Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Carrie Symonds, kærasta hans til þriggja ára, gengu í það heilaga í Westminster-dómkirkjunni í Lundúnum á laugardag.
Breskir miðlar lýsa athöfninni sem leynibrúðkaupi og að aðeins nánustu vinir og ættingjar brúðhjónanna hafi verið viðstaddir. Áður höfðu erlendir miðlar sagt að brúðkaup þeirra færi fram á næsta ári.
Forsætisráðuneytið hefur ekki viljað staðfesta ráðahaginn, en Vicky Ford, ráðherra í ríkisstjórn Johnsons, er meðal þeirra sem hafa óska hjónunum til hamingju á Twitter.
Johnson er þrígiftur og á hið minnsta sex börn. Samband þeirra Symonds hófst árið 2018 er Johnson var enn kvæntur annarri eiginkonu sinni, en Symonds vann þá sem yfirmaður almannatengsladeildar Íhaldsflokksins.
Þegar Boris Johnson var kjörinn forsætisráðherra árið 2019 varð hann fyrsti forsætisráðherra landsins til að flytja inn í forsætisráðherrabústaðinn í Downingstræti með kærustu sinni. Allir aðrir forsætisráðherrar hafa ýmist verið giftir eða einhleypir.