Verk til heiðurs regnbogafólkinu

Bubbi Morthens hefur gefið út sérstaka útgáfu af textaverkum úr …
Bubbi Morthens hefur gefið út sérstaka útgáfu af textaverkum úr „Regnbogans stræti“ og „Strákarnir á Borginni“. Kristinn Magnússon

„Lögin „Regnbogans stræti“ og „Strákarnir á Borginni“ eru auðvitað systkini,“ segir Bubbi Morthens sem hefur nú gefið út sérstaka útgáfu af textaverkum sem hafa að geyma búta úr lögunum tveimur. Tilefnið er ekki gleðilegt því undanfarið hafa borist fréttir utan úr heimi um aukið hatur í garð samkynhneigðra, hatursglæpi og lög í Ungverjalandi sem banna allt það sem „ýtir undir samkynhneigð“, eins og segir í þeim. Bubbi segir skelfilegt að heyra fréttir af endalausum ofsóknum í Evrópu á hendur samkynhneigðum og nefnir sem dæmi nýlega lagasetningu í Ungverjalandi sem bannar fræðslu um hinsegin fólk í skólum þar í landi en stjórn Samtakanna ‘78 hefur lýst yfir djúpstæðum áhyggjum af þróun mála í Ungverjalandi og þá sérstaklega af nýsamþykktum lögum sem stjórnin segir grófa aðför að tilverurétti hinsegin fólks í landinu og banni í reynd sýnileika þeirra og réttindabaráttu.

Fasismi í fæðingu

Bubbi segir að með þessu sé bannað að ræða um mannlega náttúru í skólum. „Það sem maður er að upplifa er að það er einhvers konar fasismi að verða til,“ segir Bubbi.

Textann við „Regnbogans stræti“ samdi hann fyrir fáeinum árum, á Hótel Færeyjum. „Ég var með tónleika í Færeyjum og hafði verið á Seyðisfirði aðeins fyrr og sá þá götuna þar, Regnbogans stræti. Ég hugsaði með mér að nú væri komið að því, nú myndi ég gera þetta lag sem væri búið að vera svona lengi inni í mér,“ segir Bubbi. Hann skrifaði textann við lagið, „Regnbogans stræti“, á bréfsefni hótelsins og samdi við það lag. Bubbi segir að þar sem textinn hafi verið handskrifaður hafi hann getað gert úr honum textaverk í anda þeirra sem hann gaf út í árslok í fyrra. Og nú eru þau fáanleg á bubbi.is, í öllum regnbogans litum.

Gjöf til samfélagsins

Nú styttist í Hinsegin daga en þeir verða haldnir 3.-8. ágúst og Gleðigangan fer fram með pompi og prakt laugardaginn 7. ágúst. Bubbi segist hafa ákveðið að gefa verkin út núna, skömmu áður en hátíðin hefst, og gefa þessu samfélagi öllu verk regnboganum til heiðurs. „Og líka til að stíga fram með þessi verk sem einhvers konar innlegg inn í þessa geðveiku hluti sem eru að gerast við bæjardyrnar,“ bætir hann við.

Bubbi segir bráðnauðsynlegt að fjalla um þessa hluti, líkt og hann gerði í „Strákunum á Borginni“ fyrir margt löngu. „Ég veit að fólk trúir því ekki í dag en það var hrópað á mig úti á götu og hrækt á mig,“ rifjar Bubbi upp. Spurður að því hver hafi verið kveikjan að því lagi á sínum tíma, árið 1984, segir Bubbi að hann hafi horft upp á gegndarlaust ofbeldi í garð samkynhneigðra á skemmtistöðum og í samfélaginu. Umræðan hafi líka verið afar fordómafull. „Svo fyllti það mælinn þegar komu auglýsingar í blöðum um að sumir væru velkomnir en ekki allir og það voru auglýsingar við dyrnar á sumum skemmtistöðum um að hommar og lesbíur væru ekki velkomin. Þetta er ekkert langt síðan, þetta er bara 1981,“ segir Bubbi.

Hann segir lagið einfaldlega hafa verið viðbragð við ákveðnu samfélagsmeini. „Þannig að í rauninni er ég að viðhalda þessu innleggi með verkunum,“ segir Bubbi um textaverkin nýju og minnir á hversu stutt sé í fordómana. Þeir grasseri enn í dag í íslensku samfélagi.

Bubbi segir verkin eiga sér sögu og skipta máli í umræðunni og þá sérstaklega fyrir regnbogafólkið. Þá sé regnboginn hin fullkomna táknmynd fyrir samkynhneigða og allt LGBTQ-samfélagið. „Regnboginn er auðvitað brjálæðislegt náttúruundur og fegurð,“ segir Bubbi.

Allt snýst um að verða vinsæll

Bubbi er spurður hvort honum þyki íslenskir tónlistarmenn í dag gera nóg af því að semja um samtíma sinn og tjá sig um hin ýmsu samfélagsmein. Nei, þeir gera ekki nóg af því, að hans mati. „Í dag snýst þetta allt um að verða vinsæll, að verða áhrifavaldur, að vera á G-streng, að semja um eitthvað sem pottþétt mun selja í staðinn fyrir þörfina að skapa, að hafa eitthvað til málanna að leggja, að þora og hafa kjark til að stíga fram og semja um eitthvað sem er ekki vinsælt og segja hluti sem geta valdið úlfúð,“ segir Bubbi. Að hafa eitthvað til málanna að leggja skipti meira máli en smellir á samfélagsmiðlum eða fjöldi streyma á Spotify. „Það skiptir gríðarlega miklu máli að listamenn hafi kjark og þor til að stíga fram og segja hlutina. Ég er ekki að segja að það eigi að vera „twenty-four seven“ en það sem þú ert að benda á, réttilega, er að það er ótrúlega lítið af þessari rödd,“ segir Bubbi en mikil þörf sé fyrir þá rödd. „Ef þeir listamenn, sem hafa hvað mest til málanna að leggja hjá ungu kynslóðinni, eru ekki að spegla samfélagið eins og það birtist þeim þá erum við að tapa heilmiklu.“

Textaverk Bubba.
Textaverk Bubba.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er ekki hyggilegt að hleypa málum af stað án þess að reyna að sjá framvinduna fyrir. Ekki eyða tímanum í samviskubit yfir því að hafa ekki lagt nóg af mörkum.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er ekki hyggilegt að hleypa málum af stað án þess að reyna að sjá framvinduna fyrir. Ekki eyða tímanum í samviskubit yfir því að hafa ekki lagt nóg af mörkum.