Eddu hótað að klámefni fari í dreifingu

Edda Björgvins fékk fjárkúgun í tölvupósti.
Edda Björgvins fékk fjárkúgun í tölvupósti. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það er ekkert grín að lenda í leikkonunni Eddu Björgvinsdóttur. Sér í lagi ef menn ætla að reyna að hafa af henni pening með hótunum. 

Lúmskur aðili sendi henni bréf, þar sem hann hótar að birta klámefni með henni ef hún gerir ekki það sem hann segir og greiði honum pening. 

Edda lætur sér fátt um finnast og segir á Facebook: 

„Hótunarbréf frá hakkara í Outlook-pósthólfinu mínu. Hafið þið fengið svoleiðis? Þetta hljómar að vísu mjög spennandi því hakkarinn ætlar að senda öllum vinum og ættingjum mínum „pornó-myndband“ með mér ef ég borga honum ekki fullt af peningum. Nú bíð ég spennt.“ 

Hakkarinn segist hafa farið inn í pósthólfið hennar fyrir nokkrum mánuðum. Hann er síðan með kröfu um bitcoin greiðslu og gefur leikkonunni ástsælu 48 klukkustundir til að greiða honum. Hann segir að ef hún greiði honum ekki muni hann senda fjölskyldunni, einstaklingum sem vinna með henni og fleirum myndefni af henni. 

Þeir sem þekkja til leikkonunnar vita að hún lætur ekki koma sér úr jafnvægi með þess konar efni, heldur sér ávallt fallegu hliðarnar í lífinu. Hakkarinn verður án efa nokkrum rafmyntum fátækari fyrir vikið, en hann hefði kannski átt að vinna heimavinnuna sína betur fyrir þennan hrekk. mbl.is