„Þetta er tónlistarafrek út af fyrir sig“

Álfrún segir Diablo Cody vera þekkta fyrir að nálgast flókin …
Álfrún segir Diablo Cody vera þekkta fyrir að nálgast flókin og erfið málefni með góðum skammti af húmor. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

Söngleikurinn Eitruð lítil pilla, sem byggður er á tónlist af plötu Alanis Morissette Jagged Little Pill verður frumsýndur annað kvöld klukkan 20 í Borgarleikhúsinu. Var platan talin ein sú áhrifamesta á tíunda áratugnum en hún er jafnframt ein söluhæsta hljómplata allra tíma. Þá þykir tónlist Morissette einkennast af óbeisluðum krafti og hráum og hnitmiðuðum textum en lög á borð við „You Oughta Know“, „You Learn“ og „Ironic“ eru ótvírætt meðal helstu einkennislaga tíunda áratugarins.

„Þessi plata, sem við þýðum Eitruð lítil pilla, er ein mest selda rokkplata í Bandaríkjunum þannig að fyrst og fremst var það músíkin sem kveikti áhuga til að byrja með,“ segir Álfrún Helga Örnólfsdóttir, leikstjóri og leikari, spurð að því hvernig það hafi komið til að þessi söngleikur var valinn til sýningar hér á landi. „Handritið er ótrúlega sterkt og sagan á brýnt erindi við samtímann. Það sem er líka svo spennandi er að þetta er Evrópufrumsýning.“

Fékk algjört nostalgíukast

Söngleikurinn var frumsýndur á Broadway í nóvember árið 2019 og hlaut hann tvenn Tony-verðlaun og 15 tilnefningar auk Grammy-verðlauna fyrir bestu söngleikjahljómplötuna.

„Ég var 14 ára þegar platan kemur út árið 1995 og ég man eftir því að hafa arkað í Skífuna á Laugaveginum í einhverri slyddu og slabbi til að kaupa mér þennan disk. Svo var hann bara á „repeat“ næstu árin,“ segir Álfrún og hlær.

„Ég fékk því algjört nostalgíukast þegar ég byrjaði að hlusta aftur á tónlistina og mundi einmitt hvað hún er ótrúlega grípandi. Textarnir og þessi hrái og sanni tónn Alanis fara með mann í þvílíkt tilfinningaferðalag. Platan hefur enn þá sömu áhrif á mig núna og þegar ég var unglingur svo það er einhver galdur þarna,“ segir hún og bætir því við að sem leikstjóri sé svo mikilvægt að hafa efnivið sem maður sé innblásinn af.

Smá tónleikafílingur

Spurð að því hvernig höfundunum hafi tekist upp við að flétta lögin inn í söguþráðinn segir Álfrún að útkoman sé fyrst og fremst alveg mögnuð.

„Þetta eru algjörlega lögin hennar eins og við þekkjum þau en það er búið að bæta inn í útsetningarnar meira af bakraddakórum. Það hefur tekið þvílíkan tíma fyrir leikhópinn að læra allar þessar raddanir svo þetta er tónlistarafrek út af fyrir sig. En þessar útsetningar virka mjög vel, þær stækka einhvern veginn söguheiminn og skapa nokkur gæsahúðarmóment, skapa smá meiri söngleikjafíling án þess að missa tengingu við rokkið og hráleikann,“ segir hún og tekur fram í kjölfarið að platan sé einstaklega beinskeytt, einlæg og hrá.

„Við notum svolítið þessa tónleikafagurfræði í uppsetningunni. Bæði í útliti og fíling. Það er til dæmis fimm manna hljómsveit sem flytur tónlistina á sviðinu, uppi á þakinu á húsi fjölskyldunnar. Þannig að þú ert greinilega á tónleikum en svo mætir tíu manna kór og dansarar og sprengja út raunveruleikann.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í Morgunblaðinu í dag

Textar Alanis Morisette þykja hráir og hnitmiðaðir en lög á …
Textar Alanis Morisette þykja hráir og hnitmiðaðir en lög á borð við „You Oughta Know“ og „Ironic“ voru ansi vinsæl á tíunda áratugnum. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert gæddur góðum hæfileikum en hefur ekki nægilegt sjálfstraust til að nýta þér þá. Ástamálin ganga vel, þú svífur um á bleiku skýi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Gestsdóttir
2
Hugrún Björnsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Anna Margrét Sigurðardóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert gæddur góðum hæfileikum en hefur ekki nægilegt sjálfstraust til að nýta þér þá. Ástamálin ganga vel, þú svífur um á bleiku skýi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Gestsdóttir
2
Hugrún Björnsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Anna Margrét Sigurðardóttir