„Í góðum tengslum við þjóðina“

„Starfið er auðvitað mjög víðfeðmt,“ segir Lára Sóley Jóhannsdóttir um …
„Starfið er auðvitað mjög víðfeðmt,“ segir Lára Sóley Jóhannsdóttir um starf sitt sem framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er í mínum huga draumastarf,“ segir Lára Sóley Jóhannsdóttir sem 1. ágúst tók við starfi framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ). Lára Sóley er menntaður fiðluleikari og hefur starfað sem tónlistarmaður og sjálfstætt starfandi verkefnastjóri undanfarin ár. Hún var um tíma konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands þar sem hún sat einnig í stjórn og verkefnavalsnefnd og á árunum 2010-2014 var hún verkefnastjóri við Menningarhúsið Hof og gegndi starfi framkvæmdastjóra Hofs í afleysingum. 

„Tónlistin hefur átt hug minn allan, sérstaklega sem flytjandi en ég hef engu að síður alltaf haft það að markmiði mínu að koma að menningarstjórnun í framtíðinni,“ segir Lára Sóley sem lauk BMus-prófi í fiðluleik frá Royal Welsh College of Music and Drama 2006 og meistaranámi í listastjórnun við sama háskóla fyrr á árinu.

„Sumarið 2018 fluttum við fjölskyldan til Bretlands þar sem ég fór í nám í listastjórnun. Ég var á kafi í því námi þegar starf framkvæmdastjóra SÍ var auglýst laust til umsóknar og sendi inn umsókn,“ segir Lára Sóley og rifjar upp að hún hafi nýlokið tveggja mánaða starfsnámi sínu hjá Sinfóníuhljómsveit BBC Wales þegar hún flaug heim og tók við framkvæmdastjórastöðunni hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Ómetanleg reynsla

„Starfsnámið úti veitti mér ómetanlega reynslu, en ég náði bæði að vinna að undirbúningi alþjóðlegu söngvarakeppninnar BBC Cardiff Singer of the World og BBC Proms. Það var mér dýrmætt þegar ég fór að setja mig inn í starfið hér heima að hafa samanburð við starfið hjá BBC og eiga gott tengslanet úti.“

Ég geri ráð fyrir að þú hafir þurft að gera grein fyrir framtíðarsýn þinni fyrir SÍ í umsóknarferlinu. Geturðu deilt þeirri sýn með lesendum?

„Sinfóníuhljómsveitin er búin að vera á hraðri uppleið seinustu árin og því ákveðin áskorun að taka við keflinu frá Örnu Kristínu Einarsdóttur á slíkum tíma. Það eru miklar hræringar og nýsköpun í klassísku tónlistarsenunni og því mikilvægt að móta skýra sýn fyrir hljómsveitina. Eftirspurn eftir leik hennar er að aukast erlendis með hverri tónleikaferð. Við þurfum að vita eftir hverju við erum að sækjast og hvert við erum að stefna og setja okkur skýr markmið,“ segir Lára Sóley sem sett hefur af stað slíka stefnumótunarvinnu með aðkomu hljómsveitar, yfirstjórnar og ýmissa hagsmuna- og samstarfsaðila á borð við RÚV, Hörpu og fulltrúa ríkis og Reykjavíkurborgar sem leggja hljómsveitinni til rekstrarfé.

„Mér finnst einnig mikilvægt að hljómsveitin sé í góðum tengslum við þjóðina og fari reglulega í tónleikaferðir um landið,“ segir Lára Sóley og rifjar upp hversu þýðingarmikið það hafi verið sér á unga aldri að sækja tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar í íþróttahúsinu á Húsavík þar sem Lára Sóley er alin upp. „Beinar útsendingar á Rás 1 frá tónleikum hljómsveitarinnar eru mjög mikilvægar til að halda uppi samtali við þjóðina, en ekki síður beint streymi á vefnum sinfonia.is.

Hljómsveitin á að styðja við listamenn, einleikara, hljómsveitarstjóra, tónskáld og nýjar tónsmíðar,“ segir Lára Sóley og bendir á að Anna Þorvaldsdóttir sé staðartónskáld um þessar mundir. „Í gegnum Yrkju, sem unnið er í samstarfi við Íslenska tónverkamiðstöð, höfum við stutt við ung tónskáld sem eru að hefja sinn feril. Allt þróunarstarf er mjög mikilvægt og þar á SÍ að vera leiðandi.“

Mikill metnaður

Eðlilega tekur tíma að setja sig inn í nýtt starf. Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart í því ferli?

„Starfið er auðvitað mjög víðfeðmt,“ segir Lára Sóley og tekur fram að hún hafi þegar hún tók við starfinu verið sér meðvituð um að það væri í mörg horn að líta. „Teymið sem heldur um hljómsveitina, sem myndar rammann fyrir þessa mikilvægu skapandi miðju sem hljóðfæraleikaranir eru, er ekki mjög stórt. Það liggur því ansi mikið á hverju borði,“ segir Lára Sóley og nefnir til samanburðar að hjá SÍ starfi 12 manns í framkvæmda- og skrifstofuteymi hljómsveitarinnar en 25 manns vinni í sambærilegu teymi hjá BBC, þar sem hún var í starfsnámi, en sú hljómsveit er ekki jafnfjölmenn og SÍ.

„Það hefur verið frábært að kynnast fólkinu sem vinnur í framkvæmda- og skrifstofuteymi hljómsveitarinnar og fá innsýn inn í þeirra störf,“ segir Lára Sóley og tekur fram að hún hafi einsett sér, þegar hún tók við starfinu, að funda einslega með öllum hljóðfæraleikurunum og starfsfólki SÍ. „Ég á aðeins örfáa hljóðfæraleikara eftir. Mér fannst mikilvægt að eiga samtal við alla sem hér starfa. Í þeim samtölum hefur mér fundist svo frábært að finna hvað metnaðurinn er mikill, bæði hjá fólki persónulega fyrir sínu starfi og líka fyrir hljómsveitina í heild sinni og eins hvað fólk metur starfið mikils. Ég held að slíkur metnaður sé ekki sjálfgefinn. Hver einasti hlekkur í starfseminni hér skiptir miklu máli og mér er mikilvægt að eiga í góðu og traustu sambandi við alla.“

Erum öll í sama liði

Hvers konar stjórnandi vilt þú vera? Hvaða nálgunarleið telur þú að skili bestum árangri?

„Að hlusta á og bera virðingu fyrir samstarfsfólki er dýrmætt veganesti. Ég finn að það nýtist mér vel að hafa unnið sem hljóðfæraleikari og hafa skilning á því starfi. Við erum öll í sama liði, viljum öll ná árangri, þróast og bæta okkur. Það er mikilvægt að vera tilbúinn að sinna öllum þeim verkefnum sem upp koma. Þótt ég geri mér fulla grein fyrir að endanlega liggi ábyrgðin hjá mér þá eru mín störf ekki yfir störf annarra hafin.“

Getur þú sagt mér meira frá þeirri stefnumótunarvinnu sem nú er í gangi?

„Það var á löngum tíma unnin stefnumótun sem kynnt var fyrir árin 2015-2020. Við erum ekki að kollvarpa neinu frá þeirri stefnu. Mörg af þeim markmiðum sem þar voru sett hafa náðst og við erum því meðal annars að skoða hver næstu markmið verða,“ segir Lára Sóley og rifjar upp að meðal þeirra markmiða sem sett voru og þegar hafa náðst eru að efla sýnileika hljómsveitarinnar bæði hér- og erlendis ásamt því að auka fræðslustarfið.

Mælikvarðar af ýmsu tagi

„Eitt af því sem huga þarf að við stefnumótun er að setja sér mælanleg markmið. Það getur verið krefjandi í listrænu tilliti. Við viljum laða til okkar framúrskarandi einleikara og hljómsveitarstjóra og að okkur verði boðið að taka þátt í virtum tónlistarhátíðum erlendis. Mælikvarðarnir geta því verið af ýmsu tagi, enda ekki einboðið hvernig listræn gæði eru metin,“ segir Lára Sóley sem lætur sig dreyma um að nýja stefnumótunin verði kynnt í tengslum við 70 ára afmæli SÍ í mars 2020.

Talandi um hljómsveitarstjóra þá langar mig að spyrja um samstarfið við finnska hljómsveitarstjórann Eva Ollikainen sem ráðin hefur verið í stöðu aðalhljómsveitarstjóra og listræns stjórnanda SÍ frá næsta hausti þótt hún stjórni tvennum tónleikum í vetur, þeirra á meðal afmælistónleikunum 5. mars 2020. Hafðir þú aðkomu að þeirri ráðningu?

„Já. Reyndar var ráðningarferlið hafið áður en ég tók til starfa, en mitt fyrsta verk í starfi var að klára ferlið og gera samning við Evu Ollikainen. Þar sem hún er líka ráðin sem listrænn stjórnandi er hún þegar byrjuð að taka þátt í verkefnavalsfundum með okkur, enda eru starfsárin skipulögð með löngum fyrirvara og einleikarar og stjórnendur bókaðir með góðum fyrirvara,“ segir Lára Sóley og áréttar að starf sitt felist í að tryggja rammann utan um listræna starfsemi hljómsveitarinnar.

„Í því samhengi er samvinna mín við Evu Ollikainen og Árna Heimi Ingólfsson, listrænan ráðgjafa hljómsveitarinnar, mjög mikilvæg. Ég hlakka mjög mikið til að vinna með Evu. Það er ótrúlega skemmtilegt að eiga í samtali við hana. Við eigum margt sameiginlegt í sýn okkar á það hvernig efla megi tónlistarstarfið á Íslandi enn frekar, meðal annars með tilliti til tónsmíða og hljómsveitarstjórnunar,“ segir Lára Sóley og bendir á að Ollikainen langi að efla áhuga íslenskra tónlistarnema á því að afla sér menntunar í hljómsveitarstjórn, meðal annars með námskeiðahaldi hérlendis.

Verkin að ósekju gleymst

Hver er sýn þín þegar kemur að stöðu kynjanna í hópi tónskálda í klassíska tónlistarheiminum?

„Mér finnst skipta máli að tónverk eftir kvenkyns tónskáld heyrist,“ segir Lára Sóley og tekur fram að þar deili hún sýn forvera síns. „Hlutur kvenna í hópi tónskálda eykst ekki af sjálfu sér, heldur þarf stöðugt að huga að þessum málum,“ segir Lára Sóley og áréttar að umræðan um aukinn hlut kvenna í klassíska tónlistarheiminum verði sífellt meira áberandi í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. „Eftir því sem meðvitundin um þessi mál eykst hefur fólk í auknum mæli farið að skoða eldri tónverk eftir konur og áttað sig á að þetta eru oft á tíðum frábær verk sem að ósekju hafa fallið í gleymskunnar dá,“ segir Lára Sóley og nefnir sem dæmi verk eftir Mariu Antoniu Walpurgis og Önnu Amaliu af Braunschweig-Wolfenbüttel sem flutt voru á barokktónleikum SÍ í október sl. „Verkin voru flutt af því að þetta er góð tónlist – ekki vegna þess hver samdi þau,“ segir Lára Sóley og tekur fram að sterkar fyrirmyndir eins og Anna Þorvaldsdóttir og Hildur Guðnadóttir muni hafa góð áhrif til framtíðar.

Vill efla samstarfið

Nú ert þú ráðin til fjögurra ára með möguleika á endurráðningu. Hefurðu sett þér einhver persónuleg markmið fyrir þann tíma?

„Það er mér mikið hjartans mál að við finnum leiðir til þess að sem flestir geti notið góðs af starfsemi hljómsveitarinnar á Íslandi. Ég hef að undanförnu verið að kortleggja tónleikaferðir SÍ innanlands síðustu 20 árin. Ég hefði mikinn áhuga á því að eiga í samtali við aðrar menningarstofnanir sem eru þjóðarstofnanir um það að við settum okkur sameiginlega stefnu þegar kemur að heimsóknum út á land þannig að það verði betri samfella í þessum heimsóknum,“ segir Lára Sóley og nefnir í því samhengi Íslenska dansflokkinn, Þjóðleikhúsið og Íslensku óperuna.

„Mig langar að finna leiðir til að efla samstarfið við tónlistarskólana í landinu og Listaháskóla Íslands, því í mínum huga er mjög mikilvægt að búa til tengslin við hljóðfæranema snemma. Ég trúi því að slíkt samtal og samstarf muni efla starfið á báða vegu,“ segir Lára Sóley og nefnir því næst alþjóðlega stöðu SÍ.

„Tónleikaferðir eru mikilvægar fyrir hljómsveitina sem fær tækifæri til að leika í ólíkum sölum og leika sama prógrammið nokkrum sinnum á stuttum tíma. Þetta er lærdómsríkt ferli fyrir hljómsveit. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir SÍ, sem er eina hljómsveitin á landinu með fastráðna hljóðfæraleikara, að fá tækifæri til samanburðar, fá gagnrýni að utan og ekki síst bera hróður íslenskrar menningar á erlendri grundu,“ segir Lára Sóley og tekur fram að það hafi verið ánægjulegt í nýlegri tónleikaferð til Austurríkis og Þýskalands að vera með íslensk verk í farteskinu sem og íslenskan hljómsveitarstjóra og einleikara.

„Miðað við viðbrögðin sem við höfum fengið má draga þá ályktun að eftirspurnin eftir íslenskri tónlist og menningu sé að aukast.“

Viðtalið við Láru Sóleyju birtist fyrst í Morgunblaðinu fimmtudaginn 12. desember. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þótt þú sért skipulagður sjálfur geturðu ekki ætlast til að aðrir séu eins. Vandamálin geta vel verið fyrir hendi, þótt enginn sjá þau nema þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þótt þú sért skipulagður sjálfur geturðu ekki ætlast til að aðrir séu eins. Vandamálin geta vel verið fyrir hendi, þótt enginn sjá þau nema þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes