Eitthvað varð undan að láta

Marilyn Monroe við tökur á Somethings’s Got To Give fáeinum …
Marilyn Monroe við tökur á Somethings’s Got To Give fáeinum vikum áður en hún lést. AFP

Á ýmsu gekk við gerð seinustu kvikmyndanna sem Marilyn Monroe lék í, sérstaklega The Misfits og Something’s Got To Give, enda stjarnan djúpt sokkin í fen áfengis og róandi lyfja. Hún féll frá áður en hægt var að ljúka þeirri síðarnefndu.

„Það fór ekkert á milli mála að hún var glötuð. Maður sá það á svo til hverjum einasta degi. Hún var þess hvorki umkomin að bjarga sér sjálf né að fá aðstoð við það frá öðrum.“

Leikstjórinn John Huston orðaði þetta ekki svona fyrr en í blaðaviðtali tuttugu árum seinna en flestum sem unnu með Marilyn Monroe að síðustu kvikmyndinni sem hún lauk við, The Misfits, árið 1960 gerðu sér grein fyrir því að einn bjartasti loginn í Hollywood væri að brenna út. Það var regla fremur en undantakning að Monroe mætti seint og illa til vinnu – ef hún lét þá sjá sig yfir höfuð. Og þegar hún var á staðnum var hún gjarnan undir áhrifum áfengis, lyfja eða hvors tveggja. „Sú var tíðin að leikarar voru reknir fyrir að mæta of seint,“ var haft eftir mótleikara hennar í myndinni, gamla brýninu og sjálfum „konungi Hollywood“, Clark Gable. Það var víst engin huggun harmi gegn að nafnið á karakter hans í myndinni var Gay, eða Glaði.

Hermt er að Sir Laurence Olivier hafi elst um fimmtán ár við að leikstýra og leika á móti Monroe í The Prince and the Showgirl árið 1956. Hann reytti víst hár sitt og skegg yfir ófagmennskunni og kjánalátunum í stjörnunni sem lét bíða lon og don eftir sér og þegar hún var á svæðinu var hún stöðugt að fara yfir handritið með leiðbeinanda sínum og trúnaðarvinkonu, Paulu Strasberg úr Actors Studio, fyrir framan agndofa leikstjórann.

Sir Laurence Olivier leiðbeinir Monroe við gerð The Prince and …
Sir Laurence Olivier leiðbeinir Monroe við gerð The Prince and the Showgirl í Lundúnum sumarið 1956. Þá strax var stórstjarnan orðin erfið í samstarfi. AFP


Línurnar gleymdust auðveldlega við tökur á The Misfits, sem var svo sem ekki nýtt vandamál. Billy Wilder leysti það við gerð Some Like It Hot árið 1959 með því að skilja eftir textamiða hér og þar í leikmyndinni sem Monroe gat svo lesið. Það er svo sem ekkert einsdæmi, Marlon Brando viðurkenndi í endurminningum sínum að hann hefði kunnað þessu fyrirkomulagi vel. Það stafaði þó meira af leti en óreglu, auk þess sem Brando hélt því fram að setningar yrðu alltaf eðlilegri ef leikarinn væri að sjá þær í fyrsta sinn meðan myndavélin rúllaði en ef hann hefði lært þær utanbókar.

Lögð inn á spítala

Fleira kom til hjá Huston og félögum við gerð The Misfits, svo sem steikjandi hitinn í eyðimörkinni í Nevada, sem gjarnan sló í 40 gráður yfir hádaginn, auk þess sem Monroe stóð í skilnaði við Arthur Miller sem einmitt skrifaði handritið að myndinni. Í miðjum klíðum þurfti að stöðva tökur í tvær vikur meðan Monroe lagðist inn á spítala vegna andlegra kvilla. Félagsskapurinn gat líka verið betri en þriðji aðalleikarinn, Montgomery Clift, var einnig staðráðinn í að tortíma sjálfum sér enda þótt það tæki hann lengri tíma en Monroe. „Lengsta sjálfsvíg kvikmyndasögunnar,“ eru örlög hans gjarnan nefnd. Tökum lauk loks í byrjun nóvember 1960, tólf dögum eftir sviplegt fráfall Gables, sem var aðeins 59 ára.

Monroe tók sér drjúgt hlé frá kvikmyndaleik eftir þetta. Vann ekki í meira en ár eða þangað til George Cukor og 20th Century Fox réðu hana í aðalhlutverkið í gamanmyndinni Something’s Got to Give. Hleyptu þá ýmsir brúnum.

Fljótt kom í ljós að stjarnan var við sama heygarðshornið; mætti seint og illa eða alls ekki. Þá sjaldan hún var á staðnum virkaði hún utangátta og í litlum tengslum við það sem var á seyði í kringum hana. Monroe hafði glímt við andleg og líkamleg veikindi mánuðina á undan og fyrir vikið lagt talsvert af. Það þótti kvikmyndaverinu alls ekki verra.

„Hún þurfti ekki að standa sig, bara líta vel út – og hún gerði það,“ er haft eftir framleiðanda myndarinnar, Henry Weinstein. Hann áttaði sig þó fljótt á því að Monroe var verr á sig komin en hann hafði gert ráð fyrir og lagði Weinstein því til við kvikmyndaverið að hætt yrði við verkefnið. Menn skelltu skollaeyrum við þeim ráðum.

Samúðin var ekki mikil. „Jú, jú, konan er veik en við erum að tala um kvikmyndastjörnu sem fer sínu fram og er slétt sama um aðra en sjálfa sig. Hún skemmir fyrir sér og öðrum í leiðinni,“ sagði handritshöfundurinn Walter Bernstein.

Nakin í sundlauginni

Þetta var sviðsmyndin sem blasti við og það var ekki fyrr en um þremur áratugum síðar að myndaefni frá gerð Something’s Got To Give fannst og var að hluta gert opinbert, að tvær grímur runnu á menn. Þar virkar Monroe ljúf og auðmjúk og biðst innilega afsökunar þegar eitthvað fer úrskeiðis, eins og þegar hún ruglast í textanum.

Það komu líka góðir dagar, eins og þegar sundlaugaratriðið fræga var tekið upp. Karakter Monroe bregður sér þá nakin í sund í lauginni við villu fyrrverandi eiginmanns hennar í því augnamiði að draga hann á tálar. Eins og tíðkaðist á þeim árum var hún færð í húðlitan sundbol en Monroe fannst það ekki vera að gera sig, þannig að hún fór fljótlega úr honum. „Svæðið var lokað fyrir aðra en tökuliðið sem var mjög ljúft. Ég bað þá um að loka augunum og snúa sér við og held að allir hafi gert það. Það var lífvörður á staðnum til að aðstoða mig ef ég lenti í vandræðum en ég efast um að það hefði gengið – hann var líka með augun lokuð,“ sagði Monroe við fjölmiðla þegar tökum var lokið. Aftur bendir myndefnið hvorki til spennu né leiðinda milli fólks.

Monroe í essinu sínu í Some Like It Hot.
Monroe í essinu sínu í Some Like It Hot.


Á ný syrti þó í álinn. Eftir að hafa verið veik í heila viku og ekki látið sjá sig flaug Monroe til Washington 29. maí til að syngja frægasta afmælissöng mannkynssögunnar fyrir John F. Kennedy Bandaríkjaforseta. Það sauð á Cukor og í byrjun júní var henni sagt upp störfum á grundvelli „yfirgengilegrar fjarveru“ og „vísvitandi brots á samningi“.

Vildi bara Monroe

Monroe sendi Cukor símskeyti og bað hann afsökunar. Ekki væri við sig að sakast og að hún hefði lengi þráð að vinna með honum.

20th Century Fox vildi halda áfram með myndina og Cukor hafði eyrnamerkt hlutverkið hinni ungu Lee Remick. Þá reis aðalkarlleikarinn, Dean Martin, upp á afturfæturna og mótmælti. Hann hefði hreint ekkert á móti Lee Remick en hefði á hinn bóginn skrifað undir samning um að leika á móti Marilyn Monroe og við það sæti. Hvort það gerði útslagið liggur ekki fyrir en í öllu falli var Monroe endurráðin og tökur áttu að hefjast á ný í október 1962. Til þess kom þó ekki því Marilyn Monroe fannst látin á heimili sínu 4. ágúst. Hún hafði tekið of stóran skammt af róandi lyfjum.

Eitthvað varð undan að láta.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson