Karl prins greiddi 350 ára gamla skuld

Reuters

Karl Bretaprins hefur greitt upp skuld sem konungsfjölskyldan setti sig í fyrir rúmlega 350 árum, en allir vextir voru felldir niður. Þeir hefðu getað numið tugum þúsunda punda.

Karl greiddi skuldina, 453 pund og 15 pens, við Clothiers fyrirtækið í Worcester. Það var nafni hans, Karl II konungur, sem stofnaði til skuldarinnar árið 1651, er hann pantaði einkennisbúninga á hermenn sína fyrir baráttuna við Oliver Cromwell það ár.

„Svo virðist sem starfsmenn Clothiers fyrirtækisins hafi gott minni,“ sagði Karl er hann greiddi skuldina. Hann kvaðst þó ekki ætla að greiða vexti.

Yfirmaður Clothiers, Philip Sawyer, tók við greiðslunni og gaf prinsinum kvittun.

Ef vextir hefðu verið teknir með í reikninginn hefði skuldin verið komin í um 47.500 pund, að því er BBC segir.

mbl.is

Bloggað um fréttina