Romeó og Júlía pönksins

Fræg mynd ljósmyndarans Chalkies Davies af Sid Vicious og Nancy …
Fræg mynd ljósmyndarans Chalkies Davies af Sid Vicious og Nancy Spungen.

Fjörutíu ár voru á dögunum liðin frá andláti Sids Vicious, holdgervings pönksins. Þegar of stór skammtur af heróíni varð honum að bana sætti hann rannsókn vegna dauða unnustu sinnar. 

Eftir að hafa setið í 55 daga inni í hinu alræmda Rikers Island-fangelsi, þar sem hann gekkst meðal annars undir meðferð vegna eiturlyfjafíknar, var Sid Vicious leystur úr haldi og settur út á götur New York-borgar. Hann beið ekki boðanna, heldur hélt þráðbeint í næsta partí, þar sem elskuleg móðir hans beið eftir honum – með stóran skammt af heróíni. Það var í síðasta sinn sem hún útvegaði syni sínum dóp en morguninn eftir kom hún að honum liggjandi á gólfinu við hliðina á stungunál og boginni skeið. Hann var látinn.

Margt bendir til þess að Vicious hafi gert klassísk mistök fíkilsins, farið í sama skammtinn og síðast sem er vitaskuld vafasamt þegar menn hafa verið í tæpa tvo mánuði á snúrunni.
Eða ætlaði hann að svipta sig lífi og virða þannig samkomulagið sem hann á að hafa gert við unnustu sína, Nancy Spungen, í anda elskenda elskendanna, Rómeós og Júlíu?

AFP

Dró játninguna til baka

Spungen lést fjórum mánuðum fyrr; var stungin til bana á herbergi 100 á Chelsea-hótelinu í New York, 12. október 1978, og Vicious var efstur á lista lögreglunnar yfir hina grunuðu. Hann var handtekinn og mun til að byrja með hafa gengist við verknaðinum. „Ég gerði þetta …vegna þess að ég er dólgur,“ á hann að hafa sagt. Seinna dró hann játninguna til baka. Kvaðst ekki muna nokkurn skapaðan hlut enda hefði hann verið sofandi og undir áhrifum sterkra deyfilyfja þegar Spungen á að hafa verið stungin. Blóðprufa renndi stoðum undir það.

Hann var í framhaldinu látinn laus gegn tryggingu en hnepptur aftur í hald þegar hann réðst á Todd, bróður rokksöngkonunnar Patti Smith, með brotinni bjórflösku á næturklúbbi.
Rannsóknin á láti Spungen sigldi í strand þegar Vicious féll frá og því verður líklega aldrei svarað fyrir víst hver varð henni að bana enda þótt margt bendi til þess að unnusti hennar hafi verið þar að verki. Engar vísbendingar eru um annað. Hitt hefur þó örugglega verið rétt hjá honum, hafi hann framið verknaðinn hefur hann örugglega ekki munað eftir því.

Chelsea Hotel var gististaður fólks eins og Andy Warhol, Janis …
Chelsea Hotel var gististaður fólks eins og Andy Warhol, Janis Joplin, Mark Twain, Humphrey Bogart, Jack Kerouac, Jackson Pollock, Jerry Garcia, Tennessee Williams og Bob Dylan. AFP

Ekki eru þó allir sannfærðir og í heimildarmyndinni Pretty Vacant: A History of UK Punk heldur Phil nokkur Strongman því fram að lífvörður og fíkniefnasali með því tilkomumikla nafni Rockets Redglare hafi myrt Spungen en hann mun hafa verið mikill aðdáandi Vicious. Kenningin er sú að Redglare hafi stolið frá Vicious og Spungen borið þær sakir á hann með fyrrgreindum afleiðingum. Strongman heldur því fram að Redglare hafi stært sig af morðinu við félaga sína í mekka pönksins í New York, GBGB’s.

Ekki verður þetta borið undir Redglare úr þessu en hann sálaðist árið 2001.

Fyrsta og eina ástin hans

Umboðsmaður Sex Pistols, hinn litríki Malcolm McLaren, gagnrýndi líka rannsókn lögreglu harðlega á sínum tíma. „Hún var fyrsta og eina ástin í lífi hans […] Ég er ekki í minnsta vafa um sakleysi Sids,“ hafði The Daily Beast eftir honum árið 2009.

Hvað sem gerðist þá verða Vicious og Spungen alla tíð spyrt saman eins og Cathy og Heathcliff eða Bonnie og Clyde. Þökk sé meðal annars kvikmyndinni Sid & Nancy sem Alex Cox gerði árið 1986. Þar gera menn því skóna að Vicious hafi stungið Spungen en opið er fyrir túlkun hvort það hafi verið óvart eða af ráðnum hug.

Skapgerðarleikarinn Gary Oldman fór á kostum í hlutverki Vicious og Chloe Webb lék Nancy en margir kannast líklega við hana sem mömmuna í bandaríska spédramanu Shameless. Stjörnuleikur í báðum hlutverkum en svo virðist sem það henti Webb best að leika konur í klóm fíknar og ólifnaðar.

Eins mikið og látið hefur verið með Vicious gegnum tíðina og menn velt sér upp úr lífi hans og störfum mætti ætla að hann hafi verið kominn á miðjan aldur þegar hann dó. Öðru nær, hann var 21 árs. Segið svo að pönkarar lifi ekki hraðar en aðrir menn!

Var „attitjúd“ pönksins

Vicious, sem hét réttu nafni John Simon Ritchie, fæddist í Lundúnum 10. maí 1957. Hann hafði komið við sögu hjá einhverjum pönkböndum áður en Sex Pistols réð hann sem bassaleikara snemma árs 1977 sem sætti tíðindum í ljósi þess að hann kunni varla á bassa. En „lúkkið“, viðhorfið og sviðssjarminn voru hins vegar upp á tíu. „Ef Johnny Rotten [söngvari Sex Pistols] er rödd pönksins, þá er Sid Vicious „attitjúdið“,“ var einu sinni haft eftir Malcolm McLaren.

Vicious var aðeins með á einni plötu Pistols, Never Mind the Bollocks, Here’s the Sex Pistols. Lék þó bara í einu lagi, bæði vegna þess að Steve Jones gítarleikari var betri á bassa og svo vegna þess að Vicious lá um tíma á spítala meðan á upptökum stóð með lifrarbólgu vegna sprautufíknar sinnar.

Seinna iðraðist John Lydon (Johnny Rotten) þess að hafa dregið æskuvin sinn inn í bandið. „Hann átti enga möguleika,“ sagði hann í viðtali árið 2014. „Móðir hans var heróínfíkill. Mér líður illa yfir því að hafa fengið hann til liðs við bandið, hann réð ekki neitt við neitt. Mér finnst ég bera ákveðna ábyrgð á dauða hans.“

Kynlegur hippi

Lydon kallar Beverly, móður Vicious, „kynlegan hippa“ í bókinni Rotten: No Irish, No Blacks, No Dogs frá 1993. Hún skildi við föður Vicious þegar drengurinn var lítill og var stöðugt á faraldsfæti. Ku hafa selt kannabis á Ibiza um tíma til að draga fram lífið. Loks komu mæðginin sér fyrir í Hackney-hverfinu í Lundúnum.

Í bók sinni um Vicious og Spungen frá 1983 segir móðir þeirrar síðarnefndu, Deborah Spungen, að Vicious hafi komið sér fyrir sjónir sem feiminn og barnalegur klaufi sem hafi verið yfir sig ástfanginn af dóttur hennar. Hún rifjar meðal annars upp símtal úr fangelsinu, þar sem hann tjáði tengdamóður sinni tárvotur: „Ég skil ekki hvers vegna ég er á lífi, úr því Nancy er farin.“

Hann þurfti ekki að þjást lengi.

Lést aðeins tvítug

Nancy Spungen var aðeins tvítug þegar hún lést. Hún var bandarísk en flutti til Lundúna, þar sem hún kynntist Sid Vicious og með þeim tókust ástir. Sambúðin var þó stormasöm enda neyttu þau bæði fíkniefna ótæpilega, auk þess sem hermt er að Spungen hafi glímt við geðsjúkdóm. Ekki ber þó heimildum saman um af hvaða tagi hann var.

Spungen var uppátækjasöm og féll ekki í kramið hjá bresku pressunni, sem þótti hún hafa slæm áhrif á alla í kringum sig, ekki síst Vicious. Þá á hún að hafa átt stóran þátt í því að Sex Pistols liðaðist í sundur. Frasinn kunni í God Save the Queen, „engin framtíð“, átti ekki síst við um þau.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes