Mývatn, Elín og skrímsli best

Frá afhendingu Íslensku bókmenntaverðalunanna á Bessastöðum í kvöld. F. v.: …
Frá afhendingu Íslensku bókmenntaverðalunanna á Bessastöðum í kvöld. F. v.: Unnur Þóra Jökulsdóttir, Kristín Eiríksdóttir, Áslaug Jónsdóttir og Kalle Güettler . mbl.is/Árni Sæberg

Kristín Eiríksdóttir, Unnur Þóra Jökulsdóttir, Áslaug Jónsdóttir, Kalle Güettler og Rakel Helmsdal hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin 2017 en þau voru afhent fyrir stundu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í 29. sinn. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin. 

Kristín hlaut verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Elín, ýmislegt, Unnur í flokki fræðirita og bóka almenns efnis fyrir Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk og Áslaug Jónsdóttir, Kalle Güettler og Rakel Helmsdal í flokki barna- og ungmennabóka fyrir Skrímsli í vanda. Verðlaunaféð nemur einni milljón króna fyrir hvert vinningsverk. 

Athygli vekur að þetta árið er meirihluti verðlaunahafa konur. Það hefur aðeins einu sinni áður gerst í sögu verðlaunanna, en það var í fyrra. Á þeim 29 árum sem verðlaunin hafa verið veitt hefur það aðeins einu sinni gerst að allir verðlaunahafar voru konur, en það var árið 1994. 

Einstakt listaverk

Fjögurra manna lokadómnefnd valdi vinningsverkin úr hópi fimmtán bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd skipuðu Helga Ferdinandsdóttir, Hulda Proppé, Sigurjón Kjartansson og Gísli Sigurðsson, sem var jafnframt var formaður nefndarinnar.

Í rökstuðningi dómnefndar segir að Elín, ýmislegt sé „vandlega úthugsuð og margslungin skáldsaga sem teflir fínlega saman ólíkri veruleikaskynjun persónanna í áhrifaríkri frásögn af hverfulu eðli minninga.“

Um Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk segir að ritið sé „einstætt listaverk sem fer í draumkennda ferð og miðlar fræðilegri þekkingu með ástríðu fyrir lífskraftinum og persónulegri sýn á það sem fyrir augu ber, jafnt óvægna grimmd sem blíðustu fegurð.“

Um Skrímsli í vanda segir að bókin sé „litríkt og fallegt verk sem tekur á viðfangsefni sem snertir okkur inn að kviku; marglaga saga fyrir alla aldurshópa, sem sómir sér vel í hinum glæsilega skrímslabókaflokki.“

Óendanlega þakklát

„Ég bjóst ekkert endilega við að þessi bók myndi ganga svona vel,“ segir Kristín Eiríksdóttir, höfundur skáldsögunnar Elín, ýmislegt. en stutt er síðan hún hlaut einnig Fjöruverðlaunin 2018 fyrir sömu skáldsögu. 

„Ég skrifaði bókina á starfslaunum og er óendanlega þakklát fyrir þau, ekki bara sjálfrar mín vegna heldur líka bara fyrir allt sem verður til á þessum blessuðu mánuðum sem úthlutað er til listamanna og bætir tilvistina hér á landi,“ segir Kristín og tekur síðan fram að hún sé ávallt með nokkur verk í vinnslu. Hún er þegar byrjuð á næstu skáldsögu sem hún reiknar með að komi út eftir tvö ár. 

Kristín Eiríksdóttir hlaut verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Elín, …
Kristín Eiríksdóttir hlaut verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Elín, ýmislegt. mbl.is/Hari

Átti ekki von á þessu

„Ég er hrærð, stolt og ánægð. Ég átti ekki alveg von á þessu, enda nýbúin að fá hin glæsilegu Fjöruverðlaun,“ segir Unnur Þóra Jökulsdóttir höfundur fræðiritsins Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk en bókin hlaut nýverið Fjöruverðlaunin 2018 í flokki fræðirita og bóka almenns efnis. 

Innt eftir því hvort hún telji að Íslensku bókmenntaverðlaunin muni gagnast bókinni erlendis segist Unnur ekki geta svarað því, en bendir á að þegar sé búið að gera samning um útgáfu hennar hjá virtu forlagi í Berlín sem sérhæfir sig í náttúrubókum.

„Í öðrum málheimum er miklu sterkari hefð fyrir náttúruskrifum en hér. Það er því stór lesendahópur erlendis sem les um náttúruna heima í stofu án þess að fara á slóðir bókanna. Ég vona að þessi bók geti náð til slíkra lesenda. Ég vona líka að bókin geti orðið öðrum íslenskum rithöfundum hvatning til að skrifa meira um náttúruna og lífríkið,“ segir Unnur.

Unnur Þóra Jökulsdóttir hlaut verðlaunin í flokki fræðirita og bóka …
Unnur Þóra Jökulsdóttir hlaut verðlaunin í flokki fræðirita og bóka almenns efnis fyrir fræðiritið Undur Mývatns - um fugla, flugur, fiska og fólk. mbl.is/Ásdís

Verðlaunaféð nýtt í áframhaldandi skrif

„Ég er afskaplega ánægð með að myndabók hafi orðið fyrir valinu í ár. Mér fannst við vera í góðum hópi, enda hinar tilnefndu bækurnar alveg frábærar. Ég er sannfærð um að þær bækur eigi líka eftir að sjást víða,“ segir Áslaug Jónsdóttir, einn þriggja höfunda bókarinnar Skrímsla í vanda. Frá því byrjað var að verðlauna í flokki barna- og ungmennabóka árið 2013 hafa aðeins skáldsögur unnið flokkinn og er Skrímsli í vanda fyrsta myndabókin sem sigrar.  

Spurð hvort höfundarnir þrír séu búnir að ákveða í hvað verðlaunafénu verði varið svarar Áslaug kímin: „Kannski ég noti minn hlut til að borga niður námslánin. En að öllu gamni slepptu, þá verður verðlaunaféð nýtt í áframhaldandi skrif. Þetta fer allt í það að vera skapandi manneskja,“ segir Áslaug, en ítarleg viðtöl við alla verðlaunahafa verður birt í Morgunblaðinu á morgun.  

Áslaug Jónsdóttir hlaut ásamt Kalle Güettler og Rakel Helmsdal verðlaunin …
Áslaug Jónsdóttir hlaut ásamt Kalle Güettler og Rakel Helmsdal verðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir Skrímsli í vanda. mbl.is/Heiðar
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Leitaðu nýrra leiða til þess að auðga líf þitt og bæta. Einhver þér eldri getur miðlað þér af reynslu sinni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
3
Kolbrún Valbergsdóttir
4
Sigríður Dúa Goldsworthy
5
Arnaldur Indriðason
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Leitaðu nýrra leiða til þess að auðga líf þitt og bæta. Einhver þér eldri getur miðlað þér af reynslu sinni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
3
Kolbrún Valbergsdóttir
4
Sigríður Dúa Goldsworthy
5
Arnaldur Indriðason