Dásamlegur óður til mæðra

„Leikhópurinn nálgast efniviðinn af virðingu, kærleika og ekki síst húmor,“ …
„Leikhópurinn nálgast efniviðinn af virðingu, kærleika og ekki síst húmor,“ segir í leikdóminum sem birtur er í Morgunblaðinu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mæður er frábær sýning sem öll ættu að sjá, jafnt mæður sem feður. Við sem gengið höfum í gegnum það ferli að ganga með og fæða barn getum notið þess að hlæja og gráta með persónum verksins þegar fæðingarorlofstíminn er rifjaður upp með öllum sínum svefnlausu nóttum, brjóstagjöf, barnamauki og kúkableyjum. Þau sem ekki hafa persónulega reynslu af foreldrahlutverkinu geta fengið ómetanlega innsýn í þennan reynsluheim sem er allt í senn hrikalega erfiður og krefjandi en líka dásamlegur og gefandi,“ skrifar Silja Björk Huldudóttir í leikdómi sínum um  uppfærslu leikhópsins Pinklar á Mæður í Iðnó í leikstjórn Álfrúnar Örnólfsdóttur og gefur uppfærslunni 4,5 stjörnur. 

„Fátt er meira krefjandi en foreldrahlutverkið. Vansvefta og oft á tíðum í hormónarússi eftir meðgöngu og fæðingu tökum við ábyrgð á ósjálfbjarga lítilli manneskju allan sólarhringinn og reynum okkar besta til að halda henni á lífi og koma til þroska meðan við setjum okkar eigin þarfir í annað sæti. Litla manneskjan er afar viðkvæm en hefur á sama tíma takmarkaða getu til að tjá sig. Hún grætur því eða öskrar til skiptis ef eitthvað er að þar til foreldrarnir giska á hvað gæti hjálpað. Slíkt getur eðlilega reynt á þolrifin og vandasamt að sýna bæði skapstillingu og ástúð þegar foreldri liggur við bugun vegna örmögnunar og vanmáttarkenndar. Á sama tíma má segja að hjartað stækki um heilt númer með tilurð afkvæmisins með tilheyrandi hamingju, ást og umhyggju,“ skrifar Silja og bendir á að Mæður setji fókus á allar þær flóknu tilfinningar sem fylgi því að takast á við móðurhlutverkið. 

Mæður, sem er eftir Önnu Bro, Juliu Lahme, Mette Marie Lei Lange og Christinu Sederqvist, var frumsýnt í Folketeatret í Kaupmannahöfn fyrir rétt tæpum tveimur árum. „Íslenski leikhópurinn hefur lagað verkið töluvert að sínum reynsluheimi og samfélagi, sem er til mikilla bóta. Meginpersónur verksins eru fjórar nýbakaðar mæður, Fífa (Aðalbjörg Árnadóttir), Júlí (Kristín Pétursdóttir), Móa (Lilja Nótt Þórarinsdóttir) og Andrea (María Heba Þorkelsdóttir), sem kynnast í mæðraeftirliti og er ráðlagt að skiptast á reynslusögum og ræða bæði það sem gengur vel og illa í nýja hlutverkinu. Á milli funda bregða leikkonurnar sér léttilega í önnur smærri hlutverk, sem fjölgar röddum í flórunni, en sýningin minnir á stundum á uppistand eða mósaík,“ skrifar Silja og heldur áfram:  

Mæður fjallar um allt sem þig langaði að vita um tímann og tilfinningarnar sem fylgja fæðingu og fyrstu mánuðunum í lífi barns. En sýningin fjallar líka um allt sem þú vissir ekki að gagnlegt gæti verið að vita. Hvern hefði til dæmis grunað fyrir fram að meltingarstarfsemi ungbarna gæti orðið aðalatriði í lífi foreldra vikum og jafnvel mánuðum saman? Hér er fjallað um allt frá glasafrjóvgun til gyllinæðar með viðkomu í svefnklámi, öllum goðsögnunum um móðurhlutverkið, óttanum við að missa barnið sitt, einmanaleika móður sem dvelur ein heima með ungt barn, brjóstagjöf, ást, umhyggju, þakklæti, bókum um barnauppeldi, skilnaði, þvagleka, hversu tíminn getur orðið afstæður og liðið bæði svo hratt þegar horft er á þroska nýs einstaklings og hægt þegar svefnvana móðir telur niður mínúturnar þar til næst er hægt að leggja sig.“ Leikdóminn má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson