„Óskastykki okkar beggja“

Vala Kristín Eiríksdóttir og Hilmir Snær Guðnason í hlutverkum sínum …
Vala Kristín Eiríksdóttir og Hilmir Snær Guðnason í hlutverkum sínum í leikritinu Oleanna eftir David Mamet. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

„Allt á þetta upphaf sitt í því að ég var að væla í Ólafi Darra um að mig langaði til að takast á við stórt og krefjandi hlutverk í leikriti sem væri ekki ástarsaga. Hann greip þetta á lofti og sagði mér að það væri eitt slíkt verk sem hann hefði alltaf langað til að leikstýra eða leika í. Hann stakk því upp á að við læsum Oleanna. Þetta var fyrir löngu en þegar við vorum farin að velta fyrir okkur hvort og hvenær við gætum mögulega sett verkið upp sagði ég Hafliða Arngrímssyni, dramatúrg í Borgarleikhúsinu, frá hugmyndinni og þá rúllaði þetta af stað,“ segir Vala Kristín Eiríksdóttir sem leikur annað aðalhlutverkið í Oleönnu eftir bandaríska leikskáldið David Mamet, sem frumsýnt er í Borgarleikhúsinu annað kvöld kvöld. 

„Þessi uppsetning er í raun hugarfóstur Ólafs Darra og hann lék hitt aðalhlutverkið á móti mér í æfingaferlinu þar sem Hilmir Snær leikstýrði okkur. Þegar covid skall á fór allt í biðstöðu en þegar leikhúsið var opnað aftur var Óli kominn með aðrar skuldbindingar. Hilmir Snær steig þá inn í hlutverk hans. Það hefði ekki verið hægt að fá neinn annan, því það tekur tíma að koma sér inn í verkið,“ segir Vala og bætir við að hún hafi upplifað ákveðna sorg við að sjá á eftir Ólafi Darra. 

„Við vorum í raun búin að vera eins og litlir spenntir krakkar yfir þessu leikriti, þetta er óskastykkið okkar beggja. Ég tek samt fram að mér er engin vorkunn, Hilmir Snær er frábær mótleikari.“

Sekt og sakleysi, og valdið

Í tvíleiknum Oleanna leikur Vala tvítuga stúlku sem er háskólanemi og mætir á skrifstofu hjá kennara sínum til að leita hjálpar vegna námsins. Kennarinn er tuttugu árum eldri en hún, virtur og nýtur velgengni og á von á stöðuhækkun. Samskiptin á skrifstofunni þróast smám saman í ógnvænlega átt og valdajafnvægið snýst við.

„Þetta verk segir frá samskiptum og átökum milli kennara og nemanda, milli karls og konu sem eru ekki af sömu kynslóð, koma ekki úr sömu stétt og hafa ekki sömu valdastöðu. Forsendur þeirra í lífinu eru mjög ólíkar. Þetta er snilldarverk sem talar inn í stóra samhengið, höfundurinn stillir upp tveimur manneskjum sam eiga ólíkra hagsmuna að gæta og hafa mjög ólíkan bakgrunn en eru að reyna að tala saman og skilja hvort annað. Hvort um sig reynir að fá skilning hins. Verkið fjallar um hvernig við hlustum á orð annarra út frá okkar eigin forsendum, hvað við leyfum okkar að segja út frá því hver við erum og hver staða okkar er. Þetta verk fjallar líka um sekt og sakleysi og skilningsleysi, í raun um tvo upplifunarheima af sömu aðstæðum. Höfundurinn sagði sjálfur um þetta verk í einhverju viðtali að ef leikhúsgestur gengi út af verkinu og héldi með annarri hvorri manneskjunni í verkinu, þá hefði viðkomandi rangt fyrir sér. Við höfum reynt að hafa það sem okkar leiðarljós í uppsetningunni. Við viljum heiðra þetta viðhorf höfundar, af því tvær hliðar eru á sama peningnum og allir hafa sitthvað til síns máls. Ég veit vel að ýmis mál eru úti í samfélaginu þar sem sekt fer ekki á milli mála, en í þessu tiltekna verki reynir höfundur að feta þessa flóknu línu þar sem erfitt er að segja hvað er rétt og hvað er rangt. Persónurnar í verkinu eru breyskar manneskjur sem eru að reyna að vernda sig. Verkið fjallar líka um vald og valdleysi, og hvernig það getur snúist við.“

Gunnar settist í stól Hilmis

Aðeins tveimur vikum fyrir frumsýningu tók Hilmir Snær við hlutverki Ólafs Darra og fór þá úr stóli leikstjóra. Gunnar Gunnsteinsson tók við leikstjórninni, en hver er nálgun leikstjóranna, sem eru þá í raun tveir?

„Við þurftum að æfa þetta allt upp á nýtt, en við reyndum að hafa að leiðarljósi það sem við vorum búin að finna að virkaði í leikstjórninni. Á einhverjum tímapunkti vorum við hætt að reyna að endurtaka eitthvað sem var og fórum inn í eitthvað sem er. Gunnar steig inn í þetta á okkar forsendum, hann er ekki að reyna að setja verkið upp með nýjum hætti, hann reynir að elta það sem við lögðum upp með og hann minnir okkur á það sem við ætluðum okkur að gera.“

Brá þegar las verkið fyrst

Leikritið Oleanna var sett upp á Íslandi fyrir 25 árum en þá fóru Elva Ósk Ólafsdóttir og Jóhann Sigurðarson með hlutverkin. Þegar Vala er spurð hvernig verkið hafi elst og hvort það hafi staðist tímans tönn og eigi erindi í dag segir hún það heldur betur vera svo.

„Mér brá í raun rosalega þegar ég las þetta verk fyrst, því það talar beint inn í samtímann, það er eins og höfundurinn hafi vitað hvað myndi gerast eftir tuttugu og fimm ár. Þetta verk talar beint inn í umræður og byltingar síðustu ára. Ég held að verkið hristi meira upp í okkur núna en þegar það kom fyrst fram fyrir tveimur og hálfum áratug, og þá er ég ekki aðeins að tala um hina stóru Metoo-byltingu á heimsvísu, heldur líka allar þær réttindabaráttubylgjur sem hafa átt sér stað nýlega.“

Hið hárfína í samskiptum

Þegar Vala er spurð hvort verkið hafi breytt viðhorfum hennar eða vakið hana til umhugsunar játar hún því.

„Heldur betur, það hefur varpað ljósi á hið smáa og hárfína í mannlegum samskiptum, sem við getum ekki sett fingur á en lætur okkur samt líða á einhvern ákveðinn hátt. Þá er ég að tala út frá því að vera ung kona, rétt eins og sú sem ég leik í þessu leikriti. Stundum er eitthvað örfínt í viðmóti einhvers sem við mætum og við getum ekki beðið viðkomandi að hætta því, af því það er ekki hægt að benda á það, það er eitthvað sem við skynjum. Viðkomandi getur verið alveg blindur á að hann sé að tala niður til manns og upplifir sig fullkomlega saklausan. Við getum fyrir vikið ekki sagt að viðkomandi manneskja sé sek, því þetta snýr að upplifunarheimi annarrar manneskju sem verður fyrir því.“

Viðtalið við Völu Kristínu birtist fyrst í Morgunblaðinu miðvikudaginn 16. september. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes