Hringskonur blása til sóknar

Anna Björk Eðvarðsdóttir, formaður Hringsins.
Anna Björk Eðvarðsdóttir, formaður Hringsins.

Kvenfélagið Hringurinn er eitt elsta góðgerðarfélag landsins, sem flestir landsmenn þekkja vel. Hringurinn var stofnaður árið 1904 af öflugum ungum konum í Reykjavík og hefur starfað óslitið til dagsins í dag. Öll vinna í félaginu er sjálfboðavinna. Flestir tengja Hringinn við Barnaspítala Hringsins, sem Hringskonur höfðu veg og vanda af að fjármagna, byggja og sjá spítalanum fyrir tækjakosti. Auk þess hefur Hringurinn verið öflugur bakhjarl Vökudeildar og BUGL til margra ára og er enn í dag. Hringskonur hafa gert það með ýmsum fjáröflunum, oft tengdum jólum eins og Jólabasar og Jólakaffi, sem er hvort um sig orðið fastur liður í jólaundirbúningi margra. Einnig hafa þær tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og eru með veitingasölu á Barnaspítalanum.  

„Eins og allir sem lifa á þessum fordæmalausu tímum hafa lært, þarf nú gjarnan að tileinka sér ýmsar nýjungar og  er þetta rótgróna félag enginn eftirbátur í þeim efnum. Hringurinn ætlar að blása til góðgerðarbingós, heima í stofu, að sjálfsögðu. Kynnar verða engir aðrir en skemmtisálufélagarnir Hjálmar Örn og Eva Ruza. Góðgerðarbingóið verður haldið miðvikudaginn 21. apríl kl. 18:00, og þar er til margs að vinna: Snjallúr, hótelgistingar, þyrluflug yfir gosstöðvarnar, helgargisting fyrir sex manns í sumarhúsi, bílaleigubílar, matarkörfur, flottar snyrtivörur, út að borða á glæsilegum veitingastöðum og margt fleira!“ segir Anna Björk Eðvarðsdóttir, formaður Hringsins. 

Um þessar mundir er Hringurinn að safna fyrir tveimur tækjum. Annars vegar svefnrita og hins vegar koltvíoxíðmæli til að rannsaka kæfisvefn barna, en tækin kosta 8.600.000 kr.⁠

⁠„Kæfisvefn er talsvert algengur hjá börnum og þau sem greinast með kæfisvefn og/eða króníska öndunarbilun þurfa fjölbreyttan öndunarstuðning. Flest börn eru rannsökuð með tæki sem þau sofa með heima en við alvarlegri vanda þar sem hætta er á uppsöfnun koltvísýrings þarf að rannsaka börnin með flóknari tækjum á Barnaspítala Hringsins. Það er okkar allra mál að Barnaspítalinn sé búinn bestu tækjum sem völ er á hverju sinni,“ segir Anna Björk. 

Þú getur tekið þátt HÉR.  

⁠Allir vinningar eru gefnir og öll vinna er gefin og sjálfboðavinna. Allur ágóði bingósins rennur óskiptur í Barnaspítalasjóð Hringsins.

Eva Ruza og Hjálmar Örn Jóhannsson stýra bingói Hringsins.
Eva Ruza og Hjálmar Örn Jóhannsson stýra bingói Hringsins.
mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Viðgerðir sem þú ákveður á heimilinu munu endast lengi og reynast vel þess virði, þegar upp er staðið. Eitthvað ergelsli er í ungviðinu.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Viðgerðir sem þú ákveður á heimilinu munu endast lengi og reynast vel þess virði, þegar upp er staðið. Eitthvað ergelsli er í ungviðinu.