Jókerinn er ekkert grín

Joaquin Phoenix í hlutverki Jókersins.
Joaquin Phoenix í hlutverki Jókersins.

Kvikmyndagagnrýnandi Morgunblaðsins gefur kvikmyndinni Joker þrjár og hálfa stjörnu í gagnrýni sinni í blaðinu í dag og segir þessa umdeildu kvikmynd hrífandi sjónarspil þó ekki sé hún gallalaus. Gagnrýnin er svohljóðandi: 

„Fáar kvikmyndir hafa hlotið viðlíka umfjöllun hin síðustu ár og Joker, hin óvænta sigurmynd kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum í ár. Í fyrstu var kvikmyndin ausin lofi af gagnrýnendum en eftir því sem dómum fjölgaði tóku þeir að súrna og því jafnvel haldið fram að myndin væri beinlínis léleg að nær öllu leyti. Hvernig getur ein og sama kvikmynd annars vegar verið álitin stórkostleg, jafnvel meistaraverk og hins vegar óbærilega léleg, leiðinleg og innihaldslaus? Hvað veldur þessum klofningi, þessum gjörólíku viðtökum gagnrýnenda? Hin harða gagnrýni er að vissu leyti skiljanleg en líka hin mikla hrifning og þegar listaverk skapar slíkar umræður hlýtur eitthvað að vera varið í það, ekki satt?

Jókerinn er skæðasti andstæðingur Leðurblökumannsins í sögunum af grímuklæddu hetjunni og þótti mér í fyrstu undarlegt að gera ætti heila kvikmynd um hann en síðan snerist mér hugur. Hvers vegna ekki? Jókerinn er nú einu sinni með endemum ýkt og skrautleg persóna, hvítmálaður í framan eins og trúður með grænt hár og jafnan í fjólubláum jakkafötum, síhlæjandi og gjörsamlega galinn, eins og sést hefur í eftirminnilegri túlkun leikaranna Jack Nicholson og Heath heitins Ledger. Jókerinn er siðblindur hryðjuverkamaður og morðingi og hans helsta markmið er að skapa glundroða og upplausn í samfélaginu. Það var því nokkurn veginn ljóst frá upphafi hvers konar kvikmynd Joker yrði. Að minnsta kosti öruggt að hún yrði bönnuð börnum undir 16 ára aldri. Sem hún er enda blóðug á köflum.

Aumkunarverður

Að myndin skuli heita Joker en ekki The Joker vakti athygli mína og fyrir því er auðvitað ástæða. Arthur Fleck, maðurinn sem á endanum tekur sér nafnið Joker (sem þýða mætti sem brandarakarl, spéfugl, spaugari eða einfaldlega jóker) er ekki heill á geði, aumkunarverður og fyrirlitinn af vinnuveitanda sínum og samstarfsmönnum. Hann starfar hjá trúðaleigu en dreymir um að verða uppistandari. Gallinn er að hann getur ekki sett sig í spor annarra og skilur ekki hvað telst almennt fyndið og hvað ekki. Í ofanálag er hann svo haldinn einhvers konar hláturröskun, hlær stjórnlaust þegar hann er undir álagi eða í óþægilegum aðstæðum. Þessi röskun leiðir auðvitað til þess að hann er litinn hornauga og dæmdur af samfélaginu sem rugludallur eða brjálæðingur sem beri að forðast.

Fleck er barinn til óbóta af gengi unglinga í byrjun myndar og nokkru síðar af þremur jakkafataklæddum mönnum á fylliríi í neðanjarðarlest. Í bæði skiptin er hann í trúðsgervi. Handritshöfundar draga þarna upp mynd af öfgakenndu samfélagi, í anda myndasagnanna, í borginni Gotham, miskunnarleysi og drunga og óstjórnin á að vera slík að áhorfendur geri sér grein fyrir að upp úr muni sjóða áður en langt um líður. Í fréttum kemur fram að ógnarstórar rottur leiki lausum hala í borginni og gæði sér á sorpi sem hefur hrannast upp í verkfalli sorphirðumanna. Andúð á stjórnmálamönnum og ríkri yfirstétt borgarinnar er gefin í skyn (mætti þó vera betur útskýrð) og eins og þeir vita sem til þekkja mun Jókerinn láta til sín taka þegar kemur að því að hreinsa til í „mannsorpinu“, ef svo mætti að orði komast.

Áhrif frá Scorsese

Að þessu sögðu má ítreka að persónan sprettur upp úr öfgakenndum og drungalegum sagnaheimi Batman, Leðurblökumannsins. Efnistök handritshöfunda og leikstjóra eru þó ekki alltaf í þeim ýkjustíl og myndin minnir um margt á rómaðar og áhrifamiklar kvikmyndir leikstjórans Martins Scorsese, Taxi Driver og King of Comedy. Leikstjórinn er greinilega undir áhrifum frá þeim og fleiri kvikmyndum frá svipuðum tíma. Báðar þær fyrrnefndu eru með Robert De Niro í aðalhlutverkum og segja af hvítum körlum sem ganga ekki heilir til skógar, telja sig beitta órétti og grípa að lokum til sinna ofbeldisfullu ráða og hefna sín á samfélaginu með ólíkum hætti.

Í King of Comedy leikur De Niro Rupert nokkurn Pupkin sem dreymir um að slá í gegn í spjallþætti. Í Joker fer hann með hlutverk spjallþáttastjórnandans Murray sem kemst yfir myndefni af misheppnuðu uppistandi Fleck og gerir grín að honum í beinni útsendingu. „What a joker!“ segir De Niro eftir að gestir í sal hafa hlegið innilega að óförum Fleck. Í þessu samhengi þýðir orðið „joker“ kjáni eða fífl og þaðan kemur titill myndarinnar, myndi ég ætla.

Uppátæki spjallþáttastjórnandans verður til þess að Fleck gengur endanlega af göflunum og verður að þeim morðóða Jóker sem þekktur er úr sögunum um Leðurblökumanninn. Atriðið þar sem Jókerinn hittir Murray er svakalegt, svo ekki sé meira sagt. Fyrrnefndar vísanir í kvikmyndir Scorsese eru kannski fullaugljósar og við aðra augljósa áhrifavalda má við bæta sjálfum Charlie Chaplin.

Hvorki frábær né léleg

En er þetta frábær kvikmynd eða léleg? Hvorugt, að mínu mati. Af því jákvæða ber fyrst að nefna frábæran og auðvitað frekar ýktan leik Phoenix sem grennir sig svakalega fyrir hlutverkið. Hann er bara skinn og bein og hefur greint frá því í viðtölum að ástæðan fyrir því að hann kaus að fara þá leið sé algengt þyngdartap þeirra sem eru á sömu geðlyfjum og Fleck er á í myndinni. Phoenix nýtur sín í hlutverkinu og beitir líkamanum með áberandi hætti til að lýsa sálarástandi persónunnar, stundum líkari dýri en manni. Hann stígur dans við áhrifamikla tónlist Hildar Guðnadóttur sem er í senn falleg, viðkvæm og drungaleg og einkennist af lágum og kraftmiklum sellótónum og dynjandi bassa. Þessi atriði eru mikil bíóupplifun, bæði sjónrænt og hljóðrænt.

Af því neikvæða er kannski ekki margt að segja en nefna má að myndin er heldur fyrirsjáanleg. Kannski gat hún aldrei orðið annað í ljósi forsögunnar og tengslanna við myndasögur DC en áhorfendur vita frá upphafi að eitthvað hroðalegt er í uppsiglingu, ekki ólíkt því þegar horft er á kvikmynd um stórslys. Einnig má gagnrýna hversu einföld sagan er á heildina litið, sem mætti þó einnig telja til styrkleika og skýringar á veikindum Fleck eru kunnuglegar tuggur um illa meðferð í æsku.

Margar senur myndarinnar eru eftirminnilegar og þá fyrst og fremst fyrir túlkun Phoenix sem hefur aldrei verið óhugnanlegri og er líklegur til að hljóta Óskarinn og fleiri styttur á næstu mánuðum. Phoenix ber þessa mynd á beinaberum herðum sínum og stoppar upp í þau göt sem leynast í handritinu. Framan af er engin tenging við upprunann, hér er ný upprunasaga Jókersins á ferðinni, enginn Batman sjáanlegur. Það hefði verið sniðug hugmynd að gera mynd um Jókerinn algjörlega ótengda myndasagnaupprunanum og það voru ákveðin vonbrigði að vera dreginn óvænt inn í þann heim, skömmu fyrir hlé. Engu að síður er þetta mjög óvenjuleg mynd miðað við aðrar unnar upp úr myndasögum um hetjur og ofurhetjur og ánægjuleg tilbreyting. Handritshöfundar ákveða að vísu að tengja Fleck og móður hans við auðjöfurinn Thomas Wayne, föður Bruce Wayne/Leðurblökumannsins. Þetta finnst mér veikja söguna og óþarft hliðarspor.

Hættuleg kvikmynd?

Ein gagnrýnin sem myndin hefur hlotið er að vera beinlínis hættuleg og hvetja mögulega óstöðuga einstaklinega til ofbeldisverka. Er þá m.a. litið til skotárásar sem gerð var á gesti miðnætursýningar á Batman-myndinni The Dark Knight Rises í Aurora í Colorado fyrir sjö árum. Þeir sem eru ósammála þessu segja á móti að listaverk, þ.ám. kvikmyndir, hafi ekki slík áhrif, leiði ekki eða hvetji til ofbeldisverka og fjöldamorða. Það er því miður ekki rétt og má sem dæmi nefna fyrrnefnda Taxi Driver en John Hinkley, maðurinn sem reyndi að ráða Ronald Reagan Bandaríkjaforseta af dögum árið 1981, sagðist hafa verið innblásinn af henni. Annað eldra dæmi er kvikmyndin The Birth of a Nation frá árinu 1915 sem leiddi til mikillar fjölgunar meðlima Ku Klux Klan. Þá hefur Fight Club verið tengd við ofbeldisverk og fleiri dæmi mætti eflaust tína til.

Gagnrýnendur Joker, þ.e. þeir neikvæðu, hafa líka bent á að hér sé komin enn ein hættulega „incel“-kvikmyndin en incel er skammstöfun á „involuntary celibates“ og á við um fólk, og þá fyrst og fremst karlmenn, sem eru ófærir um að finna sér maka og búa því tilneyddir við einlífi. Slík einangrun getur leitt til óhamingju og innibyrgðrar reiði út í samfélagið. Hafa nokkrir slíkir karlar, „incels“ svonefndir, framið fjöldamorð eða ráðist að fólki með ofbeldi í Bandaríkjunum. Þetta er því sannarlega dauðans alvara og hvort réttlætanlegt er að gera kvikmyndir um slíka menn verður hver að meta fyrir sig. Listamenn geta auðvitað ekki fríað sig ábyrgð á verkum sínum, þeirra er ákvörðunin að gera þau. Joker er samt sem áður bara ein af mýmörgum ofbeldismyndum Hollywood og mætti einnig spyrja um ábyrgð hinna stóru kvikmyndavera sem framleiða þær og svo þeirra sem styðja gerð myndanna með því að fara að sjá þær í bíó. Ábyrgð okkar. Flest erum við sem betur fer fær um að greina milli raunveruleika og skáldskapar, réttlætis og ranglætis.

Það var ekki auðvelt að ákveða stjörnugjöf fyrir Joker en en niðurstaðan varð sú að að kostir myndarinnar væru miklu fleiri en gallarnir. Hún stenst prófið og vel rúmlega það. Tæknilega er hún óaðfinnanleg; myndataka, hljóð, klipping, búningar og förðun, allt er þetta fyrsta flokks og áhrifamikið. Þetta er hrollvekjandi og litríkt sjónarspil sem einn fremsti kvikmyndaleikari Bandaríkjanna heldur uppi með glæsibrag.“

Hér má sjá stiklu kvikmyndarinnar:

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það skiptir öllu í samstarfi að menn virði skoðanir hvers annars og nái samkomulagi um það sem máli skiptir. Að öðrum kosti talarðu fyrir daufum eyrum.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það skiptir öllu í samstarfi að menn virði skoðanir hvers annars og nái samkomulagi um það sem máli skiptir. Að öðrum kosti talarðu fyrir daufum eyrum.