Þrjár þróa tillögur fyrir Feneyjar

Frá sýningu Egils Sæbjörnssonar í Feneyjum á síðasta tvíæringi.
Frá sýningu Egils Sæbjörnssonar í Feneyjum á síðasta tvíæringi. Ljósmynd/Ivo Corda

Þrír myndlistarmenn hafa verið valdir til að vinna áfram tillögur að framlagi Íslands til næsta Feneyjatvíærings, sem verður opnaður í maí 2019. Það eru þær Elín Hansóttir, Hekla Dögg Jónsdóttir og Hrafnhildur Arnardóttir sem kallar sig Shoplifter.

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (KÍM) auglýsti eftir tillögum að sýningu í íslenska skálanum á tvíæringnum og bárust alls 17 tillögur frá listamönnum og sýningarstjórum. Björg Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri KÍM, fagnar því hversu margar og fjölbreyttar tillögur bárust og segir fjölda umsókna bera glöggt vitni um þann metnað sem búi meðal myndlistarmanna og sýningarstjóra til að taka þátt í þessari meira en aldargömlu myndlistarsýningu sem Feneyjatvíæringurinn er.

Björg Stefánsdóttir.
Björg Stefánsdóttir.

Valið á listamönnum var í höndum fagráðs KÍM, sem skipað er Björgu, Hlyni Hallssyni, safnstjóra Listasafnsins á Akureyri, og Daníel Björnssyni myndlistarmanni, og gestum ráðsins, þeim Æsu Sigurjónsdóttur, listfræðingi, sýningarstjóra og dósent í listfræði við HÍ, og Pari Stave, sýningarstjóra við Metropolitan-listasafnið í New York, en hún hefur komið að uppsetningu allnokkurra sýninga með íslenskum listamönnum, hér á landi og vestanhafs. Fóru þau yfir tillögurnar sautján og völdu umsækjendurna þrjá sem halda nú áfram að þróa tillögur sínar.

Erfitt val

Björg segir val fagráðs hafa verið erfitt en haft var að leiðarljósi að verkefnið sem yrði fyrir valinu ætti erindi í alþjóðlegt samhengi, gæti vakið athygli og að listamaðurinn og teymið sem hann vinni með hafi reynslu í þátttöku alþjóðlegra og viðamikilla verkefna. Þær þrjár sem valdar voru töldust standast alla þessa þætti og meira til.

Þær Elín, sem vinnur með sýningarstjóranum Carson Chan, Hekla Dögg, ásamt sýningarstjóranum Alessandro Castiglioni, og Hrafnhildur, ásamt sýningarstjóranum Birtu Guðjónsdóttur, fá nú sex vikur til að vinna áfram að þróun sinna tillagna. Hver þeirra fær kr. 250 þúsund til að vinna verkið áfram og koma því á stig framkvæmdar sem mun hefjast um leið og lokavalið hefur átt sér stað. Í júní verður kynnt hver tillagnanna þriggja verður valin sem framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum 2019.

Ólíkar umsóknir

Þetta er í þriðja sinn sem sú leið er farin að auglýsa eftir tillögum að sýningunni í skála Íslands. Fyrst var tillaga Christophs Büchel, Moskan, fyrir valinu fyrir tvíæringinn 2015 og þá sýning Egils Sæbjörnssonar, Out of Controll, í fyrra.

„Við höfum verið mjög ánægð með útkomuna og ákváðum að gera þetta í þriðja sinn,“ segir Björg. Hún bætir við að þetta valferli sé ekki endilega varanleg aðferð við valið, því geti verið breytt síðar þótt reynslan af því hafi verið góð.

Íslenski skálinn verður aftur í sama húsnæði og Egill setti upp sýningu sína í fyrra, á eynni Giudecca, nokkurra mínútna siglingu með vatnastrætónum frá Markúsartorginu.

Björg segir að umsóknirnar 17 hafi verið ólíkar og mikil breidd. „Það að þrjár konur hafi verið valdar til að þróa hugmyndir áfram vísar til kynjahlutfallsins í umsóknunum, 64 prósent af umsóknunum voru frá konum,“ segir hún. Og ekki voru það allt einstaklingssýningar því einnig voru sendar inn tillögur að sýningum með fleiri en einum listamanni. „Það var áhugavert að sjá breiddina, og hún eykst með hverju árinu,“ bætir Björg við.

„Frá upphafi þátttöku okkar árið 1960 hafa 28 listamenn tekið þátt í tvíæringnum fyrir Íslands hönd og fimm þeirra eru konur, eða 18 prósent. Það eru þær Steina Vasulka, 1997, svo Rúrí og Gabríela Friðriksdóttir, 2003 og 2005, Libia Castro með Ólafi Ólafssyni, 2011, og loks Katrín Sigurðardóttir árið 2013. Það er kominn tími á að önnur kona verði aftur fulltrúi og þessar þrjár eru allar mjög frambærilegar, enda hafa þær verið að sýna víða.“

Sú útvalda kynnt í júní

Listakonurnar þrjár munu í maímánuði kynna frekari útfærslu á væntanlegum sýningarverkefnum fyrir valnefndinni. „Umsækjendur og sýningarstjórar kynna verkið fyrir dómnefndinni, hver fær klukkutíma til þess og þau sitja svo fyrir svörum. Þá verður valið hver fer til Feneyja, þegar tæpt ár er í opnun sýningarinnar. Fljótlega verður síðan byrjað að framleiða verkið. Eitt af því sem hefur breyst með þessu ferli, frá því sem áður var, er að þegar listamaðurinn er endanlega valinn er farið fram á það að verkið sé nánast tilbúið til framleiðslu.“

Björg bætir við að verk Egils og Christophs hafi tekið einhverjum breytingum í ferlinu fram að sýningu en unnið hafi verið eftir sama þræðinum og í upphaflegri tillögu.

Feneyjatvíæringurinn, sem var stofnaður árið 1895, er viðamesta alþjóðlega myndlistarsýning sem sett er upp og sú eina þar sem hinar ýmsu þjóðir setja upp sýningar. Árið 2017 tóku 86 þjóðir þátt, auk annarra mikilsverðra sýninga sem boðið er upp á á hátíðinni. Ríflega 600.000 gestir sóttu tvíæringinn þá heim á þeim sjö mánuðum sem sýningarnar voru opnar.

Elín Hansdóttir á sýningu sinni Simulacra í i8 galleríi í …
Elín Hansdóttir á sýningu sinni Simulacra í i8 galleríi í fyrra.

Breytir sýn á umhverfið

„Það er mjög spennandi að fá að móta áfram tillöguna sem við lögðum fram,“ segir Elín Hansdóttir og bætir við að nú taki þau Carson Chan sýningarstjóri að vinna tillöguna ítarlega.

Hún er ekki reiðubúin að lýsa fyrirhuguðu verki en segist halda áfram á svipaðan hátt og í verkum sínum undanfarin tíu ár, við „að skapa einhvers konar umhverfi, heildarheim, sem fólk gengur inn í og breytir sýn þess á umhverfið.“

Verk Elínar bjóða upp á virka skynjun og upplifun áhorfandans og svo er einnig í þessari tillögu, með áherslu „á myndlistarupplifun sem þarfnast ekki endilega texta til útskýringar. Beina upplifun sem höfðar til skynjunar mannsins og kveikir meðal annars spurningar sem lúta að tilvist okkar,“ segir hún.

Elín kynntist sýningarstjóranum Carson Chan fyrst í Berlín fyrir um fimmtán árum. Hann er arkitekt og sýningarstjóri og leggur nú stund á doktorsnám í Bandaríkjunum. „Ég vann með honum að verkefni í Marokkó fyrir sex árum,“ segir Elín, en það var verkið „Mud Brick Spiral“, sem var hlaðið úr leirmúrsteinum úti undir beru lofti. „Við höldum nú áfram með þær hugmyndir, að nota lífrænt efni sem byggingarefni.“ Og hugmyndin að verkinu hefur lifað með henni í nokkur ár. „Það hefur ekki verið almennilegur vettvangur fyrir það, fyrr en nú. Veðráttan í Feneyjum, hitinn og rakinn, býður upp á að við getum notað plöntur þar sem byggingarefni,“ segir Elín og bætir við að sex vikur til að þróa verkið áfram sé knappur tími. „En það er mjög spennandi að fá að taka þátt í þessu og þróa hugmyndina áfram.“

Hekla Dögg Jónsdóttir á sýningu sinni í Hafnarborg árið 2015.
Hekla Dögg Jónsdóttir á sýningu sinni í Hafnarborg árið 2015. mbl.is/Einar Falur

Heill heimur af möguleikum

„Það er spennandi að fá að halda áfram með tillöguna – það opnast heill heimur af möguleikum,“ segir Hekla Dögg Jónsdóttir. Hún bætir við að fram undan séu strembnar vikur við útfærslu tillögunnar en hún starfar sem prófessor við LHÍ og þar er einnig nóg að gera.

„En ég mun vinna áfram með hugmyndir og hluti sem ég hef áður unnið með og sýnt,“ bætir hún við. „Svo er ég svo heppin að hafa verið í rannsóknarleyfi frá LHÍ og er því alveg tilbúin fyrir þessa vinnu. Ég hef undanfarið hlaðið upp hugmyndum og unnið út frá þeim.“

Hekla Dögg vinnur með sýningarstjóranum Alessandro Castiglioni og hafa þau unnið saman nokkrum sinnum, meðal annars með verk hennar á sýningum í söfnum í Genóa og á Gíbraltar. „Hann býr í Mílanó og er ungur listfræðingur, skarpur eldhugi sem kennir við háskóla þar,“ segir hún.

En um hvað snýst hugmyndin?

„Ég var nýverið með sýningu í Kling & Bang þar sem ég vann með sköpunarkraftinn og augnablikið. Ég held áfram með þá þætti, get ekki rætt enn um útfærsluna sem slíka, en held áfram að tengja hugmyndir eða verk annarra listamanna inn í mín verk og mínar hugmyndir. Og þegar komið er í alþjóðlegt samhengi eins og í Feneyjum, með alla gestina og þar á meðal listamenn, þá má mæla sér mót við marga. Þetta býr til möguleika fyrir nýtt samhengi og samvinnu, og nýja skapandi orku, sem ég fæ til liðs við mig í verkinu.

Rýmið og staðsetningin kalla svo alltaf á ákveðna útfærslu og merkingu og það munum við skoða betur á næstu vikum.“

Hrafnhildur Arnardóttir á sýningu sinni í Listasafni Íslands í fyrra.
Hrafnhildur Arnardóttir á sýningu sinni í Listasafni Íslands í fyrra. mbl.is/Ófeigur

Ákveðin hárflækjuhugmynd

„Maður leggur mikið í svona umsókn og það er ánægjulegt að hún veki áhuga,“ segir Hrafnhildur Arnardóttir sem kallar sig Shoplifter. Hún vann tillöguna með Birtu Guðjónsdóttur sýningarstjóra en viðamikil sýning Hrafnhildar í Listasafni Íslands í fyrra var sú þriðja sem þær hafa unnið saman.

Hrafnhildur er þekktust fyrir misstórar en oft og tíðum afar umfangsmiklar innsetningar með gervihári og þegar spurt er út í tillöguna um Feneyjasýningu svarar hún: „Ég ákvað að sækja um með ákveðna hárflækjuhugmynd, það má kalla minn einkennismiðil. Ég vinn alltaf út frá rýminu sem stendur til boða, og get unnið í öllum mögulegum stærðum og skapað í hvert sinn rýmisteikningu og spennu.

Sýningargestir verða umvafðir litum; fólk gengur inn í rýmið og upplifir sig í óvenjulegum stærðarhlutföllum með myndlistinni. Ég hugsa í senn um hið hulda landslag í líkama okkar, landslagið sem við lifum í og landslagið í geimnum sem við höfum hugmyndir um en upplifum ekki á eigin skinni. Við upplifun á verkinu má hugsa sér að gestir komist í hugarástand sem kallar fram tilfinningu fyrir öllum þessum stærðum; maður getur dvalið í því og fundið um leið sterkar fyrir sjálfum sér, anda og efni.“

Varðandi það að vera fulltrúi þjóðarinnar í Feneyjum segist Hrafnhildur hlæjandi lengi hafa litið á sig sem slíkan þar sem hún býr í New York – „en það væri gaman að vera það formlega á tvíæringnum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson