„Jóhanna Guðrún kom inn í líf mitt og breytti öllu“

Katla Þórudóttir Njálsdóttir.
Katla Þórudóttir Njálsdóttir. Ljósmynd/RÚV

Unga söng- og leikkonan Katla Þórudóttir Njálsdóttir hefur reynt fyrir sér á ýmsum sviðum þrátt fyrir ungan aldur. Hún hefur leikið í ótal leiksýningum, verið kynnir í Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólabarna, og spilað og sungið víðs vegar frá barnsaldri til dagsins í dag.

Katla er hvergi nærri hætt en í kvöld mun hún reyna fyrir sér á sviði Söngvakeppni Sjónvarpsins sem fram fer í Söngvakeppnishöllinni í Gufunesi kl. 19.45. Lag hennar, Þaðan af, er eitt af fimm lögum sem koma til með að keppa í seinni undankeppni keppninnar og freista þess að komast alla leið.

Tón- og leiklist hefur alla tíð átt hug Kötlu og fann hún það fljótt hvert leiðir hennar lágu. Síðastliðið leikár hjá Borgarleikhúsinu hefur Katla tekið þátt í leiksýningunni Er ég mamma mín? ásamt fjölskrúðugum og reyndum mótleikurum. Þar hefur Katla farið á kostum í hlutverkum sínum en sýningin hefur sömuleiðis fengið jákvæða gagnrýni.

Dagskrá Kötlu hefur verið þéttsetin síðustu daga og vikur þar sem hún tekur nú þátt í Söngvakeppninni samhliða leikhúsinu. Höfundar lagsins, Þaðan af, eru þeir Jóhannes Damian Patreksson, Kristinn Óli S. Haraldsson, Hafsteinn Þráinsson og Snorri Beck. Textinn var einnig saminn af Kristni Óla, eða tónlistarmanninum Króla, eins og almenningur þekkir hann best.

„Það er svo gaman að taka þátt í Söngvakeppninni í svona góðra vina hópi. Ég er fyrst og fremst að taka þátt til að skemmta mér og öðrum, hafa gaman að þessu. Það væri auðvitað sturluð upplifun að komast til Ítalíu en að fá tækifæri til að taka þátt í þessu hérna heima er ótrúleg reynsla og rosalega skemmtilegt. Ég er snortin og þakklát fyrir þær viðtökur sem við höfum fengið og þær hafa nú þegar náð út fyrir landsteinana. Það er ekki hægt að biðja um meira,“ segir hin einlæga og hæfileikaríka Katla sem er spennt fyrir komandi tímum.

Hvað er Eurovision í þínum huga?

„Hátíð. Þetta er ekkert annað en það. Ég hef alltaf tekið Eurovision mjög alvarlega,“ segir Katla. „Ég hef alltaf horft á báðar keppnirnar hér heima og alvöru keppnina og kosið að minnsta kostið eitt eða tvö atriði,“ segir hún jafnframt. „Ég hef meira að segja farið á nokkrar keppnir hér heima sem áhorfandi í sal og er nýfarin að leggja það í vana minn að halda góð Eurovisionpartí. Ég elska þetta,“ segir Katla af mikilli einlægni.

Hver er þín fyrsta Eurovisionminning?

„Jóhanna Guðrún 2009. Ég var sjö ára þá og þessi kona kom inn í líf mitt á þeirri stundu og breytti öllu,“ segir hún og hlær. „Nei, kannski ekki alveg það dramatískt og djúpt en ég man samt enn þann dag í dag eftir þessu. Ég lít rosalega upp til hennar. Að mínu mati er hún langbesta söngkona sem Ísland hefur alið af sér,“ segir Katla og meinar orð sín. „Ég tengi líka við hana akkúrat núna því hún var jafngömul og ég er núna þegar hún keppti í Eurovision. Hún var 19 ára,“ segir ungstirnið Katla sem hefur sótt mikinn innblástur til Jóhönnu Guðrúnar í gegnum tíðina. „Það er hvetjandi fyrir mig að hugsa til þess. Ég er kannski engin Jóhanna Guðrún en þetta opnaði einhverjar hugrænar dyr fyrir mér.“

Hvert er þitt uppáhalds Eurovisionlag?

„Þýska Eurovisionlagið frá árinu 2018, You Let Me Walk Alone. Ég átti einhverja sérstaka tengingu við það lag um leið og ég heyrði það fyrst. Það kom á þannig tíma í lífi mínu að ég tengdi sterkt við textann og lagið sjálft,“ útskýrir Katla. „Ég þurfti að fara afsíðis í miðju partíi hjá vinkonum mínum þegar lagið var flutt í keppninni, ég hugsaði bara; „Ég ætla ekki að grenja núna“ en ég hlusta ótrúlega mikið á þetta lag ennþá,“ segir Katla um lagið sem hitti hana beint í hjartastað.

Hvað er flottasta Eurovisiondress allra tíma?

„Ég verð eiginlega að segja Måneskin í fyrra. Ég elskaði þau og þau voru í trylltum fötum,“ segir Katla og gefur ítölsku rokkgrúbbunni sem sigraði Eurosvisionkeppnina 2021 sitt atkvæði. „Mér finnst ég reyndar líka þurfa að nefna Pollapönk. Lituðu jakkafötin þeirra voru frekar flott.“

Hvað er það við þitt lag sem sker sig úr frá öðrum lögum Söngvakeppninnar í ár?

„Mér finnst mikil dulúð yfir laginu, það er mjög dularfullt. Textinn er mjög fallegt ferli en það sem mér finnst vera svolítið einkennandi við lagið er hversu fallegur textinn er. Kiddi fær alveg fullt hús stiga fyrir hann frá mér,“ segir Katla og tekur það fram að sér líki vel við öll lögin sem eru í keppninni í ár. „Lagið okkar er frekar kaflaskipt, þetta er stundum popplag og stundum ballaða með yfirgnæfandi dramatík. Það er dulúðin sem sker sig úr,“ segir hún.

Hvernig hélstu þú upp á Eurovision á síðasta ári?

„Ég í alvöru átti mjög erfitt með Eurovision í fyrra. Mér fannst þetta allt svo ósanngjarnt og ég sver það ég felldi tár. Þetta var svona svipuð tilfinning eins og með handbolta landsliðið núna um daginn. Ég horfði á keppnina með vinkonum mínum heima hjá náskyldri frænku Daða í Gagnamagninu þannig það voru margar tilfinningar sem fóru í gegn hjá okkur,“ útskýrir Katla og segir Íslendinga oft vera frekar seinheppna. 

„Þau náðu geggjuðum árangri með þessari æfingaupptöku og lögin sem voru fyrir ofan þau voru sturlað góð þannig þetta fór allt eins og það átti að fara og endaði vel,“ segir hún og var ánægð með frammistöðu Daða og Gagnamagnsins. 

„Erum við ekki bara of góð fyrir heiminn? Of mikil ógn fyrir aðrar þjóðir og þess vegna er alltaf verið að planta einhverjum óförum á okkur eins og Covid og svona?“ spyr Katla sjálfa sig og hlær.

Manst þú í hverju Ari Ólafsson var klæddur þegar hann keppti í Eurovision árið 2018?

„Já, það man ég. Eða ég held það. Hann var í jakkafötum sem voru hvít og rauð,“ segir Katla og viðurkennir að vera algert Eurovision nörd.

Hvaða Eurovisionlag værir þú líkleg til að syngja hástöfum í Carpool Karaoke?

„Ég myndi líklegast taka mitt uppáhalds lag, You Let Me Walk Alone. Ég kann það utan að og elska það svo mikið. Ég myndi jafnvel henda mér í Is It True með Jóhönnu Guðrúnu eða Tell Me Why með Telmu og Einari Ágústi og enda þetta svo á Nínu. Það er nauðsynlegt að taka Nínu til að fá fólk til að syngja saman en kannski væri betra að enda þetta á Tell Me Why til þess að enda þetta á stuði. Það er fáránlega gott „vibe“ í þessu lagi,“ segir Katla skellihlæjandi. „Þá er ég búin að plana þennan Carpool-þátt. Þið komið þessu í kring þarna hjá Mogganum, splæsið í einhverja Moggarútu og „let's go“ með þetta,“ segir Katla skellihlæjandi að lokum. 

mbl.is
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sólveig Pálsdóttir
4
Ragnheiður Gestsdóttir
5
Guðrún frá Lundi

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Í dag er ekki rétti tíminn til þess að spila af fingrum fram. Maki þinn fær frábæra hugmynd sem þið ættuð að hrinda í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sólveig Pálsdóttir
4
Ragnheiður Gestsdóttir
5
Guðrún frá Lundi

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Í dag er ekki rétti tíminn til þess að spila af fingrum fram. Maki þinn fær frábæra hugmynd sem þið ættuð að hrinda í framkvæmd.