Zúúber tekinn af dagskrá eftir niðrandi ummæli

Zúúber hefur verið tekinn af dagskrá Bylgjunnar.
Zúúber hefur verið tekinn af dagskrá Bylgjunnar. Samsett mynd

Útvarpsþátturinn Zúúber hefur verið tekinn af dagskrá Bylgjunnar eftir að þáttastjórnendur létu niðrandi ummæli í garð tónlistarmannsins Valdimars Guðmundssonar falla í beinni útsendingu. Þáttunum stýrðu Sigvaldi Kaldalóns, Sigríður Lund V. Hermannsdóttir og Garðar Ólafsson, eða Svali, Gassi og Sigga. Þau greindu frá þessari ákvörðun í tilkynningu á Facebook í dag. 

„Takk fyrir samfylgdina í vetur, við tókum þá ákvörðun eftir samræður okkar á milli og við fyrirtækið að láta staðar numið sem hópur núna. Sigga heldur sínu striki á Bylgjunni. Takk fyrir að hlusta. Þangað til næst, Svali, Gassi og Sigga.“

Þættirnir voru áður á dagskrá á útvarpsstöðinni FM957 og nutu þá mikilla vinsælda. 

Síðasti þáttur fór í loftið á föstudaginn síðasta en voru þau harðlega gagnrýnd fyrir ummæli um holdafar Valdimars í tengslum við að Valdimar og kærasta hans Arna Björk Sigurjónsdóttir ættu von á sínu fyrsta barni saman. 

Þar viðurkenndi Sigga að fyrsta hugsun hennar þegar hún sá gleðifréttirnar hafi verið hvernig Valdimar hafi náð sér í kærustu, „af því hann er með aukakíló“. Svali og Gassi sögðust vera sammála.

Systir Valdimars, Sylvía Valdimarsdóttir, vakti meðal annars athygli á ummælum stjórnendanna í athugasemdakerfinu á Facebook-síðu Bylgjunnar. „Útvarpskonan Sigga Lund lét nokkur „vel valin“ orð falla í útvarpsþættinum Zúúber á Bylgjunni í dag. Þar talar hún um hverjar hennar fyrstu hugsanir voru þegar hún sá frétt um að bróðir minn og kærastan hans ættu von á sínu fyrsta barni. Einnig gefur hún sér það að margir hafi hugsað það sama og frábiður sér að vera kaffærð fyrir orð sín. (Sem mér þætti þó réttast).

Til að bæta gráu ofan á svart hringir hún í Valdimar í auglýsingahléinu og biður hann að koma í símaviðtal og tjá sig um málið, sem hann afþakkaði. Þessi kona beitti bróður minn ofbeldi í beinni útsendingu. Vanvirðingin sem hún sýnir honum og ástkæru barnsmóður hans er þvílík! Aldrei hefði mér dottið í hug að þessi gleðitíðindi sem þau færðu okkur yrðu til þess að slík ummæli yrðu látin falla. Hvað þá í beinni útsendingu í útvarpinu,“ skrifaði Sylvía á Facebook.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Fólk reynir að ná athygli þinni og vill hana alla. Ný nálgun leiðir til sigurs á hvaða sviði sem er. Þú ert gleðigjafi á öllum sviðum.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Fólk reynir að ná athygli þinni og vill hana alla. Ný nálgun leiðir til sigurs á hvaða sviði sem er. Þú ert gleðigjafi á öllum sviðum.