Gerði allt til að grennast

Shawn Johnson gerði allt til að grennast.
Shawn Johnson gerði allt til að grennast. Skjáskot/Instagram

Ólympíufarinn og fimleikakonan Shawn Johnson átti erfitt með að aðlagast venjulegu lífi eftir að hún hreppti gullverðlaunin á Ólympíuleikunum árið 2008. Þá var Johnson 16 ára gömul, 49 kíló og borðaði aðeins 700 hitaeiningar á dag. 

Í dag er Johnson 28 ára gömul og á átta mánaða dóttur. Í nýju myndbandi, sem ber yfirskriftina „Frá 49 kílóum yfir í meðgöngu“, segir Johnson frá bataferli sínu en hún glímdi við átröskun eftir Ólympíuleikana.

Johnson segir að frá því hún var þriggja ára þangað til hún var 16 ára hefði allt snúist um að komast á Ólympíuleikana. Hún hagaði öllu í lífi sínu með leikana í huga. Fyrir Ólympíuleikana borðaði hún aðeins 700 hitaeiningar á dag og átti það til að líða út af á æfingum.

Stuttu eftir Ólympíuleikana tók hún þátt í Dancing With The Stars-þáttunum. Hún þyngdist töluvert á því tímabili, enda ekki lengur að æfa fyrir leikana og að borða 700 hitaeiningar á dag. Hún byrjaði líka í fyrsta skipti á blæðingum þá. 

Á þeim tíma fannst henni þyngdaraukningin það versta sem hefði getað komið fyrir sig og í kjölfarið leitaði hún allra leiða til að grennast. Hún fór meðal annars að notast við brennslutöflur og ADHD-lyfið Adderall.

Johnson 16 ára gömul á sumarólympíuleikunum árið 2008.
Johnson 16 ára gömul á sumarólympíuleikunum árið 2008. Ljósmynd/Wikipedia

„Núna þegar Ólympíuleikarnir voru búnir kunni ég ekki að hegða mér eins og venjuleg manneskja, ég vissi ekki hvernig ég ætti að borða, ég vissi ekki hvenær ég ætti að stilla vekjaraklukkuna, eða ætti ég að stilla vekjaraklukku? Ég kunni ekki að fara í ræktina og taka æfingu,“ sagði Johnson. 

Hún ákvað að snúa sér aftur til íþróttarinnar sem hafði gefið henni lífið. Hún hélt áfram að æfa, borða lítið og taka töflur til að grennast. Árið 2012 lenti hún í kulnun og upplifði mikið þunglyndi. Hún fékk uppáskrifaða háa skammta af Adderall.

„Ekkert í lífi mínu var heilbrigt,“ segir Johnson. 

Johnson, í miðjunni, með gullmedalíuna.
Johnson, í miðjunni, með gullmedalíuna. ALESSANDRO BIANCHI

Hún ákvað að hætta í fimleikunum árið 2012, fyrir Ólympíuleikana sama ár, fékk sér sálfræðing og næringarfræðing og reyndi að snúa blaðinu við. Hún fór smám saman að borða meira og hætta að taka Adderall. 

Hún kynntist eiginmanni sínum Andrew East og giftu þau sig árið 2016. Hún missti fóstur árið 2015 og hræddist þá að ástæðan væri óheilbrigður lífsstíll hennar árin á undan. Johnson varð svo ólétt árið 2019 og eignaðist dótturina Drew í lok árs. 

Johnson og eiginmaður hennar, Andrew East.
Johnson og eiginmaður hennar, Andrew East. Skjáskot/Instagram
mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Taktu hlutunum eins og þeir eru sagðir og reyndu ekki að kryfja þá til mergjar. Gakktu samt varlega fram því sígandi lukka er best og tryggir heill og hamingu.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Taktu hlutunum eins og þeir eru sagðir og reyndu ekki að kryfja þá til mergjar. Gakktu samt varlega fram því sígandi lukka er best og tryggir heill og hamingu.