Vilja Huffman í 4-10 mánaða fangelsi

Leikkonan Felicity Huffman fyrir utan dómshúsið.
Leikkonan Felicity Huffman fyrir utan dómshúsið. AFP

Saksóknari fer fram á að bandaríska leikkonan Felicity Huffman verði dæmd í 4-10 mánaða fangelsi fyrir háskólasvindlið svokallaða. Huffman greiddi svikafyrirtæki peninga sem aftur mútaði íþróttaþjálfurum og fleirum úr starfsliði háskóla til að koma dóttur hennar að í ákveðnum skóla.

Í frétt CNN segir að Huffman sé í hópi þrettán foreldra sem hafi játað á sig fjársvik. Samtals 33 foreldrar, m.a. Huffman sem þekktust er fyrir hlutverk sitt í Aðþrengdum eiginkonum, hafa verið sakaðir um að nota auðæfi sín og frægð til að koma börnum sínum með svindli í gegnum stöðu- og inntökupróf og múta starfsmönnum í háskólum til að koma börnum sínum þar inn.

Haft er eftir heimildum í frétt CNN að saksóknari ætli að fara fram á 4-10 mánaða fangelsisdóm yfir hópnum sem játað hefur brot sín í stað 12 mánaða eins og áður hafi verið talið. Huffman gerði samning við saksóknarann er hún játaði brot sín og er því talið að dómur hennar verði nær fjórum mánuðum en tíu, verði hún fundinn sek fyrir dómstólum.

Huffman játaði að hafa greitt 15 þúsund dollara, tæpar tvær milljónir króna, til fyrirtækis sem þóttist vera góðgerðarsamtök og tengist svikahrappnum Rick Singer. Greiðslan var fyrir að koma dóttur sinni með svikum í gegnum stöðupróf fyrir háskólanám. Singer rak fyrirtæki sem veitti nemendum aðstoð við undirbúning fyrir háskóla en arðbærasta hlið starfsemi hans fólst í svikamyllunni. 

Í frétt CNN segir að Huffman og Singer hafi skipst á tölvupóstum þar sem þau ræddu um hvernig hægt yrði að fá lengri tíma fyrir dóttur leikkonunnar við að taka prófin og hvernig því yrði komið í kring að hún tæki prófin í skólamiðstöð stjórnanda sem Singer hafði mútað. Stúlkan fékk 1420 stig í stöðuprófinu af 1600 mögulegum sem var um 400 stigum meira en hún hafði fengið á sambærilegu prófi ári fyrr.

Huffman gaf út opinbera afsökunarbeiðni og bað dóttur sína, sem hún sagðist hafa svikið, einnig afsökunar.

Málið hefur haft áhrif á leiklistarferil Huffman. Hún er í aðalhlutverki þáttaraðar sem sýna átti á Netflix í næstu viku. Sýningunum hefur nú verið frestað.

mbl.is