Björk gleður Óslóarbúa í kvöld

Björk Guðmundsdóttir kemur fram á tónleikum í Cornucopia-tónleikaferð sinni í …
Björk Guðmundsdóttir kemur fram á tónleikum í Cornucopia-tónleikaferð sinni í Oslo Spektrum-tónleikahöllinni í kvöld. Norska ríkisútvarpið NRK gerir söngkonunni ítarleg skil auk þess sem fleiri norskir fjölmiðlar hafa greint frá heimsókn hennar. NRK segir Tappa Tíkarrass þýða eitthvað á borð við „settu tappann í rassinn á kellingunni“. Ljósmynd/ALESSIA PIERDOMENICO

„Listamenn á borð við Björk vaxa ekki á trjám.“ Með þessum orðum hefst úttekt norska ríkisútvarpsins NRK á ævi og starfi Bjarkar Guðmundsdóttur sem heldur tónleika í Oslo Spektrum-höllinni í kvöld en þeir eru liður í Cornucopia-tónleikaferðalagi söngkonunnar sem hófst í vor.

„Nú heimsækir þessi 54 ára gamla tónlistarkona Ósló með framúrstefnulegri sviðsframkomu sinni hvar sveppir og bakteríur (!) eru í aðalhlutverki,“ skrifa þau Oddvin Aune og Ragnhild Laukholm Sandvik, fréttamenn NRK, í úttekt sinni sem gengur undir fyrirsögninni „Brautryðjandinn“ á menningarsíðum NRK.

Kynna þau svo söguna af listamanninum óhrædda sem hvorki hafi látið ástarsorg, metoo-byltingu né banatilræði raska ró sinni og vísa með því síðasttalda til þess þegar eltihrellirinn Ricardo Lopéz sendi Björk pakka með sprengiefni og brennisteinssýru árið 1996. Draumsýn Lopéz hefði verið að koma söngkonunni fyrir kattarnef og sameinast henni svo í framhaldslífinu en brostnum vonum sínum lýsti hann ítarlega í myndskeiði sem hann skildi eftir sig og lauk með því að hann skaut sig í höfuðið.

„Settu tappa í rassinn á kellingunni“

„Björk hefur verið upptekin af frelsishugtakinu í tónlistarsköpun sinni, nokkuð sem auðvelt er að tengja við uppeldi hennar í opnu og vindsælu landslagi. [...] Björk ólst upp með aðgerðasinnaðri hippamóður [n. miljøaktivistiske hippiemor] og sex systkinum en hélt þó sambandi við föður sinn, rafvirkja sem síðar varð þekktur stéttarfélagsforkólfur á Íslandi [Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambands Íslands].“

Þau NRK-skrifarar segja Ísland ekki hafa farið varhluta af pönktónlist og uppreisnargirni unglinga á áttunda áratugnum þrátt fyrir að vera eyland í ystu myrkrum. Björk hafi stofnað hljómsveitina Tappa Tíkarrass, „sem þýðir eitthvað í ætt við „settu tappa í rassinn á kellingunni“ [n. putt en kork i ræva på kjerringa],“ reyna ritarar NRK að þýða eftir bestu getu yfir á norsku.

Björk varð móðir 21 árs, hóf leiklistarferil og gekk til liðs við hljómsveitina Sykurmolana, segir NRK frá og bætir því við að Sykurmolarnir hafi á hátindi ferils síns verið umfangsmesta hljómsveit Íslands og verið teknir í guðatölu í röðum gagnrýnenda og áhugafólks um indí-tónlist.

Tónlist úr framtíðinni

„Hvað meira gat gerst?“ spyrja blaðamenn ríkisútvarpsins og svara spurningunni sjálfir: „Flest.“ 

„Platan „Debut“ árið 1993 kom Björk á heimskortið fyrir tilstilli blöndu af jazz-, popp- og house-tónlist. Tónlistin hljómaði eins og hún kæmi úr framtíðinni. Björk varð að goði í tónlistarkima þar sem kvenkyns indí-hetjur voru ekki á hverju strái. Hún gekk til samstarfs við vinsælustu tónlistarframleiðendur Bretlands og um tíma voru álíka margir paparazzie-ljósmyndarar á eftir henni og Gallagher-bræðrunum úr Oasis.“

Greinarhöfundar rifja upp að í viðtali við NRK árið 1993 hafi Björk verið spurð hvort hún markaðssetti sig með vitund og vilja sem Íslending. Svarið hafi verið einfalt:

„Ég hef ekkert um það að segja. Þetta snýst um breska kynþáttafyrirlitningu. Bretar eru sannfærðir um að þeirra land sé það besta í heiminum og allir aðrir en þeir séu bara kvikindi sem búi á plánetunni, á borð við gíraffa og apa. Maður er gerður að einhverri andlegri veru sem flýgur yfir Norðurpólinn og talar eins og álfur,“ svaraði Björk spurningunni.

Syngur og fer svo heim

„Konan er röddin, sálin og þessi viðkvæma vera. Á meðan er karlmaðurinn skaparinn, framleiðandinn og snillingurinn,“ hefur NRK eftir Björk í viðtali eftir útgáfu plötunnar Vulnicura árið 2015. „Hefði karlmaður gert allt það sem hún gerði við vinnslu þeirrar plötu hefði honum verið klappað lof í lófa fyrir það,“ skrifa Aune og Sandvik.

„Það er eins og ég sé einhver sveimandi vera sem dúkkar skyndilega upp, syngur og fer svo heim. Það er eins og fólk taki mig enn þá ekki alvarlega sem lagahöfund, skipuleggjanda og framleiðanda,“ hefur NRK eftir Björk Guðmundsdóttur í grein sem er mun lengri en það sem hér hefur verið endursagt og áhugasamir lesendur geta lesið á norsku hér.

Fleiri norskir fjölmiðlar fjalla um strandhögg Bjarkar í Ósló í kvöld og væntanlega skrifa einhverjir miðlar gagnrýni um tónleikana næstu daga.

VG

Sunnmørsposten

Gaffa.no

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Allir þurfa að eiga sér undankomuleið, hvernig sem viðrar í mannlífinu. Brostu bara við heiminum og þá mun heimurinn reynast þér vel.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Allir þurfa að eiga sér undankomuleið, hvernig sem viðrar í mannlífinu. Brostu bara við heiminum og þá mun heimurinn reynast þér vel.