Dó eins og hún lifði, óttalaus

Helen McCrory var aðeins 52 ára þegar hún lést.
Helen McCrory var aðeins 52 ára þegar hún lést. AFP

Breska leikkonan Helen McCrory hefur verið fastagestur í stofum landsmanna undanfarin sunnudagskvöld í dramaþættinum Fjölskyldubönd. Þessi afkastamikla leikkona lést í vor.

„Hún dó eins og hún lifði, óttalaus. Guð veit hvað við unnum henni heitt og við gerum okkur grein fyrir því hvað við vorum lánsöm að hafa hana í okkar lífi. Hún skein svo skært. Hverfðu nú, litla mín, inn í tómið og kærar þakkir fyrir allt.“

Þannig komst breski leikarinn Damian Lewis að orði þegar hann tilkynnti um andlát eiginkonu sinnar, bresku leikkonunnar Helen McCrory, í apríl síðastliðnum. Hann sagði fráfall hennar afar þungbært en McCrory lést á heimili þeirra umvafin sínum nánustu. Banamein hennar var krabbamein sem leikkonan háði hetjulega baráttu við. Andlátið kom flatt upp á flesta í kvikmyndaheiminum enda hafði ekki komið fram opinberlega að McCrory ætti við veikindi að stríða. Hún var ekki nema 52 ára.

McCrory var afkastamikil leikona, bæði á sviði, í sjónvarpi og á hvíta tjaldinu og lék nánast fram í andlátið. Þættirnir Fjölskyldubönd (MotherFatherSon), sem Ríkissjónvarpið sýnir á sunnudagskvöldum voru gerðir árið 2019 og kom McCrory við sögu í nokkrum þáttum í sjónvarpi eftir það. Í Fjölskylduböndum leikur hún á móti Richard Gere, sem þar birtist í sínu fyrsta stóra hlutverki í sjónvarpi.

Helen McCrory ásamt eiginmanni sínum, breska leikaranum Damian Lewis, eftir …
Helen McCrory ásamt eiginmanni sínum, breska leikaranum Damian Lewis, eftir að hún hlaut svokallaða OBE-orðu fyrir störf sín að leiklist árið 2017. AFP


Vann til margra verðlauna

Helen Elizabeth McCrory fæddist í Paddington á Englandi árið 1968, dóttir velskrar móður og skosks föður. Hún dróst ung að leiklist og lagði stund á nám við Drama Centre í Lundúnum. McCrory hlaut eldskírn sína á sviði í hinu nafntogaða verki Oscars Wilde, The Importance of Being Earnest, árið 1990 þar sem hún lék hina geðþekku Gwendolen Fairfax. Hver uppfærslan rak aðra næstu árin og McCrory vann til margra verðlauna fyrir leik sinn.

Árið 1993 spreytti hún sig fyrst í sjónvarpi og átti eftir að koma víða við næstu 27 árin. Frægust er hún líklega fyrir að hafa túlkað Polly Gray í hinum feykivinsælu þáttum Peaky Blinders frá 2013 til 2019. Cillian Murphy, meðleikari hennar í þáttunum, minntist hennar með mikilli hlýju eftir að tilkynnt var um fráfallið. Hún hefði verið falleg, fyndin og umhyggjusöm manneskja en einnig ofboðslega hæfileikarík leikkona sem lyfti hefði hverri persónu, hverri senu sem hún lék í hærra plan.

Af öðrum vinsælum þáttum sem hún lék í má nefna The Jury og Penny Dreadful. Hinsta hlutverk McCrory í sjónvarpi var í tryllinum Roadkill á liðnu ári.

McCrory kom einnig við sögu í fjölmörgum kvikmyndum; birtist okkur fyrst á hvíta tjaldinu sem vændiskona í Interview With a Vampire árið 1994, strangt tiltekið vændiskona númer tvö. Hún lék í Greifanum af Monte Cristo árið 2002 og þremur árum síðar lék hún móður Casa gamla nova í mynd um þann ágæta kappa.

Ekkert form leiklistar var henni óviðkomandi og árið 2003 lék McCrory í stuttmynd sem glímdi við áleitna spurningu: Does God Play Football eða Spyrnir almættið? Til allrar óhamingju þekkir sá er hér heldur á penna ekki til verksins en myndi glaður vilja vita svarið!

Nánar er fjallað um Helen McCrory í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Mjög heppilegur dagur til að eiga við yfirboðara því þeir eru opnir fyrir hugmyndum þínum og tillögum í dag. Þú ættir að hvíla þig meira.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Mjög heppilegur dagur til að eiga við yfirboðara því þeir eru opnir fyrir hugmyndum þínum og tillögum í dag. Þú ættir að hvíla þig meira.