Jakob vill gjörbreyta undankeppninni

Jakob Frímann leggur til breytingar á fyrirkomulagi undankeppni Eurovision.
Jakob Frímann leggur til breytingar á fyrirkomulagi undankeppni Eurovision. Ljósmynd/Andres Putting

Jakob Frímann Magnússon, tónskáld og Stuðmaður, hefur tjáð sig um Eurovision á Facebook-síðu sinni. Hann leggur til að breyta fyrirkomulagi undankeppni Eurovision hérlendis þannig að auglýst verði eftir hugmyndum að lögum sem verði einungis flutt með einni söngrödd og einu hljóðfæri. Þannig yrðu svo lögin flutt í undankeppninni hér á landi.

Með þeirri leið yrði kostnaði haldið í lágmarki og þá væri hægt að nýta fjármuni í að fullkomna það atriði sem þjóðin myndi að lokum senda í lokakeppnina. „Þessa aðferð einfaldleikans notuðu alþjóðlegir hljómplötumógúlar á borð við Clive Davis o.fl. um árabil þegar þeir virtu fyrir sér listamenn og lagasmíðar til að veðja á. Og tókst þannig jafnan að skilja kjarnann frá hisminu – og veðja rétt.“ segir í stöðufærslu Jakobs Frímanns. 

Jakob hafði áður birt mynd af tónlistarkonunni Björk Guðmundsdóttur undir myllumerkinu „Júrósalem2019“ og endar það á spurningarmerki. Í seinni stöðufærslu segir hann að myndin af Björk hafi átt að beina ljósum að augljósri tískufyrirmynd ísraelsku söngkonunnar Nettu og gantast í leiðinni með þá hugmynd að Björk myndi fara til Ísraels á næsta ári og keppa þar fyrir hönd Íslands, „sem hún mundi auðvitað aldrei gera.“ skrifar Jakob.

Skemmtileg hugmynd að mati Friðriks Ómars

Í samtali við mbl.is segir Friðrik Ómar Hjörleifsson, fyrrverandi Eurovision-fari, að þetta sé ein af mörgum skemmtilegum hugmyndum Jakobs og tekur að vissu leyti undir hana en finnst frekar að við ættum að prófa báðar leiðir. Það sé ekki skortur á fjármagni til þess. Friðrik tekur fram að ísraelska lagið sem vann hafi ekki verið hans lag í keppninni, Kýpur eða Austurríki hafi verið með betri lög.

Friðrik segir að ef Íslendingar hafi í hyggju að sniðganga keppnina í Ísrael að ári þá eigi að gera það í samráði við aðrar skandinavískar sjónvarpsstöðvar. Íslendingar séu í góðu sambandi við þær og ef grípa eigi til aðgerða þurfi að gera það í sameiningu en ekki hvert í sínu lagi.

Friðrik Ómar hefur komið fram í Eurovision fyrir hönd Íslands.
Friðrik Ómar hefur komið fram í Eurovision fyrir hönd Íslands. mynd/Eggert Jóhannesson

mbl.is