Valli Sport og Þórunn Antonía leiða saman hesta sína

Valgeir Magnússon og Þórunn Antonía Magnússon.
Valgeir Magnússon og Þórunn Antonía Magnússon.

Þórunn Antonía og Valgeir Magnússon sem þekktur er undir nafninu Valli Sport hafa leitt saman hesta sína og gert saman lagið Ofurkona. Lagið kemur út á næstu dögum og er það Þórunn sem sér um sönginn.  

„Okkur hefur langað að vinna saman í langan tíma og svo var þetta einhvernvegin nákvæmlega rétti tíminn og rétta hugmyndin til að gera eitthvað saman,“ segir Þórunn um samstarfið og bætir við:

„Þegar ég heyrði hvernig Valli var að vinna hugmyndina, þá vildi ég strax vera með. Þetta er eitthvað svo akkúrat ég og það sem ég er að gera þessa dagana og mjög margar setningar þarna sem gætu verið mínar. Svo ég tengdi fullkomlega við hugmyndina. Við heltum okkur þá út í samstarfið til að sjá hvað kæmi út úr því. Svo þegar við vorum búin í stúdíóinu þá kom þetta líka svona frábærlega vel út að ég hlakka mikið til að heyra hvað fólki finnst og hvernig boðskapurinn leggst í fólkið,“ segir hún. 

Valli segir að það hafi engin önnur en Þórunn getað sungið þetta lag. 

„Þegar ég var að vinna þetta hugsaði ég að Þórunn væri rétta manneskjan til að klára lagið með mér, sterk ung kona sem hefur talað opinberlega um hvað hún, sem kona, hefur gengið í gegnum. Ég byrjaði með þá stóru spurningu „Hvað er að vera kona?“. Það var mjög áhugarvert, verandi maður í minni stöðu, miðaldra, hvítur, gagnkynhneigður, forréttindakall. Þarna sat ég að reyna skilja þessa spurningu. Ég gat að sjálfsögðu ekki bara ímyndað mér það svo ég gerði það sama og ég er vanur að gera í auglýsingavinnu. Afla mér heimilda og reyna skilja hvað ég er að fjalla um,“ segir Valli um samstarf þeirra Þórunnar.

Valli réðst ekki á garðinn þar sem hann væri lægstur heldur tók viðtöl við 30 konur. 

„Það sem sló mig mest voru ákveðin orð og setningar kvennanna sem urðu svo beinagrindin mín. Þannig að orðin eru ekki mín, heldur þeirra. Það kom margt fram í þessum viðtölum sem ég vissi svo sem en svo voru þarna hlutir sem komu mér virkilega á óvart og höfðu áhrif á mig. Seinna var ég staddur í Marokkó með hópi íslenskra kvenna sem fengu ljóðaupplestur og gáfu í staðinn gagrýni. Ég sat lengi með einni ofurhetju auglýsingabransans, Kristínu sem stofnaði AUK auglýsingastofu og ruddi líklega brautina fyrir margar konur. Hún gaf mér líka góða punkta. Svo kom Þórunn með sitt innlegg og þá breyttist textinn í fyrstu persónu, en ég skrifaði hann upprunalega í þriðju persónu. Hún setti punktinn yfir i-ið með frábærum flutningi og svo hjálpaði Ásgeir Orri í Stop Wait Go okkur mikið með fraseringarnar en hann sá um upptökustjórnina,“ segir Valli. 

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Finndu leið til að koma hugmyndum þínum á framfæri þannig að enginn misskilningur standi þeim í vegi. Dropinn holar bergið og einn góðan veðurdag fjölgar áhangendunum.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Finndu leið til að koma hugmyndum þínum á framfæri þannig að enginn misskilningur standi þeim í vegi. Dropinn holar bergið og einn góðan veðurdag fjölgar áhangendunum.