Þið megið drepa helvítið!

Tom Araya á Secret Solstice í Laugardalnum sumarið 2018. Hann …
Tom Araya á Secret Solstice í Laugardalnum sumarið 2018. Hann er nú sestur í helgan stein. mbl.is/Árni Sæberg

11. september 2001, daginn sem hryðjuverkamenn réðust á Bandaríkin, sendi málmbandið Slayer frá sér plötuna God Hates Us All, þar sem m.a. var ort um trú, morð, hefnd og sjálfsaga.

God Hates Us All, níunda breiðskífa kaliforníska þrassbandsins Slayer, átti upphaflega að koma út 10. júlí 2001 en seinkaði vegna vangaveltna um hljóðblöndun og útlit umslagsins, auk þess sem útgáfufyrirtækið, American Recordings, var að skipta um dreifingaraðila. Nýr útgáfudagur var því ákveðinn, 11. september sama ár. Ekki þarf að minna nokkurn mann sem kominn er til vits og ára á hvað gerðist þann dag; hryðjuverkamenn gerðu árás á World Trade Center og Pentagon í Bandaríkjunum og heimurinn hélt niðri í sér andanum. Hvaðan kom slík heift, hvaðan kom slík grimmd?

Ekki svo að skilja að margir hafi verið að gefa útgáfu God Hates Us All gaum þennan tiltekna dag en þegar frá leið hafa ábyggilega fleiri en einn og fleiri en tveir hugsað: Eru þessir menn skyggnir? Ég meina, platan inniheldur lög á borð við Disciple, God Send Death, War Zone, Here Comes the Pain og Payback. Allt með miklum ólíkindum.

Gleðilegir hlutir eru leiðinlegir

Í texta Disciple segir m.a.:

Pessimist, terrorist targeting the next mark
Global chaos feeding on hysteria
Cut throat, slit your wrist, shoot you in the back fair game.

Auðvitað blasti hryðjuverkaógn við víða á þessum tíma, eins og í dag, en fyrr má nú aldeilis fyrrvera.

Platan átti upphaflega að heita Soundtrack to the Apocalypse – sem hefði svo sem alveg eins átt við daginn sem hún kom út – en Tom Araya, söngvara og bassaleikara, fannst sá titill passa betur við safnöskju með fjölbreyttu efni sem bandið sendi síðan frá sér tveimur árum síðar. Setningin God Hates Us All er endurtekin í sífellu í téðu lagi Disciple og þá í samhenginu: Hvers vegna lætur almættið hluti eins og sjálfsvíg og hryðjuverk viðgangast án þess að koma í veg fyrir þá? Fram hefur komið að það hafi verið meðlimur Pantera, mikils vinabands Slayer, sem stakk upp á titlinum.

Kerry King í ham í Laugardalnum. Hann á obbann af …
Kerry King í ham í Laugardalnum. Hann á obbann af textunum á God Hates Us All. mbl.is/Árni Sæberg


Kerry King gítarleikari á obbann af textunum á God Hates Us All. Hann hefur aldrei viljað tjá sig mikið um þá en í bókinni The Bloody Reign of Slayer, sem málmfræðingurinn Joel McIver sendi frá sér árið 2008, segir King: „Mig langaði einfaldlega ekki að skrifa um gleðilega hluti. Gleðilegir hlutir eru leiðinlegir, þannig að ég freistaði þess að finna hluti sem fólk tengir við á hinu myrka rófi tilverunnar. Allir vilja hefnd, allir hata einhvern og öllum líður einhvern tímann eins og Guð hati þá. Þess vegna hygg ég að allir ættu að geta fengið eitthvað út úr þessum lögum – finna persónulegan flöt á þeim.“

Í samtali við tímaritið Guitar World skömmu eftir að platan kom út kvaðst King hafa viljað auka á raunsæið og dýptina í textum Slayer sem á köflum höfðu verið sem sogaðir út úr blóðugustu hryllingskvikmyndum. „God Hates Us All er ekki andkristinn áróður heldur meira hugmynd sem ég hygg að margir geti tengt við í sínu daglega lífi. Einn daginn er allt í lukkunnar velstandi en þann næsta verður maður fyrir bíl eða missir hundinn sinn. Þá hellist þetta yfir mann: Guð hatar mig virkilega í dag.“

King var að vonum kallaður Nostradamus okkar tíma en lét sér fátt um finnast. „Ég minnist þess ekki að nokkur maður hafi kallað mig spámann áður,“ segir hann í The Bloody Reign of Slayer. „Það er helst að Disciple og Payback hafi átt við þennan tiltekna dag [11.9.].“

Kynnist nágrönnum ykkar

Tom Araya hefur alltaf verið mælskari og pólitískari en King og eftir honum er haft í bókinni: „Það er eins og allir hafi verið að bíða eftir merki. Tvíturnarnir voru helvítis merki! Það eru mergjaðir textar þarna sem hitta mig í hjartastað.“

Textarnir á plötunni öðluðust nýja merkingu út af árásunum og Payback smaug beint inn í þjóðarsálina enda leið ófáum Bandaríkjamönnum þannig eftir áfallið. Slayer gerði sér fulla grein fyrir því og á tónleikum í San Francisco þremur mánuðum eftir árásirnar lét Araya herská orð falla: „Ég vil að þið gerið svolítið fyrir mig. Kynnist vinum ykkar og nágrönnum almennilega. Og ef þið sjáið einhvern óviðkomandi á svæðinu, þá megið þið drepa helvítið!“

Þetta var úr karakter en Araya þykir alla jafna yfirvegaður í samfélagsrýni sinni. Hér var hann hins vegar að enduróma andann í Bandaríkjunum á þessum tíma enda lá snemma fyrir að hryðjuverkamennirnir hefðu laumað sér inn í samfélagið og samlagast því. „Það sem ég átti við var það að við í málmsamfélaginu – eða samfélaginu almennt – þyrftum að fylgjast betur hvert með öðru,“ sagði hann við McIver. „Sjáðu bara allt ruglið sem er í gangi núna. Fólk er ekki ánægt; það vill sjá blóð renna. Maður verður að vita hvað er á seyði í kringum mann. Allt getur gerst. Bandaríkin voru klárlega blind gagnvart því og 9/11 opnaði augu okkar.“

Nánar er fjallað um God Hates Us All í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.  

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er gott að þekkja sín eigin takmörk og þá ekki síður að virða þau þegar á það reynir. Ef þú fæst ekki við það sem þú hefur áhuga á getur lífið svo sannarlega verið letjandi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Anna Sundbeck Klav
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er gott að þekkja sín eigin takmörk og þá ekki síður að virða þau þegar á það reynir. Ef þú fæst ekki við það sem þú hefur áhuga á getur lífið svo sannarlega verið letjandi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Anna Sundbeck Klav