Algjört hunang fyrir lesendur

„Reyndar þykir mér vænna um íslenskuna, því betur sem ég …
„Reyndar þykir mér vænna um íslenskuna, því betur sem ég kynnist dönskunni. Íslenskan er svo falleg, tær og sterk. Hún er dýrgripur og í raun mætti lýsa henni sem áttunda undri veraldar – nema hvað hún er ekki áþreifanleg. Það er engin tilviljun að íslenskan hefur verið nefnd latína norðursins, enda sagðist danski málfræðingurinn Rasmus Kristian Rask hafa lært íslensku til þess að geta hugsað eins og maður,“ segir Þórdís Bachmann þýðandi. Morgunblaðið/RAX

„Þetta verður líklega minn svanasöngur sem þýðandi,“ segir Þórdís Bachmann um þýðingu sína á Tale of Two Cities eftir Charles Dickens sem Ugla útgáfa gefur út undir heitinu Saga tveggja borga. „Á næsta ári verða liðin 34 ár síðan ég byrjaði í faginu,“ segir Þórdís og miðar þar við fyrstu bókina sem hún þýddi og út kom 1985, en á síðustu áratugum hefur hún þýtt um 1.200 kvikmyndir og á fimmta tug bóka eftir höfunda á borð við Alan Bennett, George Orwell, Ray Bradbury og Agöthu Christie. „Ég held að það hljóti að vera þokkalegt ævistarf.“

Þórdís hafði ekki þýðingar í huga þegar hún fetaði sín fyrstu skref á vinnumarkaði, en aðeins 17 ára gömul var hún ráðin sem klippari hjá Sjónvarpinu. „Þrándur Thoroddsen, sem síðar þýddi Andrésar Andar-blöðin af stakri prýði, var yfirmaður kvikmyndadeildar RÚV þegar ég 17 ára sótti um vinnu sem klippari. Ég hafði ekkert fram að færa, enda ekki með stúdentspróf, en var hins vegar nýbúin að vera í Danmörku í eitt ár, fyrst í lýðháskóla á Fjóni og síðan í Kaupmannahöfn þar sem ég vann í Magasin du Nord og sótti bíósýningar í Grand. Í vinnuviðtalinu minntist ég á myndir eftir Buñuel, Schlesinger og Polanski sem ég hafði séð í Grand, en svo skemmtilega vildi til að Þrándur hafði lært í sama skóla og Polanski og kvikmyndatökumaður Schlesinger,“ segir Þórdís og þakkar Þrándi ráðninguna. „Þetta var byrjunin á klipparaferli mínum,“ segir Þórdís, sem vann fyrst hjá RÚV og síðan hjá Danmarks Radio í Kaupmannahöfn, Cinecittà í Róm og ABC Network í New York. Meðan Þórdís bjó í Bandaríkjunum nam hún fjölmiðlafræði. „Smám saman varð ég spenntari fyrir skrifum en filmum,“ segir Þórdís, sem um tíma vann sem blaðamaður áður en hún sneri sér að þýðingum.

Lengi verið sáð fyrir byltingu

Hvernig og hvenær kviknaði bókmenntaáhugi þinn?

„Ég fæddist inn í leikhúsfjölskyldu í Skuggahverfinu og var frá sex ára aldri mikið til ein heima á kvöldin,“ segir Þórdís, sem er dóttir Helgu Bachmann leikkonu og barnabarn Hallgríms Bachmann, ljósameistara Leikfélags Reykjavíkur og Þjóðleikhússins. „Ég var sex ára þegar ég var búin að lesa allar bækurnar sem fylltu fjórar hillur á bókasafninu á Laufásvegi,“ rifjar Þórdís upp og bendir á að meðal bóka þar hafi verið Oliver Twist, David Copperfield og Ævintýri Pickwicks – allar eftir Charles Dickens, auk Tarzans og bóka Jules Vernes. „Þegar barnabókunum sleppti sneri ég mér að fullorðinsbókunum sem til voru á heimilinu, en þar á meðal voru leikrit Shakespeare. Ég var því aðeins lítil stelpa þegar ég las Rómeó og Júlíu, sem var fyrsta leikritið í bókinni. Enginn var búinn að setja mig inn í jambískan pentameter og textinn var svo þungur að ég þurfti að lesa þetta með fingrinum, sem mér þótti mikil niðurlæging enda orðin sex ára og hafði verið fluglæs í rúmt ár. Ég hef aldrei lesið neitt annað með fingrinum hvorki fyrr né síðar,“ rifjar Þórdís kímin upp og tekur fram að þetta eigi leikhúsið og bókmenntirnar sameiginlegt – að byggja á hinu skrifaða orði.

„Leikarar koma og fara, en orðið er eilíft,“ segir Þórdís, sem var ekki há í loftinu þegar hún fór að leggja leið sína niður í Þjóðleikhús með matarbita handa afa sínum. „Þegar ég var búin að færa honum bitann gat ég verið í ljósastúkunni og horft á æfingar og sýningar. Leikhúsið varð mitt annað heimili og þar þekkti ég hvern krók og kima. Stundum lá ég á brúnni yfir sviðinu með lakkrískaramellur í sellófani sem ég lét svífa niður á sýningum,“ segir Þórdís sposk og tekur fram að fljúgandi sælgætisbréfin hafi ekki vakið mikla lukku. „Þetta var auðvitað svakaleg ögrun hjá þessu krakkarassgati sem ég var.“

Kom aldrei til greina að þú fetaðir í fótspor móður þinnar?

„Ég fór á svið, en gerði eins og Greta Garbo – hætti á toppnum,“ segir Þórdís og rifjar upp að hún hafi leikið barn í verki eftir Jökul Jakobsson. „Ég efast stórlega um að ég hefði getað enst í starfi sem krefst þess að fólk sé stöðugt á útopnu,“ segir Þórdís og tekur fram að munkstilvera þýðandans henti henni betur. „Einveran hentar mér ekki illa og reyndar er varla hægt að láta sér leiðast í leitinni að ipsissima verba,“ segir Þórdís. Hún tekur fram að sér þyki gaman hversu sýnilegir þýðendur eru orðnir og nefnir viðtal við Áslaugu Agnarsdóttur í Kiljunni og að RÚV sé einnig duglegt að hampa þýðendum. „Við erum þýðingarmikill hópur. Það er mikið af góðum þýðendum á Íslandi og hefur alla tíð verið.“

Hvers vegna varð Saga tveggja borga fyrir valinu hjá þér?

Saga tveggja borga talar með sterkum hætti inn í daginn í dag. Ein lykilsena í bókinni er þegar Dickens fjallar um frönsku byltinguna eins og hún hafi verið fyrsta byltingin í veraldarsögunni sem ekki var sáð fyrir. Eða eins og Dickens orðar það: „Það var eins og ekkert hefði nokkurn tímann verið gert, eða ekki verið gert, sem hefði leitt til hennar. Það var eins og þeir sem höfðu fylgst með örvæntingarfullum milljónum Frakka og öllum þeim misnotuðu og ónotuðu auðlindum sem hefðu getað skapað þeim velmegun hefðu aldrei séð hana fyrir, mörgum árum áður, og aldrei talað berum orðum um það sem þeir sáu.“

Það var búið að vera að sá fyrir frönsku byltingunni í áratugi með því að útpíska fólk, arðræna það, eyðileggja og brjóta niður með hroka og steigurlæti eins og aðlinum einum er eiginlegt. Dickens er að skrifa um mikla ólgutíma og Ógnarstjórnina, en slíkar stjórnir spretta alltaf upp öðru hverju og við sjáum slíkar stjórnir í samtímanum. Þetta þekkja margir í dag, ekki bara hér á Íslandi heldur víðs vegar um heiminn. Þetta er ástand sem er stöðugt að versna,“ segir Þórdís og tekur fram að sér þyki skipta miklu máli að bækur sem hún þýði tali með sterkum hætti til samtímans auk þess sem hún verði sjálf að kveikja á bókinni.

„Ég hef tíma og orku í að þýða um þrjú verk á ári, en ég verð að vera spennt fyrir bókinni, því í svona nánu sambandi gengur ekki að aðeins annar tveggja sé áhugasamur. Þetta verður að vera gagnkvæmt.“

Allt gott drama þarf skúrk

Hvernig hefur glíman við Dickens verið?

„Þetta er eins og að borða fíl, maður tekur bara einn bita í einu,“ segir Þórdís og tekur fram að tíminn sem það hafi tekið hana að þýða Sögu tveggja borga yfir á íslensku sé á við eina meðgöngu. „Dickens er algjör fagmaður og lipur penni. Stíll hans einkennist af háði. Á sama tíma skrifar hann fallegt mál sem er algjört hunang fyrir lesendur eða ætti ég að segja jarðarber með rjóma. Hann skefur ekki utan af neinu, frekar en aðrir stórir höfundar. Dickens er sérfræðingur í mannlýsingum og hefur áhuga á og þykir vænt um fólk. Þó það standi fremst í bókinni að þetta sé saga um frönsku byltinguna þá er þetta ekki saga um frönsku byltinguna, heldur saga um fólk sem lendir í frönsku byltingunni. Þetta er ekki sagnfræði og langt frá því að vera þurrt. Eitt af höfundareinkennum Dickens er að skapa eina ógeðfellda týpu í hverri bók sem lesendur elska að hata, hvort heldur það er Madame Defarge í Sögu tveggja borga eða Fagin í Oliver Twist. Hann passar alltaf upp á að vera með skúrk, enda þarf allt gott drama að hafa skúrk.“

Nú býrð þú og starfar í Kaupmannahöfn. Hefur þú alltaf haft sterk tengsl við Danmörku?

„Já, ég bjó þar og starfaði á áttunda áratugnum áður en ég fluttist til Bandaríkjanna, en síðan flutti ég heim til Íslands. Þegar einkasonurinn var níu ára flutti ég aftur til Danmerkur og hef búið þar síðan með tveimur hléum,“ segir Þórdís sem tileinkar nýju þýðinguna Helga, syni sínum.

„Auðvitað sakna ég Íslands og fólksins hér. Að mörgu leyti líkar mér þó ágætlega að búa í Danmörku. Samgöngur eru góðar og því þarf maður ekki að eiga bíl, verðlagið er gott og matur ódýr. Veðrið er betra og það er gaman að fara í leikhús. Það hefur ríkt stöðugleiki í þjóðfélaginu, en ég skynja hins vegar ákveðna breytingu í afstöðu landsmanna á allra síðustu misserum. Það fer æ meira fyrir lýðskrumi og tortryggni gagnvart öllum útlendingum, sem bitnar líka á mér.

Reyndar þykir mér vænna um íslenskuna, því betur sem ég kynnist dönskunni. Íslenskan er svo falleg, tær og sterk. Hún er dýrgripur og í raun mætti lýsa henni sem áttunda undri veraldar – nema hvað hún er ekki áþreifanleg. Það er engin tilviljun að íslenskan hefur verið nefnd latína norðursins, enda sagðist danski málfræðingurinn Rasmus Kristian Rask hafa lært íslensku til þess að geta hugsað eins og maður,“ segir Þórdís í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í gær, fimmtudag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes