Skemmtistaðurinn The Palace staðsettur í Bridgewater á Englandi hélt einstakt skemmtikvöld á dögunum og var staðurinn einungis opinn þeim sem eru 60 ára og eldri. Fjöldi „eldri“ djammara mætti á svæðið og dansaði frá sér allt vit, en mikil stemning ríkti og var fólk upp í nírætt á dansgólfinu.
Breski fréttamiðillinn BBC birti stórskemmtilegt myndskeið frá kvöldinu, en þar sjást glaðir gestir rifja upp gömlu dansana og gömlu góðu dagana.
„Þetta er svo mikið fjör og yndisleg hugmynd,“ sagði Gilly, 87 ára, sem klæddi sig upp í sparigallann í tilefni dagsins.