Sást á flugvelli í Peking

Fan Bingbing er ein þekktasta leikkona Kína.
Fan Bingbing er ein þekktasta leikkona Kína. AFP

Kínverska kvikmyndastjarnan Fan Bingbing, sem hvarf sporlaust í sumar, sást í fyrsta skipti opinberlega í Peking á mánudag. Nýlega birti hún færslu á samfélagsmiðli þar sem hún baðst afsökunar á skattalagabrotum. Talið er að hún hafi verið í haldi yfirvalda í um þrjá mánuði.

Fréttavefurinn Baidu birti mynd af Fan á samfélagsmiðlinum Weibo þar sem sjá má leikkonuna yfirgefa alþjóðaflugvöllinn í Peking aðfaranótt mánudags. Var leikkonan með sólgleraugu og á eftir henni gekk maður með stóra svarta regnhlíf. Ljósmyndarar náðu svo einnig myndum af henni við þetta tilefni en í frétt CNN um málið  segir að enn hafi ekki verið staðfest að á myndunum megi í raun sjá leikkonuna. 

Fan er ein þekktasta leikkona Kína og er einnig þekkt á Vesturlöndum, m.a. fyrir hlutverk sitt í X-Men-myndunum.

mbl.is