Hann er dauður fyrir mér!

Kerry King er fæddur með málm í æðum.
Kerry King er fæddur með málm í æðum. Mbl.is/Ethan Miller

„Hann er dauður fyrir mér!“ segir Kerry King, gítarleikari Slayer, um sinn gamla félaga úr þrassbandinu sáluga, trymbilinn Dave Lombardo, í nýju viðtali við tónlistartímaritið Rolling Stone.

King er spurður út í samband sitt við gömlu félagana sem upphaflega voru með honum í Slayer, það er Tom Araya, söngvara og bassaleikara, og téðan Lombardo. Jeff Hanneman gítarleikari lést árið 2013. Synd væri að segja að þeir væru nánir.

Þegar Lombardo var í Slayer í seinna skiptið (2001-13) lauk dvöl hans vegna ágreinings um greiðslur sem honum fannst hann eiga rétt á. King kveðst hafa staðið lengst með honum en Lombardo á endanum hent honum fyrir strætó. „Hann má hoppa upp í rassgatið á sér.“

King vandar Dave Lombardo ekki kveðjurnar.
King vandar Dave Lombardo ekki kveðjurnar. AFP/Yamil Lage


King kann betur við Araya en
hefur þó ekki heyrt í honum síðan leiðir skildi í lok árs 2019, ekki einu sinni í smáskilaboðum. Skýringin er sú að þeir eru mjög ólíkir menn. Hann kveðst þó alveg myndu setjast niður með Araya, kæmi sú staða upp. Og fá sér eins og eitt skot af tekíla.   ​

Nýtt lag komið út

Slayer rifaði seglin í árslok 2019, og varð mörgum harmdauði, en biðinni eftir nýrri músík frá King lauk á dögunum þegar fyrsta smáskífan, Idle Hands, af nýrri breiðskífu, From Hell I Rise, leit dagsins ljós. Platan í heild kemur út 17. maí. Idle Hands staðfestir, eins og við var að búast, að King hefur ekki slitið upp ræturnar – við erum að tala um gargandi slayerskt þrass.

King veitir sjaldan viðtöl en tímaritið Rolling Stone náði þó í skottið á honum af þessu tilefni. Þar segir gítarleikarinn nýja lagið gefa skýra vísbendingu um það sem hann hafi verið að sýsla með sínu fólki undanfarin fjögur ár og hálfu betur.

Engir viðvaningar eru í nýja bandinu hans Kings. Paul Bostaph …
Engir viðvaningar eru í nýja bandinu hans Kings. Paul Bostaph (Slayer) trommar, Kyle Sanders (Hellyeah) er á bassa, Phil Demmel (áður í Machine Head) spilar á gítar og Mark Osegueda (Death Angel) sér um sönginn. Hér eru þeir ásamt gítartækninum Warren Lee. Ljósmynd/Andrew Stuart


King talar um að „þungt stöff, pönkað stöff, drungalegt stöff og kynlegt stöff“ sé að finna á plötunni og menn haldi hvergi aftur af sér. „Hraðinn er herkúlesískur. Hafi menn á einhverjum tíma haft ánægju af Slayer ættu þeir að finna sitthvað við sitt skap, hvort sem það er klassískt pönk, hratt rokk, þrass eða bara tært og ómengað þungarokk,“ segir King.

Þetta kallast á við gamlan frasa frá King, sem ýmsum er kær. „Væri ég ekki í Slayer sjálfur, þá væri ég Slayer-aðdáandi.“

Grjóthart. ​

Mörgum til ómældrar gleði kveðst King eiga helling inni. „Enda þótt plata sé í pípunum á ég enn eftir að leggja lokahönd á mörg lög. Þetta er það sem ég kann … í fyrsta lagi músík, í öðru lagi málmur. Það hefur verið snar þáttur í lífi mínu í 40 ár og ég er hvergi nærri hættur.“

Nánar er fjallað um Kerry King í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er engin ástæða til þess að láta hugfallast þótt hlutirnir gangi ekki nákvæmlega eins og þú helst vilt. Himintunglin launa þér þolinmæðina.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er engin ástæða til þess að láta hugfallast þótt hlutirnir gangi ekki nákvæmlega eins og þú helst vilt. Himintunglin launa þér þolinmæðina.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant