi Lísu og drekkur úr öllum drykkjarílátum og könnum. Hann sveiflast frá því að vera ofurtöff svartklæddur ævintýraprins með falskt uppblásið egó yfir í að verða varnarlausi ungi drengurinn sem staðnaði í þroska á miðri leið og býr því ekki yfir nauðsynlegum verkfærum til að verða heilbrigður einstaklingur. Hann hótar Lísu kokhraustur með fortíð þeirra, en reynir líkt og lítið barn að fela sig í sjali þegar leyndarmálið er óvænt opinberað alþjóð.

Sigrún Edda Björnsdóttir og Gunnar Hrafn Kristjánsson í hlutverkum sínum …
Sigrún Edda Björnsdóttir og Gunnar Hrafn Kristjánsson í hlutverkum sínum sem Lísa og Höskuldur. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Edda Björg Eyjólfsdóttir dregur upp áhrifaríka mynd af konu sem hefur lítið að gefa táningssyni sínum vegna þess að hún er enn litla stúlkan sem þjáist vegna vanrækslu móður sinnar. Edda Björg miðlar vel sársauka Brúnu yfir þeirri höfnun að vera ósýnileg í augum jafnt móður sinnar sem ókunnugra. Vagnstjórabúningurinn sem Brúna klæðist alla sýninguna undirstrikar þá miklu sjálfsstjórn sem hún, ólíkt uppeldisbróður sínum, hefur tamið sér,“ segir m.a. um frammistöðu leikaranna. 

„Uppfærsla Borgarleikhússins á Kartöfluætunum er kraftmikil og ögrandi sýning þar sem leikhópurinn fær úr safaríkum efnivið að moða undir hugmyndaríkri leikstjórn. Birtingarmynd þeirrar andlegu vannæringar sem þjakar allar persónur verksins er áhrifamikil og sár. Vafalítið hefði það styrkt uppfærsluna að leika hana án hlés í stað þess að slíta efnið í sundur í miðju kafi. Einnig hefði mátt hnýta nokkra lausa enda ögn betur. Eftir stendur þó að Kartöfluæturnar er besta leikrit höfundar til þessa og spennandi verður að sjá hvert Tyrfingur leiðir okkur næst.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Eitthvað fer illa fyrir brjóstið á þér og þú þarft að telja upp að tíu nokkrum sinnum í dag. Einhver daðrar við þig eins og enginn sé morgundagurinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sigríður Dúa Goldsworthy
2
Patricia Gibney
4
Þóra Karítas Árnadóttir og Sahara Rós Blandon
5
Lucinda Riley
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Eitthvað fer illa fyrir brjóstið á þér og þú þarft að telja upp að tíu nokkrum sinnum í dag. Einhver daðrar við þig eins og enginn sé morgundagurinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sigríður Dúa Goldsworthy
2
Patricia Gibney
4
Þóra Karítas Árnadóttir og Sahara Rós Blandon
5
Lucinda Riley